135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

niðurskurður póstþjónustu á landsbyggðinni.

[10:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að þessi mál brenna á mér sem og öðru á landsbyggðarfólki og ég verð fyrir vonbrigðum ef hæstv. ráðherra Kristján Möller hefur nú breytt um skoðun frá því að við ræddum um póstmál hér fyrir nokkrum árum síðan.

Ég er hér með bréf frá Reykhólahreppi þar sem pósturinn er skilinn eftir út við veg í sjö kílómetra fjarlægð. Heima á bænum býr ekkja sem þarf þá að fara 14 kílómetra leið til að sækja póstinn. Landpósturinn kemur því aðeins heim að þar sé pakki eða ábyrgðarsending.

Ég hef dæmi þar sem verið er að setja upp póstkassana út við veg og er hér með nýlegt bréf frá Íslandspósti þar sem hann tilkynnir um að það verði gert nú á mörgum stöðum á landinu, hvort sem fólki líkar betur eða verr. Daginn eftir er annaðhvort hesturinn búinn að nudda póstkassann niður ellegar þá að einhver ferðalangur er búinn að athuga hvort eitthvað sé í honum.

Þessi þjónusta er ekki boðleg og það þýðir ekkert (Forseti hringir.) að vera að tala þannig niður til sveitafólks að það sé hægt að bjóða því einhverja annars eða þriðja flokks (Forseti hringir.) þjónustu í þessum efnum. Þetta er á sameiginlegri ábyrgð okkar allra landsmanna og ég vona (Forseti hringir.) að Íslandspóstur verði í ríkiseigu þannig að við getum staðið (Forseti hringir.) vörð um þjónustuna hér á Alþingi.