135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[18:16]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf spurning, hv. þm. Ellert B. Schram, hvort menn eru í fortíðinni eða nútíðinni. Og dómurinn sem hv. þingmaður vitnaði til var úr fortíðinni. Í lögum segir að nálgunarbann megi setja ef rökstudd ástæða sé til að ætla að hann muni fremja afbrot. Þarna er vísað til framtíðarinnar. Það varð niðurstaða dómsins að þrátt fyrir að þarna hefði orðið um verulega alvarlega hluti að ræða, eins og hv. þm. Ellert B. Schram vísaði til, að þá var spurningin um það hvort rökstudd ástæða væri til þess að ætla að hann mundi fremja afbrot, þ.e. vísað er til framtíðarinnar. Það var þar sem mat dómsins lá og það varð sú niðurstaða sem við erum að fjalla um. Þannig að tilvitnun í það sem gerðist áður átti ekki við það sem þarna var viðfangsefni dómsins.

Við erum sammála um að gera beri ýtrustu kröfur og reyna með öllum mætti sem löggjöfin hefur að koma í veg fyrir ofbeldisbrot. Með því m.a. að setja nálgunarbann eins og gert er og þess vegna skiptir gríðarlegu máli að afgreiða það mál sem hér er um að ræða.

Í nefndarálitinu eru sem sagt ákveðin fyrirheit um það að skoða málið frekar og var enginn ágreiningur í nefndinni um það atriði. En spurningin er þessi, með tilvísun til þess dóms sem hér hefur verið gerður að umræðuefni, hvort nefndin hafi ekki einmitt brugðist rétt við. Og það var það sem ég var að spyrja hv. þm. Ellert B. Schram að, hvort við hefðum ekki brugðist rétt við í nefndinni með því að gera þær tillögur sem hér eru og undirrita það nefndarálit og þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir. Eða er þingmaðurinn eitthvað á móti þessari niðurstöðu?