135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[17:02]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Alma Lísa Jóhannsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hlutans sem lesa má á þskj. 1346 og er 294. mál þingsins, en frumvarpið sem hér er til umræðu var flutt samhliða frumvarpi til laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, eins og hér hefur komið fram og öðlast gildi 1. janúar 2009. Ákvæðið um nálgunarbann var tekið út úr þeim lögum með það að markmiði að gera ákvæðið að sérlögum.

Minni hluti allsherjarnefndar telur mikilvægt að tryggja réttarstöðu þeirra sem sæta ofsóknum í samfélaginu. Lagaákvæði um nálgunarbann hafa því miður ekki uppfyllt þau skilyrði og þær væntingar sem gerðar voru til þeirra, þau hafa reynst veik, þ.e. þau hafa ekki uppfyllt það að vernda fórnarlömb ofbeldis. Því er óhjákvæmilegt að breyta þeim í grundvallaratriðum svo hægt sé að beita þeim á markvissan og skilvirkan hátt. Breytingartillögum meiri hlutans er ætlað að tryggja það að ákveðnu marki og leggst minni hlutinn ekki gegn þeim en krefst þess að tækifærið sé nýtt til þess að bæta stöðu þolenda heimilisofbeldis.

Dómur Hæstaréttar, sem vísað var til áðan í ræðu hv. formanns allsherjarnefndar, frá 7. ágúst sl. þar sem úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um að maður grunaður um margháttað ofbeldi gegn þáverandi sambýliskonu sinni sæti ekki nálgunarbanni, þótt fullt tilefni hafi verið til, hefur vakið mjög hörð viðbrögð í samfélaginu og sýnir þá annmarka sem þetta úrræði hefur með núverandi löggjöf.

Það er mikilvægt að muna af hverju við beitum þessu úrræði og af hverju farið er fram á nálgunarbann í slíkum málum. Telur minni hluti allsherjarnefndar að frelsi einstaklinga skuli metið í slíkum tilvikum ofar skyldu ríkja til að vernda þegna sína, þ.e. frelsi til að búa ekki við ofbeldi, og að sú skerðing sem farið er fram á að ofbeldismaður sæti sé í raun og veru léttvæg í samanburði við það sem sá sem verður fyrir ofbeldinu þarf að búa við. Ofbeldismaður á auðvitað lögvarinn rétt og ber að standa vörð um þau réttindi en þolandi ofbeldis á ekki síður rétt. Friðhelgi einkalífs er stjórnarskrárvarinn grundvallarréttur hvers einstaklings og hlutverk ríkisvaldsins er að tryggja öryggi fólks á opinberum vettvangi og á heimilum.

Það er mat minni hlutans að nálgunarbann sé lagaúrræði sem nýtist í ákveðnum tegundum mála, en ekki endilega sem úrræði fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis. Því sé nauðsynlegt að samhliða lagfæringum á lagaákvæðum um nálgunarbann verði hugað að réttarstöðu fórnarlamba heimilisofbeldis. Slíkt verður best gert með því að leiða í lög ákvæði um brottvísun af heimili og heimsóknarbann, sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt til síðan á 131. löggjafarþingi, nú síðast á 133. löggjafarþingi. Þar er um að ræða hina svonefndu austurrísku leið. Málið var flutt í fyrsta sinn á haustdögum 2003 og var óskað umsagna hjá fjölda aðila. Rómuðu félagasamtök og flestar stofnanir frumvarpið og töldu það skref í átt að auknu öryggi kvenna á eigin heimilum. Það eru fimm ár síðan, hæstv. forseti.

Með ákvæðum um brottvísun af heimili og heimsóknarbanni og þeim úrræðum sem þar eru lögð til og úrræðum í frumvarpi til laga um nálgunarbann eru ákveðin líkindi, sem gera það að verkum að vel fer á því að vista þau í einum og sömu lögunum. Því leggur minni hlutinn til talsverðar breytingar á frumvarpinu, m.a. á heiti þeirra, þ.e. að þau nefnist lög um nálgunarbann, brottvísun af heimili og heimsóknarbann.

Það er mat minni hlutans að með góðum vilja hefði verið hægt að nýta tíma nefndarinnar í sumar til að gera nauðsynlegar athuganir á þróun löggjafar um nálgunarbann í nágrannalöndum okkar ásamt því að kanna reynsluna af austurrísku leiðinni í þeim löndum þar sem hún hefur verið innleidd. Í ljós hefur komið að ánægja er með lögin í þessum löndum og hafa þau reynst þolendum ofbeldis réttarbót. Hefðu slíkar athuganir getað flýtt fyrir því að lagaákvæði um nálgunarbann yrðu markviss og skilvirk ásamt því að gera nauðsynlegar breytingar á því óviðunandi lagaumhverfi sem fórnarlömb heimilisofbeldis hafa þurft að búa við allt of lengi. Einnig hefði slík athugun að öllum líkindum tekið af allan vafa um gildi þeirra breytinga sem óskað var eftir að gera.

Einnig telur minni hluti nefndarinnar með ólíkindum, í ljósi þess að frumvarp um austurrísku leiðina svokölluðu hefur verið flutt síðustu fimm ár, að nefndarmenn skuli ekki hafa nein gögn, engin gögn, enga vitneskju, ekkert til um það, hvernig málin standa í Austurríki, Noregi, Danmörku og Svíþjóð, sérstaklega þar sem ákveðið var fyrir þinghlé 2007 að kannað yrði af þinginu, allsherjarnefnd, hvort ástæða væri til að fara þessa leið hér á landi. Það er eitt ár síðan og menn hafa að mínu mati haft nægan tíma í það verkefni. Því spyr ég: Vantar kannski bara viljann?

Í nefndaráliti meiri hlutans koma fram efasemdir um að tímabært sé að færa heimildina til beitingar nálgunarbanni frá dómstólum til lögreglu og er því lýst sem áliti meiri hlutans að áður en af slíkri breytingu verði þurfi að fara fram skoðun á mögulegum áhrifum þess. Það er hins vegar óljóst hvert meiri hlutinn beinir því áliti sínu. Það kom fram í ræðu hv. formanns allsherjarnefndar áðan að hann beinir því til dómsmálaráðuneytisins, ef ég hef heyrt rétt. Minni hluti nefndarinnar telur reynslu nágrannalandanna sýna að úrræðið sé betur komið í höndum lögreglu og við hefðum viljað að kapp hefði verið lagt á að sýna fram á það svo að hægt hefði verið að innleiða nauðsynlegar breytingar í lagaumhverfi okkar í þessari atrennu. Einnig kom fram í máli flestra þeirra sem komu á fund nefndarinnar að með því að færa heimild til beitingar nálgunarbanni til lögreglu væri úrræðið gert virkara og voru flestir sammála um að það væri leið sem ákjósanlegt væri að fara.

Mig langar að ræða aðeins meira um tímaannmarkana og þá staðreynd að beina á því aftur til ráðuneytisins. Þann 10. október 2007, þ.e. fyrir ári síðan, spurði hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hæstv. dómsmálaráðherra að því hvernig skoðun á aðgerðum til verndar þeim sem verða fyrir ofbeldi á heimili sínu, sem vísað var frá allsherjarnefnd til ríkisstjórnar, gengi. Þá kom fram í svari hæstv. dómsmálaráðherra að ráðuneytið hefði haft þetta mál til skoðunar yfir sumarmánuðina og að flutt yrði sérstakt frumvarp um nálgunarbann, sem er hér til umræðu, og að ekki yrði gert ráð fyrir efnislegum breytingum á gildandi rétti í frumvarpinu um nálgunarbann. Ég geri þess vegna ráð fyrir að á þeim tíma sem þetta var í skoðun hjá dómsmálaráðuneytinu hafi bæði flutningur á beitingu nálgunarbanns til lögreglu og svokölluð austurrísk leið verið til umræðu og því finnst mér mjög óeðlilegt að ráðuneytið hafi ekki nein gögn og að nefndarmenn skuli ekki þekkja þessi mál nægilega vel til að taka ákvörðun og að það þurfi að skoða það meir.

Málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga komu einnig til umræðu í nefndinni í tengslum við yfirfærslu heimildar til beitingar nálgunarbanni yfir til lögreglu og það er mat minni hlutans að sakborningi sé tryggður andmælaréttur þar sem fram kemur í breytingartillögunum að í kjölfar úrskurðar um nálgunarbann yrði hann ávallt borinn undir dómara og þar með er andmælaréttar gætt, enda eru fordæmi fyrir því að andmælaréttar sé gætt á sambærilegan hátt í íslenskum lögum.

Ríkisstjórn Íslands hefur skuldbundið sig ásamt ríkisstjórnum hinna Norðurlandanna til að vinna markvisst gegn kynbundnu ofbeldi en það verður að horfast í augu við þann napra veruleika að konur og börn eru beitt ofbeldi í samfélagi okkar og ofbeldið á sér oft stað inni á heimilum fórnarlambanna. Í Noregi, Svíþjóð og Danmörku hafa verið leidd í lög ákvæði sem taka mið af austurrísku aðferðinni og hefur framkvæmd þeirra gefið góða raun.

Minni hlutinn leggur einnig áherslu á að breytingar þær sem hér eru lagðar til eru í samræmi við tilmæli alþjóðlegra eftirlitsstofnana á sviði mannréttinda og breytingartillögurnar til þess fallnar að auka réttarvernd kvenna og barna. Vekur minni hlutinn sérstaka athygli á tilmælum þings Evrópuráðsins sem leggur til lagaheimild til brottflutnings ofbeldismanns af heimili, þ.e. upptöku austurrísku leiðarinnar, en með því er komið í veg fyrir þær afkáralegu aðstæður sem skapast við heimilisofbeldi þar sem fórnarlambið neyðist til að yfirgefa heimilið en ekki ofbeldismaðurinn. Austurríska aðferðin felur í sér úrræði til verndar þeim sem verða fyrir ofbeldi á heimilum með því að lögregla hefur við tilteknar kringumstæður heimild til að fjarlægja ofbeldismenn af heimili sínu og banna þeim heimsóknir þangað og í nánasta umhverfi í tiltekinn tíma. Með því að fara þessa leið yrði stigið mjög mikilvægt skref í baráttu gegn heimilisofbeldi. Þannig þyrftu þeir sem eru beittir ofbeldi á heimilum ekki lengur að flýja heimili sitt heldur yrði þeim sem brýtur af sér gert að yfirgefa það samkvæmt ákvörðun lögreglu.

Minni hlutinn telur að ákvæði af þessu tagi brjóti ekki gegn ákvæðum mannréttindasamninga sem Ísland á aðild að og ætlað er að vernda friðhelgi heimilis og einkalífs til verndar réttindum annarra. Sama á við um 71. gr. stjórnarskrár en það færi gegn tilgangi þessara samninga að túlka friðhelgi einkalífsins þannig að í skjóli hennar sé heimilt að brjóta gegn frelsi og mannhelgi kvenna og barna. Nær væri að túlka friðhelgi einkalífs svo að fólk njóti öryggis og friðar á eigin heimilum.

Með breytingartillögum minni hlutans er komið til móts við ítrekuð tilmæli nefnda Sameinuðu þjóðanna, sem m.a. fylgja eftir samningnum um afnám allrar mismununar gagnvart konum, um að íslensk stjórnvöld tryggi úrræði sem gagnist fórnarlömbum heimilisofbeldis og komi á virkum lagafyrirmælum um nálgunarbann.

Alþjóðlegar eftirlitsstofnanir á sviði mannréttinda hafa lýst áhyggjum sínum af hárri tíðni heimilisofbeldis hér á landi og þeim hindrunum sem fórnarlömb heimilisofbeldis standa frammi fyrir þegar þau þurfa að leita réttar síns. Þessar hindranir eru sérstaklega augljósar þegar um konur af erlendum uppruna er að ræða og konur sem tilheyra hópum sem eiga undir högg að sækja. Bent hefur verið á að tryggja beri aðgang fórnarlamba að aðstoð. Þessi sjónarmið hafa einnig komið fram í umsögnum um frumvarpið og er þar talað um brýna nauðsyn þess að tilnefna og skipa réttargæslumann til handa þolendum heimilisofbeldis.

UNIFEM stendur þessa dagana fyrir átaki til að hvetja landsmenn til að skrifa undir áskorun til stjórnvalda um allan heim til að binda endi á ofbeldi gegn konum. Hæstv. utanríkisráðherra, samgönguráðherra og heilbrigðisráðherra hafa undirritað þessa áskorun í viðurvist fjölmiðla — og er gaman að því — og segja þannig nei við ofbeldi gegn konum. Ég fagna því eindregið og hvet ríkisstjórnina til þess að fylgja þessu eftir í verki. Aukin réttindi kvenna skipta máli eins og við vitum.

Ofbeldi gegn konum er málefni sem þolir enga bið. Við skulum gera okkur grein fyrir því að a.m.k. ein af hverjum þremur konum er barin, þvinguð til kynlífs eða misnotuð á annan hátt einhvern tíma á lífsleiðinni, þ.e. að hún er beitt ofbeldi vegna kyns síns, og það þarf auðvitað að grípa til aðgerða, við sjáum það öll, held ég.

Mannréttindaskrifstofa Íslands, lögmenn og starfsfólk neyðarmóttöku vegna nauðgana á Landspítala hafa sent allsherjarnefnd umsagnir vegna frumvarpsins þar sem hvatt er til þess að Ísland fari að dæmi Austurríkis og nú margra annarra Evrópuríkja. Umsagnir þessara aðila eru fylgiskjöl með nefndaráliti þessu.

Hvati breytinganna í Austurríki var stöðug fjölgun kvennaathvarfa þar í landi og vakti það fólk til vitundar um nauðsyn þess að bregðast við á annan hátt en gert hafði verið. Hér á landi ríkir mjög svipað ástand núna og fyrir lagasetninguna þar. Þeim fjölgar stöðugt sem leita í Kvennaathvarfið og umfang starfsemi Stígamóta og neyðarmóttöku vegna nauðgana gefa ekki til kynna að þetta sé vandamál sem minnkar heldur þvert á móti.

Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem minni hlutinn leggur til og liggja frammi á því þingskjali sem ég hef hér stiklað á. Ég hvet þingheim til þess að samþykkja þessar breytingartillögur minni hlutans.