135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[11:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil vel tilfinningar hv. þingmanns yfir því að hann skuli vera í þeirri stöðu sem hann er í núna. Hann vill í hjarta sínu fylgja austurrísku leiðinni, veit upp á sig sökina, hann hefur ekki fylgt því eftir í nefndinni allan sl. vetur að málið verði unnið það vel að orðalagið væri tilbúið, að hin lagatæknilega hlið málsins sé að hans mati orðin svo góð að hægt sé að færa austurrísku leiðina í lög.

Gott og vel. Þá væri hægt að gera eitt. Það væri hægt að krefjast þess að allsherjarnefnd gæfi yfirlýsingu um að hún ætlaði sér að leggja það fyrir Alþingi Íslendinga að austurríska leiðin verði leidd í lög. Allsherjarnefnd er ekki að gera það. Hvað er allsherjarnefnd að gera? Vísa málinu til hæstv. dómsmálaráðherra, sem er búinn að vísa málinu frá sér, hann er búinn að vísa því til nefndarinnar. Hann er búinn að segja: Alþingi setur lög. Refsiréttarnefnd gerir einhverja tillögu um þetta frumvarp, það kemur í þeim búningi til nefndarinnar og hæstv. dómsmálaráðherra bað nefndina í október sl. að fara vel yfir málin. Nefndin gerði það ekki og það er m.a. á ábyrgð hv. varaformanns nefndarinnar, hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, sem er varaformaður Samfylkingarinnar og ég skil vel að hann engist. En það er ekki mér að kenna.