135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[18:12]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar fjallað er um hæstaréttardóma eða dóma eins og hv. þm. Ellert Schram gerði áðan verður að fara nokkuð gætilega og reyna að halda til haga öllum efnisatriðum málsins. Þarna var um það ræða að lagt hafði verið á nálgunarbann en það var krafa um framlengingu sem ekki var talið að uppfyllti þau skilyrði sem lögin kváðu á um, þó þannig að Hæstiréttur klofnaði á þann veg að tveir dómarar töldu að ekki væru forsendur fyrir hendi en einn dómari taldi að svo væri. Það er nú þannig í lögfræðinni að það getur verið ágreiningur um með hvaða hætti og hvernig skuli skýra og hvaða niðurstaða kemur.

Ég hygg að þeir dómarar sem þarna fjölluðu um málin hafi gert það út frá bestu samvisku og í samræmi við þau lög sem hafa gilt. En vegna þessarar umfjöllunar hv. þm. Ellerts B. Schrams vil ég spyrja hann að því hvort hann telji ekki að með þeim breytingum sem nefndin leggur til sé brugðist við því sem þarna er um að ræða og hvort nefndin hafi þá ekki fundið hinn gullna meðalveg hvað þetta varðar eða telur hann að ganga hefði þurft lengra til að bregðast við þessu?

Ég tel að þessi dómur Hæstaréttar sé tvímælalaust og fullkomlega reistur á málefnalegum sjónarmiðum. Menn getur greint á um það með hvaða hætti eða hvernig hefði átt að bregðast við en ég get ekki séð að gagnrýnin sé fyllilega réttmæt eins og hún var sett hér fram af hv. þingmanni.