135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[11:55]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ganga til lokaafgreiðslu frumvarps til laga um nálgunarbann. Í frumvarpinu með þeim breytingum sem allsherjarnefnd lagði til og eru komnar inn í málið, voru samþykktar hér við 2. umr., felast ýmis framfaraskref til þess að gera þetta úrræði virkara og betra. Það var víðtæk samstaða í allsherjarnefnd um þessar tilteknu breytingar. Þær lúta að því að það verði auðveldara að beita þessu úrræði, nálgunarbanni, til þess að vernda þá sem á því þurfa að halda.

Þær breytingartillögur sem hv. þingmenn Vinstri grænna eru að leggja til varða í eðli sínu annað mál, austurrísku leiðina, brottvísun af heimili, sem tengist tilteknum málum sem geta haft samsvörun við nálgunarbannsmálin en engu að síður er þarna um tvö aðskilin úrræði að ræða og eins og við höfum nefnt í nefndaráliti okkar (Forseti hringir.) er hér um að ræða mál sem er skemur á veg komið í vinnu. Við höfnum því ekki en við teljum ekki að á þessari stundu getum við samþykkt þetta með þeim hætti sem Vinstri grænir leggja til.