135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[18:14]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég las upp úr þessum dómi það sem í honum stóð til útskýringar á því ástandi sem þarna ríkti til að sýna fram á að atferli eins og þarna er lýst var ekki talið nægilegt til að framlengja nálgunarbannið. Með öðrum orðum, ég var að undirstrika það að breyta þyrfti lögunum og túlkun þeirra á þann ótvíræða hátt að svona málsatvik leiddu auðvitað til þess að nálgunarbann yrði sett á. Ég er ekki með því að gera lítið úr dómurum Hæstaréttar, ég er bara að vitna í þann dóm sem liggur fyrir opinberlega og benda á að við svona aðstæður er það náttúrlega óverjanlegt, a.m.k. í mínum huga, að ekki sé hægt að beita nálgunarbanni. Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að laganna vegna, vegna ákvæða sem í lögunum eru sé ekki hægt að kveða upp dóm um nálgunarbann og það eru rökin fyrir því — ég vona að hv. þingmaður skilji það — sem ég legg fram um nauðsynina á því að breyta þeim lögum sem við erum að fjalla um núna. Ég er þeirrar skoðunar að það að breyta orðunum „rökstudd ástæða“ í „ástæða“ í orðalagi frumvarpsins og þá laganna, sé í rétta átt, enn fremur þegar tekið er tillit til fyrra framferðis og hagsmunamats og tíminn styttur. Allt er þetta til bóta.