135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

heildarumhverfismat vegna framkvæmda á Bakka.

[10:37]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Einhver þráhyggja einkennir þetta mál af hálfu Framsóknarflokksins því að ég held að það sé búið að spyrja um þetta í tíma og ótíma í þinginu. Það er búið að spyrja iðnaðarráðherra og það er búið að spyrja umhverfisráðherra og svo er ég spurð núna. Ég veit ekki betur en að svör þeirra beggja hafi verið nokkuð samhljóða með það að hægt er að finna leiðir til þess að framkvæmdaraðilar geti haldið áfram með rannsóknarboranir en auðvitað þurfa þær rannsóknarboranir engu að síður að lúta ákveðnu mati. Það á hins vegar ekki að þurfa að tefja rannsóknir þó að framkvæmdir á svæðinu fari í heildarmat. Ég veit ekki betur en að umhverfisráðherra hafi svarað þessu mjög skýrt í umræðunni og þar af leiðandi ætti ekki að vera mikil óvissa í þessu.

Skipulagsstofnun er að fara yfir málið með framkvæmdaraðilum og bendir á þær leiðir sem færar eru í þessu. Við skulum bara sjá hver niðurstaðan af því verður. (Gripið fram í.)