135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

frestun á fundum Alþingis.

665. mál
[11:29]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra minnir okkur á það hvaða tillaga er hér til umræðu. Við erum engu að síður að fikra okkur inn á nýja braut í starfsháttum Alþingis með því að koma saman í september og nú liggur fyrir umrædd tillaga um að fresta fundum Alþingis til október og það er rétt. Á undanförnum dögum hefur engu að síður verið rætt um og samþykkt lagafrumvarp til staðfestingar á bráðabirgðalögum. Þá er eðlilegt að menn spyrji sig að því, af því að þetta eru önnur bráðabirgðalögin, ef ég man rétt, í tíð þessarar ríkisstjórnar, hvernig menn ætli að beita þessu vopni og valdi, ekki síst á þeim tímum sem nú fara í hönd, þessar tvær vikur fram að þingsetningu. Ég tel því mjög eðlilegt að menn velti þessu fyrir sér jafnvel þó að hér sé til umræðu tillaga um að fresta fundum Alþingis því að við erum að tala um það hvað verður hugsanlega gert á þeim tíma sem tillagan tekur til.

Hitt vil ég svo segja að ég fagna afdráttarlausri yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra um að ekki hafi verið til umræðu og ekki standi til af hans hálfu, eftir því sem er hans mat, að beita bráðabirgðalagavaldinu í kjaradeilu ljósmæðra Hann segir líka að deilan sé á viðkvæmum punkti og að umræður á Alþingi séu ekki til þess fallnar að leysa hana. Það kann vel að vera. En það er alveg ljóst að málshöfðun fjármálaráðherra er ekki til þess fallin að auka mönnum bjartsýni eða að efla traust og trúnað á milli samningsaðila, það er algerlega ljóst. Ég hlýt að segja að það framlag hæstv. fjármálaráðherra til að vinna að lausn þessarar deilu er ekki til fyrirmyndar (Forseti hringir.) og vafalaust frekar til þess að hleypa meiri hörku i deiluna ef eitthvað er (Forseti hringir.) og við þurfum ekki á því að halda.