135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[11:42]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra hvatti allsherjarnefnd Alþingis til að skoða þetta mál í þingræðu 10. október fyrir tæpu ári síðan. Hvers vegna hafa málin ekki verið skoðuð í nefndinni? Það er liðið tæpt ár og hv. þingmaður er varaformaður nefndarinnar. Ef honum hefur verið eitthvað í mun að innleiða þessa austurrísku leið þá gat hann þó gert þó ekki væri annað en það að safna saman öllum þeim umsögnum sem nefndinni bárust á síðasta kjörtímabili, veturinn 2006–2007, og kynna þau gögn fyrir nefndarmönnum.

Sannleikurinn er sá að í allsherjarnefnd og í fórum Alþingis höfum við aðgang að fjölmörgum gögnum um austurrísku leiðina. Við vitum að reynslan af henni eru mjög góð. Þess vegna hefur hún verið tekin upp í Svíþjóð. Þess vegna hefur hún verið tekin upp í Noregi. Þess vegna hefur hún verið tekin upp í Danmörku og þess vegna hefur Evrópuráðið hvatt aðildarríki sín til að taka hana upp. Okkur er ekkert að vanbúnaði, hæstv. forseti. Það er fyrirsláttur í hv. þingmanni að hann þurfi að skoða málið betur.