135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[17:19]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Alma Lísa Jóhannsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum auðvitað öll á móti ofbeldi. Það vefengir það enginn. En það sem ég sagði var að mér finnst að við eigum að sýna það í verki og koma austurrísku leiðinni inn í löggjöfina vegna þess að hún er tæki til þess að stoppa það ofbeldi sem á sér stað inni á heimilum fólks. Það er það sem ég sagði.

Ég hef engar efasemdir um að hv. þm. Sigurður Kári sé á móti ofbeldi. Hins vegar finnst mér að nefndin hafi haft mikinn tíma til að skoða málið. Það er búið að vera í skoðun síðan 2007 síðast. Því var vísað til dómsmálaráðuneytisins með það í huga að athuga m.a. hvort það kæmi til greina að skoða austurrísku leiðina. Mér finnst bara vera kominn tími til að fara að gera eitthvað í málinu en ekki aðeins að tala um að það þurfi að skoða það.

Varðandi þyngri og lengri málsmeðferð þá erum við ekki að leggja neitt slíkt til. Það kom fram í máli annarra sem komu á fund nefndarinnar að þeir hefðu ekki trú á því að sú mundi verða raunin. Við erum að tala um að fólk fái andmælarétt fyrir dómi. Þar af leiðandi kemur biðin ekki til sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. Sigurður Kári sé hér að vísa í.