135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

umhverfismerki fyrir ábyrgar fiskveiðar.

[11:02]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vék örlítið að því í vor í fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra er varðaði skilgreiningu á fiskisvæðum í tengslum við það að sænska fiskistofan hafði haldið því fram að við værum að veiða síðasta þorskinn á ákveðnu svæði og verið væri að loka fyrir íslenskar sjávarafurðir á erlendum mörkuðum í kjölfar þess. Ég veit að það mál er í vinnslu og að verið er að skýra það út fyrir sænskum yfirvöldum.

Hins vegar víkur nú sögunni að viðurkenningarmerkjum eða vottunarmerkjum á íslenskum sjávarafurðum en líkt og hv. þingmenn vita, virðulegur forseti, þá erum við með viðurkenningarmerki í ýmsum starfsgreinum, m.a. í rafmagnsmálum og pappírsmálum, við þekkjum hvíta svaninn og CE-merkingar og svokallað MSC-merki hefur rutt sér til rúms í sjávarútvegi. Nú er það svo að íslensk fiskvinnslufyrirtæki eru í ríkum mæli að fá skilaboð frá erlendum mörkuðum um að það sé ekki hægt að taka við íslenskum sjávarafurðum og setja þær fram á mörkuðum út af því að þær hafi ekki viðurkenningarmerki. Því verða hinir íslensku framleiðendur annaðhvort að taka upp MSC-merkingar eða álíka merkingar eða að íslensk yfirvöld, í samstarfi við útgerðaraðila og fiskvinnsluaðila hér á landi, komi fram með sérstakt íslenskt merki sem fær vottun frá faggildum aðilum og er sett fram í ljósi þeirra formkrafna sem við setjum okkur, sem eru kröfur um sjálfbæra nýtingu auðlinda líkt og stefna okkar er og enginn ágreiningur er um, og kröfulýsingar okkar byggi þá á skilgreindum markmiðum. Mig fýsir að vita hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort einhver vinna sé farin af stað í sjávarútvegsráðuneytinu og þá í samstarfi við innlenda aðila vegna þess að þetta er auðvitað stórmál fyrir okkar íslensku sjávarafurðir.