135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[17:26]
Hlusta

Samúel Örn Erlingsson (F):

Virðulegi forseti. Ég skrifaði undir álit meiri hluta allsherjarnefndar um þetta mál með fyrirvara og fyrirvarinn er þessi:

Ég tel tillögur allsherjarnefndar um breytingar á frumvarpinu um nálgunarbann vera til bóta en þær ættu að ganga lengra. Ég er þeirrar skoðunar að réttara væri að færa ákvörðun um nálgunarbann til lögreglu en síðan væri dómstóla að fjalla um þær. Ég trúi að þannig komist nálgunarbann á fyrr og með skilvirkari hætti en nú er.

Í máli lögreglustjóra, ríkissaksóknara og fulltrúa dómstólaráðs fyrir nefndinni kom skýrt fram að einbeittir brotamenn á þessu sviði geta haft lögin að engu með því að fara í felur og hafa þannig tafið ferlið í einstökum tilfellum um daga, vikur eða jafnvel mánuði. Með því að færa ákvörðunarvald til lögreglu yrði öll framkvæmd einfaldari, minni hagsmunum yrði fórnað fyrir meiri, fórnarlamb yrði verndað fyrst en réttur meints brotamanns jafnframt tryggður með málsmeðferð fyrir dómstólum í framhaldi jafnvel þótt það taki lengri tíma.

Í nefndarálitinu kemur fram að fram skuli fara ítarleg skoðun á því með nágrannaþjóðum hvernig slíkur háttur hefur reynst. Ég fellst á að bíða megi eftir slíku í trausti þess að drifið verði í nefndri skoðun.