135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[11:44]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem við vorum að gera í nefndinni var fyrst og fremst að skoða hugsanlegar breytingar á lögum um nálgunarbann. Eins og hv. þingmaður veit sjálf þá eru þetta tvenns konar mismunandi úrræði, nálgunarbann annars vegar og austurríska leiðin hins vegar. Ég er einmitt að taka undir það sem hv. þingmaður segir að við hefðum átt að gera, að kalla eftir gögnum. Við erum að gera það í meirihlutaáliti allsherjarnefndar. Við erum að kalla eftir þessum gögnum. Þau eru ekki fyrir hendi. Þannig að það er rangt að telja þingmönnum trú um að við höfum allar staðreyndir á hreinu.

Við vitum ekkert nákvæmlega hvernig reynslan hefur verið á hinum Norðurlöndunum. Við höfum ekkert farið í gegnum þessa umræðu. Hv. þingmaður veit það. Það getur vel verið að hv. þingmaður sé sannfærður í sinni sök að þetta hafi allt gengið vel. En við höfum þær staðreyndir ekki fyrir framan okkur. Við erum að kalla eftir þeim. Við erum að taka skref fram á við. Og þegar kemur að svona lagasetningu þá þarf að vanda hana.

Ég man þegar hv. þingmaður var með frumvarp sem laut að því að banna kaup fyrir kynlífsþjónustu. Þar var t.d. orðalag ekkert tækt til lagasetningar. Það þurfti að laga það heilmikið.

Þegar kemur að refsiheimildum þá þarf skýrleikinn að vera hafinn yfir allan vafa. Það veit hv. þingmaður. Þó að ég hafi ágætt þingmannamál hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur fyrir framan mig þá geri ég kröfu um meira. Ég geri kröfu um frekari gögn, hugsanlega betra orðalag. Það getur vel verið að álit hv. þingmanns sé algjörlega fullkomið en ég veit það ekki á þessum tímapunkti.

En að því sögðu þá tek ég alveg undir þá hugmyndafræði sem er á bak við austurrísku leiðina. Ég hef ítrekað gert það og mun gera það áfram. Mér finnst margt mæla með því að við tökum upp þá leið. En ef við ætlum að vera ábyrgir stjórnmálamenn þá getum við einfaldlega ekki gert það í dag.