135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[17:45]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér nefndarálit meiri hluta og minni hluta allsherjarnefndar um frumvarp til laga um nálgunarbann. Farið hefur verið vel yfir það hér í umræðunni hver meginálitamálin hafi verið í störfum nefndarinnar. Ég hef tekið þátt í störfum allsherjarnefndar allt síðasta kjörtímabil og flutt talsvert af málum sem tengjast málasviði nefndarinnar, m.a. þessa margumræddu austurrísku leið og ég kem til með að reyna að hamra það járn áfram eins og mögulegt er.

Ég vil segja áður en ég held lengra, hæstv. forseti, að það gerðist hér á vordögum í fátinu sem stóð þegar við vorum að reyna að ljúka þingstörfum fyrir sumarhlé að breytingartillögu um málið var dreift áður en hún varð fullburða. Það var fyrir hálfgerð mistök að hún fór út í flaustri, ef svo má segja. Hún var ekki alls kostar rétt. Ég las hana síðan yfir í veikindum mínum í gær og fyrradag en sé að ég hef heldur ekki lesið hana nægilega vel því að hún er enn röng. Annar töluliðurinn í tillögunni er að því leytinu til rangur að við í minni hlutanum ætlum ekki að leggja það til í þessari atrennu að lögregla fái heimild til þess að beita nálgunarbanni. Við ætlum að styðja tillögur meiri hlutans hvað þetta atriði málsins varðar. Við teljum hins vegar að það hefði mátt skoða þessi mál betur í nefndinni og fyrir alla muni fyrr.

Mér finnst það óásættanlegt í þessu alvarlega máli að það skuli ekki vera fyrr en þegar nánast er verið að afgreiða málið út úr nefndinni að réttarfarsnefnd kveður upp úr með að það verði svo tafsamt að láta lögregluna hafa úrræðið. Að það komi til með að veita þeim sem á að beita nálgunarbanninu á andmælarétt og þar af leiðandi sé bakkað með alla hugmyndafræðina sem okkur fannst vera komin algjörlega á lokapunktinn þegar við fórum í sumarfrí. Af hverju var málið ekki klárað betur og ef einhver vafamál voru í vor af hverju var þá ekki unnið í nefndinni í sumar? Mál af þessu tagi sem búið er að velkjast hérna og fara fyrir nefndina aftur og aftur, fara fyrir ríkisstjórn, fara í sérstaka skoðun í ráðuneytinu — af hverju leyfir nefndin sér að afgreiða það enn eina ferðina með því að segja: Nei, við verðum að skoða þetta betur?

Það er ekki ásættanlegt. Og þess vegna rennur mér í skap að við erum búin að taka mjög ítarlega umræðu um þetta mál. Samfylkingin hefur stutt okkur Vinstri græn í þessu máli með ráðum og dáð allt síðasta kjörtímabil og þó að nú sé komið nýtt þing og nýtt fólk í allsherjarnefnd þá er hér sami dómsmálaráðherrann. Og ég spurði þennan sama hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, að því í haust hvað ríkisstjórnin hefði gert þetta sumar sem hún hafði þetta mál til skoðunar, til sérstakrar umfjöllunar. Það kom upp úr kafinu hjá hæstv. ráðherra að ekkert hafði verið gert. Sá hæstv. dómsmálaráðherra hafði með öðrum orðum engan áhuga á að innleiða hér austurrísku leiðina. Það verður ekki gert nema með vinnu í allsherjarnefnd.

Ef hv. stjórnarþingmenn Samfylkingarinnar eru tilbúnir að leggja okkur lið í þessum málum verða þeir að beita sér í því, og þeir eiga að beita sér í því í nefndarstarfinu. Og ég lýsi vonbrigðum með að það skyldi ekki hafa verið gert allan síðasta vetur þegar vitað var að málið yrði til umfjöllunar og var til umfjöllunar í nefndinni. Þá gætum við verið komin lengra en raun ber vitni núna.

Það má sjá það á umsögnum í þessu máli frá neyðarmóttöku vegna nauðgana að við erum hér með mjög alvarleg álitamál. Mér finnst vitnisburður starfsfólks og lögfræðinga á neyðarmóttöku Landspítala – háskólasjúkrahúss vega svo þungt að mér finnst nánast að nefndin hefði, lesandi þessar blaðsíður sem hún fékk frá neyðarmóttökunni, átt að kalla þá lögfræðinga sem þar hafa vélað um málin til þess að ræða þá við þessa réttarfarsnefnd sem er á öðru máli en lögfræðingarnir á neyðarmóttökunni. Það átti að leggja sig fram um að ná þeim niðurstöðum sem neyðarmóttaka vegna nauðgana leggur til.

Hæstv. forseti. Við höfum lagt fram breytingartillögu. Hún er gölluð. Ég geri ráð fyrir því, áður en við förum í atkvæðagreiðslu, að prenta hana upp aftur og ég kem til með að beita mér fyrir því. Mér finnst skipta verulegu máli að ríkisstjórnin sem nú starfar starfi samkvæmt aðgerðaráætlun gegn kynbundnu ofbeldi sem samþykkt var 2006. Meðal þess sem þar er sagt, og er tímasett í aðgerðaráætluninni, er að beita skuli ákveðnum aðferðum við að vinna gegn heimilisofbeldi. Austurríska aðferðin er allra virkasta leiðin sem vestræn lönd á seinni tímum hafa fundið upp til þess að reyna að vinna á skilvirkan hátt gegn heimilisofbeldi. Það er mikill ábyrgðarhluti hjá allsherjarnefnd að hún skuli ekki horfast í augu við það að þarna er tæki sem Norðurlöndin hafa verið að innleiða. Evrópuráðið hefur hvatt aðildarþjóðir til þess að innleiða það, við höfum haft tækifæri til þess að innleiða það í mörg ár, en erum að láta þetta tækifæri renna okkur úr greipum núna.

Ég lýsi vonbrigðum með það en stend þó við það að við erum hér með breytingartillögu sem gerir þingheimi kleift að samþykkja í þessari lotu þau ákvæði á þann hátt sem við höfum sett þau fram.