136. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2008.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti, góðir Íslendingar. Ég held að við vitum það öll sem hér erum inni og reyndar örugglega allir þeir sem á okkur hlýða að það liggur eitthvað mikið í loftinu og það ekki neitt gott. Það þarf að leita langt aftur til að finna jafnviðsjárverða tíma í sögu þjóðarinnar og nú eru. Yfir okkur hafa dunið margvísleg áföll, sum ófyrirsjáanleg, sum óviðráðanleg og sum höfum við kallað yfir okkur sjálf.

Það er ekki langt síðan við urðum að skera niður þorskaflaheimildir um þriðjung. Sú ákvörðun var afar þungbær fyrir þjóðarbúið en fyrst og fremst voru það hinar dreifðu byggðir sem máttu taka á sig þær búsifjar. Samt voru þeir til sem ypptu öxlum og fannst lítið til koma um hvort gamla hagkerfinu gengi vel eða illa.

Nýja hagkerfið færði okkur vissulega mikinn auð, meiri auð en þjóðin hefur nokkurn tíma kynnst. Ekki skiptir reyndar minna máli að samfélagið varð miklu fjölbreyttara og þróttmeira en áður. Við Íslendingar fundum til okkar. Við náðum betri árangri en þær þjóðir sem við höfum miðað okkur helst við og lífskjörin jukust á undrahraða, gróskan var gífurleg og þeirri hugsun skaut upp að við Íslendingar værum pínulítið klárari en aðrar þjóðir.

Í nýja hagkerfinu var stundum látið eins og ekki þyrfti annað til en djörfung og dug, hraða og tækni til að mala gull en eiginleg verðmætasköpun, framleiðsla þótti lítt spennandi. Sumir sögðu reyndar að svoleiðis væri nokkuð gamaldags og það væri eiginlega bara fyrir hrædda þjóð sem þyrfti á sjálfstyrkingarnámskeiði að halda.

Við vöruðum okkur ekki nægilega á því að mikið af þeim nýfengnu lífsgæðum sem okkur áskotnuðust væru fengin að láni. Sú mikla lántaka, einkum fjármálastofnana, byggði um of á því að hagstæð ytri skilyrði mundu ekki breytast. Á þeim forsendum byggðist upp alþjóðleg fjármálastarfsemi á nokkrum missirum og í stað þess að við þyrftum að húka á biðstofum bankastjóranna í von um vinargreiða þá fékk hver sem vildi lánsfé eftir þörfum, jafnvel langt umfram það. Það skapaði sín sjálfstæðu vandamál. En það sem skipti þó mestu máli var að á örskotsstundu var Ísland orðinn hluti af hinu alþjóða fjármálakerfi. Við stöndum því frammi fyrir þreföldum vanda nú, þ.e. að verðmætasköpunin er ekki næg, að við höfum eytt og skuldsett langt umfram það sem við getum gert og að alþjóðleg fjármálakreppa knýr nú dyra og af fullum þunga.

Atburðir síðustu daga hafa rýrt lífsstíl okkar og það er óumflýjanlegt. Fram undan eru mjög erfiðar ákvarðanir og undan þeim verður ekki vikist. Það sem meira er, þær verða umdeilanlegar því það er enginn sem býr yfir einhverju undraráði, einhverri snilldarlausn sem allan vanda leysir. Við höfum séð hvernig öflugir og vel reknir bankar bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu hafa riðað til falls á örskotsstundu. Sumum hefur verið bjargað og sumum ekki. Okkar verkefni er að verja fjármálakerfið eins og við best getum vegna þess að það er allra hagur og við verðum að vernda sparifjáreigendurna, við verðum að tryggja að atvinnulífið og að landsmenn hafi aðgang að bankaþjónustu til þess að hér sigli ekki allt í strand. Það er verkefni stjórnvaldanna þessa dagana, næstu daga, vikur og mánuði. Þetta er erfitt verkefni og þetta er dýrt verkefni en þetta er ekki óviðráðanlegt verkefni. Íslensk stjórnvöld munu vinna að þessu hörðum höndum líkt og stjórnvöld í öðrum löndum gera nú.

Virðulegi forseti. Við finnum öll fyrir því að lánin hækka, verðbólga eykst og atvinna er í hættu og því rýrna lífskjör okkar. Þetta eru afleiðingar fjármálakreppu. Nú á þessari stundu þýðir ekkert að líta í afturspegilinn og velta því fyrir sér hvað hefði betur mátt fara, hvort Seðlabankinn, ríkisstjórnin eða aðrir hefðu getað nýtt tíma sinn betur eða hvað þá bankarnir. Öllu máli skiptir að við sameinumst um að taka á vandanum og við missum ekki móðinn. Það er því alls ekki ástæða til þess að okkur fallist hendur. Önnur samfélög hafa lent í alvarlegum fjármálaerfiðleikum og þau hafa unnið sig út úr því og það munum við einnig gera.

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að öll él styttir upp um síðir og meira að segja þau sem dimm eru. Þegar þessi él eru gengin yfir munum við vinna það upp sem glatast hefur og gott betur en það af því að við erum dugleg þjóð, harðdugleg þjóð og þann dugnað eigum við skuldlausan. Góðir landsmenn. Samstaða, samvinna, einbeittur vilji og þor er það sem best dugar þegar á móti blæs og allt eigum við Íslendingar þetta í ríkum mæli. — Góðar stundir.