135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[11:54]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér kemur nú til lokaafgreiðslu frumvarp til laga um nálgunarbann. Í þeirri atkvæðagreiðslu verða greidd atkvæði um tillögu okkar þingmanna Vinstri grænna um að farin verði hin svokallaða austurríska leið.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að það er önugt að maður skuli þurfa að berjast árum saman fyrir jafnsjálfsögðum réttarbótum og hér um ræðir. Við erum að tala um það að við sem setjum lög í landinu og leiðréttum það misrétti sem þolendum heimilisofbeldis er gert að búa við. Við erum að leggja það til að lögregla fái heimild til að fjarlægja ofbeldismann af heimili sínu tímabundið á meðan unnið er í málum hans og fjölskyldu hans í stað þess, eins og nú er, að lögregla hafi það eina úrræði að fjarlægja konuna og börnin og koma þeim í athvarf.

Ég spyr, hæstv. forseti: Hvaða skilaboð erum við að senda þessum börnum eða út í umhverfið með því að hafa lagafyrirkomulagið með þessum hætti? Nú er tækifæri til að gera breytingar og ég hvet þingmenn til þess að gera (Forseti hringir.) þær nauðsynlegu breytingar núna.