135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

umhverfismerki fyrir ábyrgar fiskveiðar.

[11:04]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að eitt af stærstu málunum sem íslenskur sjávarútvegur stendur í rauninni frammi fyrir er spurningin um umhverfismerkingar. Að þessum málum hefur verið unnið af hálfu sjávarútvegsins með atbeina sjávarútvegsráðuneytisins og nú sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á undanförnum mánuðum og missirum.

Segja má að það sé að koma að ákveðnum þáttaskilum í þessum efnum. Búið er að vinna þessi mál gríðarlega vel af hálfu þeirra sem hafa unnið að þeim og á sjávarútvegssýningunni sem hefst nú í byrjun október er ætlunin að kynna umhverfismerki eins og það verður lagt upp. Niðurstaðan er sú að íslenskur sjávarútvegur hefur hafnað því að undirgangast umhverfismerki hvort sem er frá MSC eða einhverjum öðrum erlendum fyrirtækjum og stefnan er sú að taka upp íslenskt umhverfismerki. Fyrsta kastið verður þetta kynnt sem umhverfismerki án vottunar en auðvitað er stefnan sú að taka upp fullgilda vottun þar sem að baki liggur síðan faggilding til að tryggja að um sé að ræða algerlega gagnsætt kerfi sem allir geta reitt sig á.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að af hálfu kaupenda á fiski hefur sú krafa farið mjög vaxandi að menn vilji vita með sannanlegum hætti um uppruna fisksins. Staða okkar er að vísu mjög góð að því leytinu til að íslenskur fiskur hefur mjög gott orðspor. Það fer ekkert á milli mála þegar maður ræðir við kaupendur á fiski t.d. í Evrópu og víðar þar sem þessi krafa er uppi og alveg sérstaklega í Bretlandi að afurðir okkar njóta mikils álits og því má segja að það sé hægari vandi fyrir okkur að hefja vinnu við þetta en margra aðra.

Ég er þeirrar skoðunar að við Íslendingar eigum að taka upp íslenskt umhverfismerki og að við eigum að fara inn í þetta vottunarferli. Við eigum engan annan kost, hagsmunir okkar búa þar að baki, en þá verðum við líka að gera okkur grein fyrir því að þetta leggur okkur heilmiklar skyldur á herðar, m.a. um mótun auðlindanýtingar okkar.