136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

efnahagsmál og umræða um fjárlög 2009.

[10:35]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Á dagskrá þessa þingfundar er frumvarp til fjárlaga fyrir íslenska ríkið á komandi ári fyrir árið 2009. Umræða um fjárlagafrumvarp hefur hliðsjón af þjóðhagsspám og efnahagsspám sem gerðar hafa verið. Vandinn sem blasir við núna er hins vegar óvissan. Þá er ég fyrst og fremst að tala um þá óvissu sem er í Stjórnarráði Íslands. Ef lýsa á á myndrænan hátt ástandinu hjá ríkisstjórn landsins er það í spurningarmerki. Hvað hyggst hún gera varðandi fjármálakerfi landsins? Hvaða skuldbindingar hefur hún gefið og hyggst gefa varðandi einstakar fjármálastofnanir og fjármálakerfið í heild sinni? Þetta hlýtur að sjálfsögðu að skipta sköpum um framvindu efnahagsmála á Íslandi (Forseti hringir.) og þar með fjárlagafrumvarpið. Við hefðum, hæstv. forseti, talið eðlilegt að skjóta umræðunni á frest þar til betur liggur fyrir til hvaða ráðstafana ríkisstjórnin hyggst grípa. Ef ekki verður fallist á það vísum við þessum vinnubrögðum á hendur ríkisstjórninni.