135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

umhverfismerki fyrir ábyrgar fiskveiðar.

[11:08]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt og það er lykilatriði að við stöndum saman að þessu. Annars vegar atvinnugreinin sjálf, sjávarútvegurinn, sem verður að leiða þessa vinnu því að það er augljóst að þarna getur ekki verið um pólitíska ákvörðun að ræða. En hins vegar hafa stjórnvöld heilmiklu hlutverki að gegna, við ráðum yfir eftirlitsstofnunum eins og Fiskistofu og vísindastofnunum eins og Matvís og Hafrannsóknastofnun sem munu koma að þessu máli.

Staðan er nákvæmlega sú núna að það er einmitt verið að vinna þessa kröfulýsingu af hálfu Íslendinga til að leggja fram og til að geta unnið með vottunarstofunum. Við verðum að hafa þessa kröfulýsingu skýra og gagnsæja og við verðum að byggja á einhverjum meginhugmyndum. Það sem lagt er til grundvallar af okkar hálfu eru einmitt leiðbeiningar FAO, FAO Code of Conduct, sem svo er kallað, sem er auðvitað grundvallarplagg í þessum efnum. Ég vil vekja athygli á því að ég ásamt fulltrúum Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu undirrituðum yfirlýsingu í þessa veru sem er grundvöllurinn að þeirri vinnu sem unnið er að núna.