136. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2008.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[22:00]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Við Íslendingar siglum inn í ein mestu efnahagsvandræði sem fólk þekkir í sögu landsins. Fleiri þúsund Íslendingar eru nú þegar gjaldþrota eða á barmi gjaldþrots. Ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar er með þeim hætti að fólkið getur ekki meir. Vaxtaokrið, verðtrygging lána, gengisfall krónunnar sem bitnar á fólki með skuldir í erlendum gjaldmiðli.

Í stefnuræðu forsætisráðherra er ekkert sagt til hvaða ráðstafana eigi að grípa. Hvað eigi að gera til að bjarga fólkinu í landinu. Úrræðaleysið er algjört hjá ríkisstjórninni. Ráðherrarnir eru ekki í neinu sambandi við almenning í landinu, þeir sitja í fílabeinsturni. Þeir gætu aldrei sett sig í spor fólks sem þarf að lifa af 120 þús. kr. á mánuði eins og öryrkjar og aldraðir þurfa að gera. Verðhækkanir og verðtrygging bítur þetta fólk fyrst. Ríkisstjórnin hefur ekki bara brugðist venjulegum fjölskyldum í landinu heldur líka atvinnulífinu öllu.

Í stefnuræðu forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin standi traustum fótum. Hún hafi sýnt að hún geti stýrt málefnum þjóðarinnar — takið eftir — af festu og öryggi á viðsjárverðum tímum. Ég spyr: Er ekki allt í lagi með ríkisstjórnina? Finnst ráðherrum hennar virkilega að þjóðinni sé stýrt af festu og öryggi? Eru sumir hér í salnum veruleikafirrtir eða hvað? Ríkisstjórn Geirs Haardes er á villigötum á flestum sviðum. Hún sker niður fjármagn til margra verka en dælir peningum í ýmis gæluverkefni. Mér er ofarlega í huga afgreiðsla Björn Bjarnasonar á lögreglumálum á Suðurnesjum. Þar vantar meira fé til löggæslumála. Því hafði verið lofað fyrir sameiningu embætta fyrir tveimur árum síðan. Afrek lögreglu og tollvarða í Leifsstöð við að koma í veg fyrir innflutning á ýmiss konar eiturlyfjum eru lofsverð. Á sama tíma berjumst við fyrir því að komast í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sem kostar verulegar fjárhæðir. Þær dygðu vel fyrir rekstri allra lögregluembætta í landinu og Landhelgisgæslunnar sem er nánast stopp í dag.

Samstaðan í þeirri ríkisstjórn sem nú situr er góð ef ekkert er gert en um leið og eitthvað á að gera þá versnar í því. Ef á að virkja eða reisa stóriðju er hver höndin upp á móti annarri. Það hefur komið fram bæði varðandi álver í Helguvík og á Bakka við Húsavík. Við þurfum að nýta allar okkar auðlindir nú sem aldrei fyrr, orkuna og fiskimiðin. Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til 220 þús. tonna jafnstöðuafla í þorski til þriggja ára sem auka mundi tekjur þjóðarbúsins til muna eða um 60 milljarða árlega. Það skiptir verulegu máli að skoða allar leiðir til tekjuöflunar í þjóðfélaginu núna.

Mannréttindi eru mikils virði. Mannréttindabrot út um allan heim eru sorgleg. Auðvitað er fagnaðarefni að íslenskir ráðherrar skuli fara og mótmæla mannréttindabrotum um allan heim en þurfa þeir hinir sömu ekki að byrja á því að taka til í sínum eigin garði og virða mannréttindi á Íslandi? Það er álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna að mannréttindi hafi verið brotin á tveimur sjómönnum frá Tálknafirði. Þeir eigi rétt á bótum frá íslenskum stjórnvöldum. Ég trúi því ekki að forsætisráðherra ætli ekki að virða álit nefndarinnar. Það þurfti ekki þessa mannréttindanefnd til að ríkisstjórn Geirs Haardes vaknaði til að bæta Breiðavíkurdrengjunum kvalir sínar þótt bætur þeirra verði líklega skammarlega litlar.

Góðir landsmenn. Ég tel að skipta verði um yfirstjórn í Seðlabanka Íslands. Fólk verður að fá trú á yfirstjórn peningamála í landinu. Við í Frjálslynda flokknum viljum auka fjármagn til Íbúðalánasjóðs svo hann geti skuldbreytt og hjálpað fólki í neyð. Við viljum auka þorskveiðar um 90 þús. tonn á ári sem skilar 60 milljörðum í þjóðarbúið á hverju ári. Við í Frjálslynda flokknum viljum nýta orkuna í iðrum jarðar og fallvötn til raforkuframleiðslu sem mun skapa atvinnu- og útflutningstekjur. Við viljum styðja hvers konar atvinnuuppbyggingu í landinu bæði stóra og smáa.

Að lokum vil ég segja: Góðir Íslendingar, flokkar eiga að vera fyrir fólk en ekki öfugt.