136. löggjafarþing — þingsetningarfundur

forseti Íslands setur þingið.

[14:12]
Horfa

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Hinn 19. september 2008 var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar miðvikudaginn 1. október 2008.

Um leið og ég birti þetta er öllum sem setu eiga á Alþingi boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni, sem hefst kl. 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 19. september 2008.

Ólafur Ragnar Grímsson.

 

_____________

Geir H. Haarde.

 

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman miðvikudaginn 1. október 2008.“

 

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég því yfir að Alþingi Íslendinga er sett.

Þegar alþingismenn koma á ný saman til fundar dvelur hugur okkar hjá hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og héðan fylgja henni góðar óskir um skjótan bata.

Þótt Alþingi sé í eðli sínu vettvangur þar sem glímt er um stefnur og stjórnarhætti eru samkennd og vinarþel svipmót hinnar kjörnu sveitar þegar heilsa brestur eða óvænt áföll ber að garði. Sóknarkraftur landsmanna á sér rætur í samstöðu sem hér hefur myndast og þjóðin þá náð að fagna merkum áföngum í sögu sinni.

Sjálfstæðisbaráttan og lýðveldistíminn eru til vitnis um að grundvöllurinn var einkum traustur þegar saman fóru þjóðarhreyfing og breiður stuðningur meðal alþingismanna.

Hollt er nú þegar við siglum um úfinn sjó, öldurót er í efnahagsmálum, bæði hér heima og erlendis, að sækja lærdóma í baráttuna fyrir þeim sigrum í sögu landsins sem reynst hafa einna stærstir, lærdóma sem eru vegvísar um að víðsýni og stjórnviska leiða jafnan til farsælla lausna þegar þjóðin öll er samferða forustumönnum, þegar vissan um réttlæti og góðan málstað er í hávegum höfð.

Við minnumst um þessar mundir tveggja slíkra áfanga sem færðu Íslendingum aukinn rétt; fullveldi í eigin málum og forræði yfir miðunum við strendur landsins.

Í september voru 50 ár frá því landhelgin var færð út í 12 mílur og Íslendingar hófu baráttu við ofurefli sem þó lauk með sigri þjóðarinnar. Innan tíðar, 1. desember, verða 90 ár liðin frá því að þjóðin varð fullvalda — „sovereign“ eins og það er nefnt á ýmsum tungum. Sjálfstæðisbaráttan, löng og ströng, hafði skilað Íslendingum valdi sem um aldir hafði verið á hendi erlendra herra.

Það er fróðlegt að rifja upp hve stór stundin var í desember 1918 þegar margmenni safnaðist saman um hádegisbil við Stjórnarráðshúsið. Ísafold greindi frá því að fjöldinn hefði skipt þúsundum.

Sigurður Eggerz ráðherra minntist í ræðu sinni þeirra sem leitt höfðu þjóðina til þessarar sigurstundar en sagði svo: „Það eru ekki aðeins stjórnmálamennirnir, er miklu ráða um mál þjóðarinnar, sem skapa hina nýju sögu, nei, það eru allir. Bóndinn, sem stendur við orfið og ræktar jörð sína, hann á hlutdeild í þeirri sögu, daglaunamaðurinn, sem veltir steininum úr götunni, hann á hlutdeild í þeirri sögu, sjómaðurinn, sem situr við árarkeipinn, hann á þar hlutdeild. Allir, sem inna lífsstarf sitt af hendi með alúð og samviskusemi, auka veg hins íslenska ríkis. Og sú er skylda vor allra.“

Fagnaðaraldan reis hátt um landið allt. Morgunblaðið birti á forsíðu kröftuga ritstjórnargrein. Þar voru tímamótin túlkuð með þessum orðum:

„Í dag sest íslenska þjóðin á bekk með fullvalda þjóðum heimsins. Stjórnmálabarátta vor hefir verið framsóknarbarátta í meira en heila öld. Stig af stigi hafa leiðtogar vorir fært þjóðina nær takmarkinu, sem hún nú er komin að. Verslunarfrelsi, sérmálalöggjöf og fjárforræði, innlend stjórn, heimafáni — allt eru þetta merkissteinar við þá braut, sem þjóðin hefir fetað til fullveldisins.“

Síðar í greininni áréttaði blaðið þessa sýn á hin sögulegu þáttaskil:

„Í dag fá Íslendingar það hlutverk, að halda uppi sæmd yngsta ríkisins í heiminum. Og vonandi finnur öll þjóðin til vandans, sem þeirri vegsemd fylgir, til ábyrgðarhlutans, sem fallinn er oss í skaut með sambandslögunum nýju. Það er eigi minna um vert, að kunna að gæta fengins fjár en að afla þess. Og því er það, að svo áríðandi og mikilsvert sem oss hefir verið starf vitrustu og bestu manna þjóðarinnar í baráttunni fyrir réttinum, þá er hitt eigi síður vandi, að gæta réttarins. Aldrei hefir þjóðinni fremur en nú riðið á að eiga vitra menn og góða til þess, að verja lífi sínu og orku í þágu þjóðar sinnar.“

Slíkur var dómurinn og þúsundir fögnuðu þessum tímamótum með ferföldum húrrahrópum; íslenskir fánar dregnir að húni um allan bæ.

Já, þessi dagur var sannarlega sigurdagur, hinn merkasti á vegferð þjóðarinnar, deilir með 17. júní öndvegi í sjálfstæðissögu Íslendinga. Hvernig má það þá vera að hann hefur smátt og smátt vikið úr hugum okkar, orðið hversdagslegur, glatað hátíðarbrag — jafnvel skólar, sem lengi vel minntust hans, eru flestir hættir að veita honum sérstakan sess? Höfum við efni á að glata slíkum dögum — að gleyma sigri sem var draumur þjóðar, kynslóðanna sem báru í hjarta heita von um fullan rétt, kynslóðanna sem helguðu sjálfstæðisbaráttunni krafta sína? Sæmir það minningu þeirra fjölmörgu alþingismanna sem voru í fararbroddi baráttunnar fyrir frelsi að týna 1. desember í glatkistu hversdagsleikans eins og við höfum að mestu gert? Að vísu hefur verið gleðiefni á síðari árum að fagna þingheimi á Bessastöðum að kvöldi þessa dags en slíkur fagnaður er á engan hátt nægileg þakkargjörð.

Við þurfum að færa þjóðinni 1. desember á ný; sameinast um atburðaskrá helgaða baráttunni sem dagurinn táknar og nýta hann um leið til að líta fram á veg, meta stöðu þjóðarinnar í ljósi hugsjónanna sem gerðu fullveldisdaginn 1. desember 1918 að einstæðri sigurstundu Íslendinga.

Oft var þörf en nú og á komandi tímum er brýn nauðsyn að við eignumst slíkan samræðuvettvang, umræðufarveg þar sem grunngildi Íslendinga kallast á við verkefni dagsins, vandamálin sem bíða lausnar.

Ég heiti á Alþingi að taka nú forustu í þessum efnum, veita 1. desember þá virðingu sem honum ber og gera það í tæka tíð fyrir aldarafmæli fullveldisins 2018.

Þjóðin mun örugglega taka slíku frumkvæði vel, skólar landsins, fjölmiðlar og almannasamtök; gleðjast yfir því að geta í upphafi desember ár hvert hugað að sögu og framtíð um leið og við hefjum undirbúning að hátíð ljóss og friðar.

Fullveldisdagurinn 1. desember og þjóðhátíðin 17. júní eru áminning til okkar allra um hve erfið og langvarandi sjálfstæðisbaráttan var í raun. Samt þurfti áfram að sækja á brattann. Undirstöðurnar voru veikar, efnahagurinn einhæfur, byggðist að mestu á aflabrögðum. Fljótlega varð lýðum ljóst að formlegu réttindin mundu duga skammt ef fjárhagurinn yrði áfram þröngur, ef tækifæri til útflutnings yrðu takmörkuð, ef sjávarafli gæti ekki aukist allverulega.

Hinu unga lýðveldi var þröngur stakkur skorinn, erlendur togarafloti drottnaði á heimamiðum, útgerðir í Hull og Grimsby og hafnarborgum meginlandsins hirtu arðinn af Íslendingum. Það var óvissu háð hvort lýðveldið gæti framfleytt sér, hvort sjálfstæðið yrði raunverulegt eða innantómt.

Fyrir fáeinum vikum voru 50 ár liðin síðan landhelgin var færð út í 12 mílur og átök, oft og tíðum tvísýn, hófust við hið erlenda hervald, glíma sem með réttu má nefna nýja sjálfstæðisbaráttu Íslendinga — leiðangur til að treysta lýðveldið í sessi, koma í veg fyrir að það brotnaði saman vegna arðráns útlendinga á íslenskum miðum.

Við vitum nú að sigur vannst, en fyrir hálfri öld voru úrslitin óviss. Aðstæður í veröldinni voru andsnúnar Íslendingum. Hin gömlu nýlenduveldi töldu sig ráða úthöfunum og flotar þeirra höfðu lengi herjað á miðin við strendur Íslands.

Það þurfti framsýna forustusveit til að ákveða útfærslu landhelginnar, leiðtoga sem höfðu kjark til að ganga gegn vilja voldugra ríkja. Fólkið í landinu stóð einhuga að baki þeim, skildi að hin nýja sjálfstæðisbarátta var ekki síður brýn en sú sem Fjölnismenn og Jón Sigurðsson hófu á sínum tíma. Alþingi Íslendinga var á þessum árum og einnig síðar, þegar stefnan var sett á 50 mílur og svo 200, í senn bakhjarl og vettvangur baráttunnar. Hingað sótti forustusveit þjóðarinnar umboð sitt og þingmenn þekktu vel hugsjónaanda og framtíðarsýn sem á fyrri tímum höfðu mótað sjálfstæðisbaráttuna, en voru um leið gjörkunnugir í sjávarplássum, vissu að rétturinn til fiskveiða var ekki aðeins lífsbjörg fólksins heldur líka undirstaða framfaranna. Án ákvarðana Alþingis hefði landhelgisbaráttunni aldrei verið ýtt úr vör. Sigrarnir sem unnust voru í senn Alþingis og þjóðarinnar.

Það er því líkt og með 1. desember einkum hlutverk Alþingis að tryggja að hin merka saga um útfærslu landhelginnar, þekkingin á þeim tímabilum sem við nefnum landhelgisstríðin, verði þjóðinni ávallt nákomin, að um alla framtíð sæki kynslóðir vísdóm og kraft í lýsingar á þessum örlagatímum hins íslenska lýðveldis.

Aðrar þjóðir gera vel við slík tímabil í sögu sinni, reisa jafnvel sérstök söfn til að heiðra þá sem voru í fararbroddi og fjöldann sem fórnaði miklu, efla sýningar- og fræðastarf sem skila þekkingu til hinna ungu.

Vissulega var það áfangi á þessari vegferð þegar varðskipið Óðinn var í sumar afhent Sjóminjasafninu í Reykjavík. Það var góður grunnur en frekari þakkargjörð þarf að færa sjómönnum á fiskiskipum, áhöfnum varðskipanna, þeirri þingmannasveit sem fyrir hálfri öld og síðar reisti burðarstoðir þeirrar velferðar sem við njótum nú.

Það er erfitt fyrir unga kynslóð sem þekkir eingöngu allsnægtir og alþjóðahyggju okkar tíma að gera sér í hugarlund hve erfiðar aðstæður blöstu við þegar Alþingi ákvað að hefja baráttu fyrir útfærslu landhelginnar, hve mikill mótbyrinn var víðast hvar í veröldinni.

Sé slíkt samhengi haft að leiðarljósi, lærdómar dregnir af langvarandi baráttu fyrir fullveldi og forræði yfir miðum landsins, sést glöggt að vandamálin sem nú kalla á farsælar lausnir eru á engan hátt meiri að vöxtum en erfiðleikar á fyrri tímum, gefa hvorki tilefni til uppgjafar né örþrifaráða. Þvert á móti er þjóðin nú ríkulega búin að auðlindum, fjölþættri menntun og margþættri reynslu, nýtur velvildar hjá öllum ríkjum.

En þessi saga kennir okkur líka að djúpstæð vissa um að réttlæti og hagur allra, sanngirni og samstaða séu höfð að leiðarljósi, að lýðræðisleg umfjöllun og aðhald ráði för, hafa verið og verða ávallt forsendur þess að gagnkvæmt traust ríki milli þings og þjóðar og landsmenn skipi sér að baki stefnunni sem hér er mótuð.

Í anda þeirra hugsjóna bið ég alþingismenn að rísa á fætur og minnast ættjarðarinnar.

 

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Geir H. Haarde, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

 

[Strengjakvartett flutti lagið Hver á sér fegra föðurland.]