135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[11:37]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér kemur til lokaumræðu frumvarp til laga um nálgunarbann. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs er sú breytingartillaga sem ég hef lagt fram við málið. Við í minni hluta allsherjarnefndar, þ.e. ég og hv. þm. Alma Lísa Jóhannsdóttir, sem starfað hefur fyrir Atla Gíslason á þessu „halaþingi“ í nefndinni en hún leggur fram sérálit um málið, við ræddum það hér í gær hversu víðtæk breytingartillaga okkar væri. Því eins og kunnugt er þá höfum við lagt á það áherslu að lögregla fái heimild til að beita nálgunarbanni en vegna þeirra upplýsinga sem komu mjög seint fram í nefndarumfjölluninni og vegna þeirra breytinga sem meiri hlutinn var tilbúinn til gera á ákvæðum frumvarpsins um nálgunarbann þá höfum við í minni hlutanum ákveðið að styðja breytingartillögu meiri hlutans eins og kom í ljós í atkvæðagreiðslu í gærkvöldi.

Nú stendur það eftir að breytingartillaga okkar sem varðar aðra þætti málsins, þ.e. hina austurrísku leið, hefur verið prentuð upp og er nú rétt og ég ætla að fara yfir þær breytingar sem við gerðum á henni. Önnur uppprentun, þ.e. því sem breytt var er að út var tekin alveg 1. mgr. 2. töluliðar vegna þess að þar voru leifar af breytingartillögu sem varðaði nálgunarbannsákvæðið og komu ekki austurrísku leiðinni við. Við gerðum einnig aðra breytingu, við tókum út úr 1. tölulið orðið rökstutt, þ.e. að lögregla þurfi að hafa rökstudda ástæðu til þess að beita því valdi sem við viljum að hún fái til að reka ofbeldismann burt af heimili og banni honum heimsóknir á það tímabundið. Að „rökstutt“ fari út úr þeirri setningu til samræmis við það sem breytt hefur verið nú í fyrri hluta 1. gr., samkvæmt tillögu meiri hlutans og allsherjarnefndar, þar sem orðið rökstutt var tekið út úr þeirri setningu.

Nú stendur sem sagt það eftir við þessa atkvæðagreiðslu sem fram fer hér á eftir, hæstv. forseti, að greiða atkvæði um austurrísku leiðina. Það er tillaga okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og við leggjum á það mjög mikla áherslu að þessi tillaga verði samþykkt vegna þess að við teljum að við séum komin til botns í umræðu um hana. Við vitum að málið hefur verið tekið til skoðunar á vettvangi dómsmálaráðuneytisins. Það kom ekkert út úr þeirri skoðun. Hæstv. dómsmálaráðherra hvatti hins vegar Alþingi í þingræðu í október í haust til þess að þetta yrði skoðað í nefndinni. Nefndin skertist við og gerði það ekki þannig að eftir situr valdið hjá okkur alþingismönnum. Við getum leitt austurrísku leiðina til varnar þeim sem þurfa að þola heimilisofbeldi í lög hér á eftir og ég hvet þingmenn til þess að gera það.