136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009 .

1. mál
[11:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir afmælisóskirnar. Það er fallegt af honum að nefna það í ræðustóli Alþingis. Hann vitnaði talsvert í Merrill Lynch og skýrslur frá þeim í sumar, og umfjöllun um þá skýrslu. Ég kallaði fram í og spurði hvar Merrill Lynch væri núna enda er staðreyndin sú að Merrill Lynch er ekki til í dag sem sjálfstæður banki. Ég var ekki að hælast um eða hlakka yfir því hvernig farið hefði fyrir Merrill Lynch en tel þarft að minna okkur á að við erum í miðri alþjóðlegri fjármálakreppu. Þó að við getum rifist um það að þetta og hitt hefði átt að vera öðruvísi hjá okkur á fyrri missirum eða fyrri árum er það staðreynd að langsamlega stærstur hluti af þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag er af orsökum hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu. Vandi íslensku bankanna er sami vandinn og Merrill Lynch stóð frammi fyrir og margir aðrir alþjóðlegir bankar.

Ég vildi einungis koma þessu á framfæri vegna orða hv. þingmanns. Hann getur svo haldið áfram að tala um það hvað bæði ég og hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, séum vitlausir.