135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[18:20]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að hér er um að ræða breytingu við 1. gr., að við bætist ný málsgrein. Allt í sjálfu sér gott um það að segja en ég hefði talið skynsamlegra, og talið það betri vinnubrögð, að bera þessa tillögu upp á nefndarfundum þannig að menn gætu tekið afstöðu til hennar (Gripið fram í.) á því stigi. Ég minnist þess ekki að þessi tillaga hafi verið kynnt á nefndarfundi.

Ég er ekki að gera mikið úr því en það er mín skoðun að þessi tillaga, svo góð sem hún er, sé sennilega þrengri en sú lagabreyting sem meiri hluti nefndarinnar gerir tillögu um, svona upptalning þrengir lagarammann.

Þegar talað er um ástæður þeirrar túlkunar sem fram hefur komið í ræðum þingmanna í dag er ég þeirrar skoðunar að það rýmki leyfi, tækifæri og möguleika þeirra sem kveða upp nálgunarbann að beita því ákvæði. Það er fyrst og fremst afstaða mín án þess að þetta skipti meginmáli því að bæði mér og flutningsmönnum þessarar tillögu, breytingartillögu frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, gengur það eitt til að reyna að styrkja stöðu dómstóla eða lögreglu hvað það varðar að beita nálgunarbanni þegar ofbeldi er beitt.