136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:25]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur mælt fyrir fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2009. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs töldum eðlilegra við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu að umræðu um frumvarpið hefði verið frestað og þess vegna að þingi hefði verið frestað í dag. Eins og kom svo rækilega fram í ræðu hæstv. ráðherra áðan er frumvarpið að öllum grunnforsendum orðið úrelt og talnaleg meðferð á því og umræða á Alþingi er því líka út í hött.

Ég vísa til umræðunnar í gærkvöldi um stefnuræðu forsætisráðherra þar sem formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, lagði til að við þá alvarlegu stöðu sem nú er í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar og þeirri stöðu sem við erum í í viðskiptum og samskiptum við aðila innan lands og utan. Hann lagði til að kallað yrði til víðtæks samráðs um aðgerðir til að sjá hvernig bregðast á við þeim bráða vanda sem nú blasir við og eins til að ræða hver næstu skref verða. Það er það sem ég tel að við alþingismenn ættum að ræða. Það er það sem ég tel að ríkisstjórnin ætti að beita sér fyrir að verði gert en ekki að ræða plagg sem þegar er orðið úrelt.

Í ræðu hæstv. fjármálaráðherra áðan var veruleikafirringin svo alger að hann las upp og kynnti Alþingi hvert væri núgildandi mat á efnahagsstefnunni og efnahagsstöðu þjóðarinnar. Hann sagði, eins og stendur í ritinu sem fylgir frumvarpi til fjárlaga, með leyfi forseta:

„Eftir eitt mesta hagvaxtarskeið um langt árabil er hagkerfið tekið að færast nær jafnvægi á ný.“

Er það raunveruleikinn? Nei. Það hefur ekki verið meira ójafnvægi eða alvarlegri staða í áratugi. Ég hefði í hans sporum sleppt þessari setningu, það segi ég alveg eins og er.

Síðan las hann áfram lýsti stöðu efnahagsmála og fjármála með íslenska þjóðarbúskapnum sem ekki er til, sem er tálsýn, sem er hrein veruleikafirring frá þeirri stöðu sem nú er. Ég held nefnilega að ríkisstjórnin verði að viðurkenna þá erfiðu stöðu sem nú er og bregðast við en ekki að tala stöðugt eins og ekkert sé að.

Fjármálaráðherrann vitnaði áfram til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þessir flokkar hafa einsett sér að mynda frjálslynda umbótastjórn um kraftmikið efnahagslíf, öfluga velferðarþjónustu, bættan hag heimilanna og aukna samkeppni atvinnulífsins.“

Ríkisstjórnin er búin að sitja töluvert á annað ár og er það þetta sem blasir við þjóðinni? Nei. Þegar hæstv. fjármálaráðherra gat í veruleikafirringu sinni haldið áfram að lesa upp úr stefnuyfirlýsingunni um trausta og ábyrga efnahagsstjórn ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, eins og það væri einhver raunveruleiki sem blasti við þjóðinni í dag, sagði hann:

„Kraftmikið efnahagslíf er forsenda þess að hægt sé að halda áfram uppbyggingu í menntamálum, samgöngumálum og í heilbrigðismálum og félagsmálum.“ Já, ég er sammála því. „Eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu í þágu heimila og atvinnulífs. Markmið hagstjórnarinnar er að tryggja lága verðbólgu, lágt vaxtastig, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jafnan og öflugan hagvöxt og áframhaldandi trausta stöðu ríkissjóðs.“

Er það þetta sem ríkisstjórnin hefur gert? Nei, þveröfugt. Við búum nú við hærri verðbólgu en nokkru sinni um langt árabil og ógnarstöðu íslensks atvinnulífs. Á hvaða tímabili hefur þessi verðbólga rokið svona upp? Jú, einmitt nú á undanförnu einu og hálfa ári í stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar. Svo lætur fjármálaráðherra eins og ekkert sé að.

Markmiðið er lágt vaxtastig og hæstv. ráðherra ítrekar í ræðu sinni að það sé stefnumið ríkisstjórnarinnar. Vextir hafa aldrei verið hærri en þeir eru í dag. Var það að furða þó að við þingmenn Vinstri hreyfingar – græns framboðs legðum til að 1. umr. yrði frestað? Við skiljum hina alvarlegu stöðu sem nú er. Við viljum að Alþingi taki á þeirri alvarlegu stöðu efnahagsmála og fjármála, stöðu heimilanna, stöðu fólks sem nú stendur frammi fyrir meiri fjárhagsvanda en nokkru sinni um áratugi í íslensku samfélagi. Við viljum að á því sé tekið en ekki að menn kyrji frasa upp úr stjórnarsáttmála sem á ekkert skylt við raunveruleikann.

Maður veltir líka fyrir sér dómgreind á ríkisstjórnarheimilinu þegar forsætisráðherra getur sagt að kaup íslenska ríkisins á einum af þremur stærstu bönkum landsins hafi engin áhrif á forsendur fjárlaga. Þegar forsætisráðherra getur verið svo veruleikafirrtur að segja það frammi fyrir alþjóð að ekki sé endilega víst að bera þurfi málið fyrir Alþingi og segir „ef þess þarf“, þá er manni öllum lokið og finnst hæpið að treysta ríkisstjórninni, forsætisráðherra og fjármálaráðherra fyrir fjármálum landsins.

Við getum verið ósammála um leiðir og það erum við. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er mjög ósammála Sjálfstæðisflokknum um leiðir í efnahagsmálum. En það er óþolandi þegar sá sem fer með stjórnina er jafnveruleikafirrtur og raun ber vitni.

Við getum líka vitnað til forustumanna Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum, að vandamálið sé nýtilkomið. Í fréttum frá 25. júlí árið 2008 er viðtal við sérfræðing hjá Merrill Lynch sem sagði, með leyfi forseta:

„Markaðurinn hefur þumalputtareglu varðandi punkta skuldatryggingarálagsins. Það var orðið svo hátt hjá íslensku bönkunum. Reglan er frekar einföld. Þegar skuldatryggingarálagið hefur náð upp í þá punkta sem eru nú þegar í tveimur íslenskum bönkum, Glitni og Kaupþingi, yfir 1000 stig, þýðir það oftast að búast má við alvarlegu ástandi á mörkuðum og/eða greiðslufalli sem þýðir aftur að bankarnir borga ekki erlendar skuldir sínar. Við þurfum að hugleiða hvort markaðurinn hafi rétt fyrir sér, að bankarnir eigi ekki eftir að borga þær skuldir.“

Hann spyr í viðtalinu hvort ríkissjóður og Seðlabankinn séu með aðgerðaleysi sínu að senda þau skilaboð að þeir vilji bíða eftir því að bankarnir verði það verðlausir að það eigi að kaupa þá. Viðtalið var tekið 25. júlí sl. Við þeim miklu aðvörunarorðum sem þá komu fram brást þáverandi starfandi forsætisráðherra, hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir með þessum orðum, með leyfi forseta: „Mér finnast þetta makalaus ummæli hjá svona virtum fjárfestingarbanka. Ég velti fyrir mér um tíma hvaða annarleg sjónarmið búa þarna að baki því að þetta á ekki við nein rök að styðjast og ég spyr líka sem menntamálaráðherra: Þarf þessi maður ekki á endurmenntun að halda?“

Þetta voru viðbrögð varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem starfaði þá sem forsætisráðherra, við alvarlegum ábendingum á miðju sumri um stöðu íslenskra efnahagsmála. (Fjmrh.: Hvar er Merrill Lynch?) Merrill Lynch er ekki svo vel sett en orðin sem maðurinn sagði standa enn, taktu eftir, fjármálaráðherra. Ég er ekki að óska fjármálaráðherra ófarnaðar og vil nota tækifærið og taka undir óskir til hans með 50 ára afmælið í gær [Hlátur í þingsal.] og hann skal eiga heillaóskir mínar í þeim efnum. En það er ekki þar með eins og honum leyfist allt og eigi ekki að fara að slíta af sér barnsskóna í meðferð fjármála ríkisins.

Ég dreg þetta fram, frú forseti, til að sýna hversu veruleikafirrt ræða fjármálaráðherra var hér áðan, hversu veruleikafirrt viðbrögð hæstv. forsætisráðherra eru að segja að kaup á heilum banka komi fjárlögum og forsendum fjárlaga ekkert við, sjálfsagt stærstu kaupum tölulega sem gerð hafa verið í Íslandssögunni. Þegar varaformaður Sjálfstæðisflokksins svarar alvarlegum ábendingum á þá leið að maðurinn þurfi líklega að fara í endurmenntun er eitthvað að þeirri ríkisstjórn.

Ég fór að velta fyrir mér því ferli sem orðið hefur og ef eitthvað má segja um fjárlagafrumvarpið þá speglar það óbreytta stefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins frá 1991. Ég fór að lesa ræðu sem þáverandi fjármálaráðherra Geir H. Haarde hélt árið 2001 hjá Samtökum iðnaðarins þar sem hann ítrekar einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins og segir að nú verði næsti áratugur tími einkavæðingarinnar, einkavæðingar bankanna, einkavæðingar Símans. Og þegar horft er lengra komi einkavæðing raforkukerfisins, einkavæðing heilbrigðiskerfisins og einkavæðing menntakerfisins. Þessari stefnu hefur verið fylgt og henni er enn þá fylgt því að ef eitthvað má segja um það frumvarp sem nú er, er það áframhaldandi einkavæðing. Ég ætla ekki að fara mikið í tölur frumvarpsins enda eru forsendur þess ekki fyrir hendi. Gengisskráningin er allt önnur en þar er gert ráð fyrir, vaxtastigið allt annað, staða þjóðarbúsins allt önnur en var og er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. En það er eitt sem er þó rauður þráður: Áfram skal haldið á því einkavæðingarferli sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks hefur keyrt og nú eru það heilbrigðismálin. Sett er á fót sérstök stofnun sem á að annast einkavæðingu heilbrigðiskerfisins enda segir í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2007, með leyfi forseta:

„Því ber að huga að enn frekari einkavæðingu á öðrum sviðum svo sem á sviði heilbrigðis-, mennta- og orkumála.“

Áfram segir svo hæstv. forsætisráðherra sem var orðinn mjög lukkulegur með nýjan bólfélaga í ríkisstjórninni í viðtali við Morgunblaðið 30. september 2007, með leyfi forseta:

„Við vildum mynda ríkisstjórn þar sem hægt var að þróa samfélagið áfram, gera víðtækari breytingar í ætt við okkar stefnu en kannski hefði tekist á öllum sviðum í fyrrverandi ríkisstjórn og var líklegt í annars konar samstarfi.“ Við sjáum þann árangur. Og áfram: „Það eru ótrúlega miklir möguleikar fram undan sem Samfylkingin er tilbúin til að vera með okkur í en aðrir flokkar hefðu ekki verið með okkur í.“

Er þar vísað til einkavæðingar heilbrigðiskerfisins?

Hitt gæluverkefnið sem skýtur upp kollinum er hermálastofnun þar sem lagðir eru til 1,5 milljarðar til að byggja upp hermálastofnun sem greiðir m.a. fyrir æfingar erlendra herja hér á landi.

Frú forseti. Ég hef hér aðvaranir Seðlabankans frá því 2003 og á hverju ári eru aðvaranir Seðlabankans um gríðarlegt ójafnvægi í efnahagslífi þjóðarinnar, efnahagsbúskapnum, gríðarlegar stóriðjuframkvæmdir sem séu ofvaxnar íslensku efnahagslífi, skattalækkanir, mikil þensla. Varað er við þessu 2003, 2004, 2005, 2006 og 2007 þannig að sú staða sem upp er komin í ríkisbúskapnum er að stórum hluta heimatilbúin og varað er við henni. Það vorum ekki bara við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem vörum við henni, það gerði Seðlabankinn einnig. Við höfum ítrekað lagt fram tillögur á Alþingi um hvernig bregðast eigi við, síðast sl. vetur þar sem við lögðum fram tillögu til þingsályktunar um endurheimtan efnahagslegan stöðugleika. Það hefði betur verið farið eftir tillögum okkar þá. Við erum áfram reiðubúin, frú forseti, og getum lagt fram aðgerðaráætlun, tillögur okkar til að bregðast við þeim vanda sem nú er. Það ríður á að við snúum öll bökum saman og tökumst á með þjóðinni við þann efnahagsvanda sem við stöndum tvímælalaust frammi fyrir af grimmri alvöru. Við þurfum að standa saman því að samstaðan er nauðsynleg og mikilvæg og forsenda fyrir því að okkur takist vel. Það höfum við lagt til, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lagði það til í ræðu sinni í gær. En innlegg í þá umræðu er ekki þessi veruleikafirrta nálgun ráðherra Sjálfstæðisflokksins þar sem lesið er upp úr stefnuskrá ríkisstjórnarinnar um að allt sé í góðu lagi og allt eigi að vera áfram í góðu lagi. Það er það ekki.

Frú forseti. Ég ítreka að ég tel að engin forsenda sé fyrir því að ræða fjárlagafrumvarpið efnislega í þinginu eins og það kemur nú. Forsendur eru brostnar. Það er alvarleg staða. Við eigum að snúa okkur að því að taka á þeim alvarlegu málum sem nú steðja að þjóðinni og það eigum við að gera, snúa bökum saman og viðurkenna mistökin. Það verður ekki haldið áfram á sömu braut og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur gert undanfarin 17 ár. Það verður að snúa af þeirri einkavæðingar- og frjálshyggjubraut sem birtist áfram í þessu frumvarpi.(Forseti hringir.) Ef við gerum það, frú forseti — og það verðum við að gera — mun þjóðarskútan sigla farsællega áfram (Forseti hringir.) þó að hún verði að taka á sig ágjöf.