135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[18:00]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég les hér lýsingu í dómi Hæstaréttar, með leyfi forseta:

„Af gögnum þessa máls má sjá að áverkar á brotaþola voru m.a. rifbeinsbrot, sprungin hljóðhimna auk þess sem hún var með fjölda marbletta víðs vegar um líkamann. Þá liggur fyrir í málinu lögregluskýrsla þar sem brotaþoli kærir varnaraðila fyrir líkamsárás tiltekna aðfaranótt í desember 2007 þar sem hann hafði látið hnefahögg dynja á henni. Einnig eru til rannsóknir hjá sóknaraðila ætluð kynferðisbrot varnaraðila gegn brotaþola sem að hennar sögn hafa staðið yfir um langt skeið. Felast brotin að hennar sögn í því að varnaraðili hafi neytt hana til ýmissa kynferðismaka bæði með honum og með ókunnugum mönnum og hefði varnaraðili tekið atburðina upp á myndband. Hafi varnaraðili stýrt því sem gert var og gefið fyrirmæli sem hún hafi ekki þorað annað en að hlýða þar sem neitun hennar hafi leitt til þess að varnaraðili beitti hana ofbeldi.“

Herra forseti. Þetta er lýsing í dómi Hæstaréttar á atburðum í máli lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn X þar sem krafist var nálgunarbanns. Skemmst er frá því að segja að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ekki lægi fyrir rökstudd ástæða til að ætla að varnaraðili mundi fremja brot gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni og raska á annan hátt friði hennar. Sem sagt, Hæstiréttur, þ.e. meiri hluti dómara, tveir af þremur, úrskurðaði að ekki væri uppfyllt skilyrðum 110. gr. laga nr. 19/1991 og hafnaði þess vegna kröfunni um nálgunarbann.

Nú læt ég öðrum eftir að meta hvort þetta hafi verið rétt og sanngjörn niðurstaða, en dómur er dómur og sagt er að enginn deili við dómarann, ekki satt? (Gripið fram í: Það gekk nú á knattspyrnuvellinum í gamla daga.) Þetta er miklu alvarlegra mál en eitthvað sem gerist á knattspyrnuvelli, svo ég svari þessari athugasemd. Hálærðir lögfræðingar líta svo á að rifbeinsbrot og sprungin hljóðhimna og endurtekinn hrottaskapur dugi ekki til að sanna og sýna að rökstudd ástæða sé fyrir hendi til að dæma mann í nálgunarbann.

Það var þetta mál og þessi niðurstaða Hæstaréttar sem leiddi til almennrar umræðu um gildi nálgunarbannsins og um lögin sem um þau fjalla. Svona eru lögin, sögðu lögspekingar og lögfræðingur varnaraðila málsins í Kastljóssþætti, ef ég man rétt, og yppti öxlum þegar hann var spurður um dóminn og málavexti. Ég er ekki að gagnrýna þau ummæli eða þá framkomu en ég er að vísa til þess að viðbrögðin voru auðvitað mikil fyrirlitning á þessari niðurstöðu dómsins en líka á því hvernig lögin voru túlkuð og ef það var rétt túlkun, hvers konar lög eru þá fyrir hendi?

Við meðferð þessa máls í hv. allsherjarnefnd hefur athyglin að mestu leyti beinst að því atriði hver eigi að hafa úrskurðarvaldið um nálgunarbannið. Þar hefur sem sagt komið fram tillaga um það að í stað úrskurðar dómstóla verði lögreglunni heimilað og veitt heimild til þess að úrskurða um nálgunarbann, enda yrði sá úrskurður lagður fyrir dómstóla strax í kjölfarið.

Niðurstaða nefndarinnar er sú að það skuli ekki gert að sinni enda þótt sá sem hér stendur sé þeirrar skoðunar að það séu yfirgnæfandi rök til þess að færa þetta vald frá dómstólunum til lögreglu. En eins og komið hefur fram í þessari umræðu mættu á fundi nefndarinnar margir þungavigtarlögfræðingar og málsmetandi menn og bentu á að hugsanlega gæti afleiðingin orðið sú að það mundi tefja málareksturinn og ég hef fallist á þau rök enda lít ég svo á að þessi lög, sem vonandi verða samþykkt á endanum, séu til bráðabirgða. Eins og hér hefur komið fram í ummælum og umræðu virðast flestir sammála um að stíga þessi skref lengra og djarfar á allra næstu vikum eða missirum og það er vel. Ég tel hins vegar meginmálið í þessari lagasetningu vera að breyta efnisinnihaldi laganna á þann veg að það fari ekkert á milli mála að nálgunarbanni sé beitt þegar fyrir liggur ekki rökstudd ástæða heldur ástæða til að ætla að ofbeldi hafi verið beitt.

Ég minni á að þetta mál fjallar allt um það að koma böndum á þá sem fremja eða hóta ofbeldi. Við erum að vernda brotaþola og ég tel að brotaþoli eigi að njóta vafans þegar eitthvað kann að orka tvímælis um það hvort þessar hættur og ógnir liggi fyrir. Ég held einmitt að gagnrýni á dóm Hæstaréttar, sem ég vitnaði til áðan, snúist fyrst og fremst um þann skilning dómara að rifbeinsbrot og sprungin hljóðhimna og endurteknar hótanir og þvingun til kynferðismaka væri ekki nægilegur rökstuðningur til nálgunarbanns.

Mér finnst það sem sagt vera aðalverkefnið að gera lögin skýr þess efnis að ef hætta á ógn sé fyrir hendi og ástæða sé til að óttast að ofbeldi eða hótun um ofbeldi verði beitt skuli meta stöðuna brotaþola í hag. Að því leyti eru tillögur frá hv. allsherjarnefnd til bóta að nú er gerð tillaga um það að í staðinn fyrir orðin „rökstudd ástæða“ standi einfaldlega „ástæða“ sem ég skil og túlka til rýmkunar á þeim forsendum sem metnar eru brotaþola til varnar.

Ég skrifaði undir álit meiri hluta allsherjarnefndar, ég hef engan fyrirvara á því vegna þess að ég skil vel og styð áhuga á að fá betri útskýringar og rökstuðning fyrir því að hægt sé réttarfarslega og stjórnsýslulega séð að færa úrskurð um nálgunarbann frá dómstólum til lögreglu. Ég held líka að þær tillögur sem koma frá nefndinni varðandi efnisatriði, um það sem ég nefndi áðan að breyta orðunum „rökstudd ástæða“ í „ástæða“ og enn fremur um það að stytta fresti og taka tillit til fyrra framferðis, séu allar í rétta átt og styðji það sjónarmið og það réttlæti að nálgunarbann sé sett. Þetta eru sem sagt nýir mælikvarðar sem settir eru inn í lögin og eru til bóta.

Ég hef svo hér í höndum tillögu frá minni hluta nefndarinnar. Það er að vísu búið að upplýsa það við þessa umræðu að fallið sé frá því að gera tillögu á þessu stigi málsins um að úrskurðurinn um nálgunarbannið sé fluttur frá dómstólum til lögreglu og gefnar skýringar á því. Ég reikna með því að það mál verði tekið upp aftur við nánari athugun á þessu máli þegar þar að kemur. Ég held hins vegar, þó að ég efist ekki um að þessar tillögur séu fluttar af góðum vilja, að tillagan við 1. gr., ný málsgrein, gangi í raun og veru skemur en það sem meiri hluti nefndarinnar leggur fram. Þar er áfram talað um að rökstudda ástæðu þurfi til og síðan eru talin upp ýmis atriði sem ég held að þrengi rammann gagnvart úrskurði eða dómi um nálgunarbann þegar á reynir. Þess vegna held ég að sú tillaga sem meiri hluti nefndarinnar leggur fram sé jákvæðari og nái meiri og betri árangri.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu miklu lengur. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé afar mikilvægt mál, alvarlegt mál. Ég held að heimilisböl sé því miður afar útbreitt og mjög falið. Þetta eru málefni sem okkur varða og við þurfum að gæta þess að lög hefti ekki dómstóla eða lögreglu eða okkur sjálf til að beita þeim ráðum sem til þarf til þess að draga a.m.k. úr ofbeldi og vernda þá sem ofbeldinu eru beittir.