136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski ekki miklu að svara þessu seinna andsvari hv. þingmanns. En ég vek athygli hv. þingmanna á töflu á bls. 23 þar sem gerð er grein fyrir raunvexti á milli ára. Þar kemur fram að milli áranna 2008 og 2009 eykst almennur rekstur um 4,2% að raungildi og tilfærslur um 7,1% að raungildi.

Gert er ráð fyrir því að þessar hækkanir verði minni á milli ára síðar á tímabilinu þannig að meðaltalið verði í almennum rekstri 2% á tímabilinu og í tilfærslum 3,2%. Því má segja að hækkanir á milli áranna 2008 og 2009 séu umtalsverðar í þessu samhengi, bæði í því samhengi sem við sjáum fyrir okkur í framtíðinni og einnig að segja má varðandi þær fjármálareglur sem við höfum haft í gildi á undanförnum árum. En þær reglur sem miðað er við í þessum rammafjárlögum eru kynntar á bls. 22 í fyrra heftinu og taflan, sem ég nefndi áðan, er á bls. 23.