135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

niðurskurður póstþjónustu á landsbyggðinni.

[10:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Samkvæmt lögum um póstþjónustu frá árinu 2002 skal íslenska ríkið tryggja öllum landsmönnum á jafnræðisgrundvelli aðgang að ákveðnum þáttum póstþjónustu, alþjónustu með ákveðnum gæðum og á viðráðanlegu verði. Þar er m.a. kveðið á um að póstur skuli borinn út alla virka daga og sömuleiðis er kveðið á um afgreiðslustöðvar, pósthús og fleira.

Nú berast fréttir af stórfelldum niðurskurði á þessari þjónustu vítt og breitt um landið. Póstafgreiðslum er lokað. Póstburðardögum er fækkað og póstur er skilinn eftir út við þjóðveginn langt frá bæjum og fólki sagt að sækja hann þangað.

Ég vil spyrja yfirmann póstmála fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, hæstv. samgönguráðherra: Hefur hann samþykkt þessa stefnubreytingu sem birst hefur í meðferð póstmála í landinu? Ætlar hann að láta það líðast að hvert sveitarfélagið á fætur öðru — ég nefni Reykhóla, Þingeyjarsveit, Skagafjörð og svo fleiri og fleiri sem eru með niðurskurð á póstþjónustu í kæruferli? Önnur sveitarfélög bíða í ofvæni eftir því hvort þau lendi líka á dauðalista Íslandspósts hvað póstþjónustu varðar.

Það eru nefnilega skýr skilaboð þegar verið er að skera niður almannaþjónustu hjá ákveðnum hópi fólks á þeim forsendum að það sé svo dýrt að hafa þá og eiga þá að samborgurum. Ég spyr: Vill íbúi á Ægisíðu að póstkassinn hans standi hér upp við Ártúnsbrekku eða við veginn þar og hann sæki póstinn sinn þangað? Það er þetta sem verið er að bjóða bændum og íbúum dreifbýlisins. Þá mundu kannski renna tvær grímur (Forseti hringir.) eða þrjár á fólk ef íbúar Ægisíðu þyrftu að labba upp í Ártúnsbrekku í (Forseti hringir.) póstkassann sinn þar.