135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

fjarskipti.

523. mál
[18:53]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hv. samgöngunefnd tók málið til sín eftir 2. umr. og skilaði frá sér framhaldsnefndaráliti sem lýtur að áhyggjum þeirra út af fyrirhugaðri lokun á NMT-kerfinu svokallaða. Þess vegna vildi ég upplýsa það hér, um leið og ég þakka nefndinni fyrir að hafa tekið þetta upp og lýst áhyggjum sínum, að í dag var haldinn fundur í samgönguráðuneytinu með forstjóra Símans og öðrum þar sem farið var yfir þetta mál. Þar kom fram að Síminn er tilbúinn að halda þessu kerfi opnu í allt að sex mánuði á næsta ári og keyra það með því kerfi sem þeir ætla að taka upp, þ.e. þriðju deildar — þriðju kynslóðar símakerfinu. [Hlátur í þingsal.] Það er rétt að kannski er full mikill fótboltaáhugi enn þá eftir landsleikinn í gær og úrslitaleiki undanfarið. Aðalatriðið er að þessi kerfi verða keyrð saman og þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af lokun NMT-kerfisins yfir veturinn eins og nokkrir samgöngunefndarmenn (Forseti hringir.) höfðu lýst yfir. Ég vildi aðeins skýra þingheimi frá því og þá sérstaklega samgöngunefndarfólki sem tók þetta upp.