136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:51]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð fyrir vonbrigðum með hæstv. fjármálaráðherra, ég verð að segja það — meginforsendur fjárlagafrumvarpsins eru brostnar, það eru allar grunntölur varðandi verðbólgu, varðandi stöðu ríkissjóðs, varðandi gengi, varðandi vexti o.s.frv.

Þó að við heyrum að önnur þjóðþing séu á fullu að ræða hvernig þau eigi að bregðast við þeim mikla vanda sem að þeim steðjar og þeirra þjóðum — þó að hann sé hlutfallslega minni en við stöndum frammi fyrir — ræðum við frumvarp til fjárlaga, og ég fullyrði að forsendur eru brostnar fyrir því. Að sjálfsögðu getur ýmislegt staðið en við verðum að gera okkur grein fyrir því að frá því að frumvarpið var lagt fram hefur staða ríkissjóðs til að takast á við þau verkefni sem verið er að telja upp stórlega skerst. Við stöndum frammi fyrir 20% gengislækkun eða meir frá því að frumvarpið var lagt fram. Hefur það engin áhrif á grunnforsendur fjárlaga og greiðslugetu ríkissjóðs? Jú, það hefur það. Ég ítreka það, frú forseti, að nú ríður á að sýna ábyrgð, ekki stinga höfðinu í sandinn heldur sýna ábyrgð, viðurkenna mistökin, forgangsraða þeim verkefnum sem tekist verður á um á næstum dögum. Það horfa allir til okkar og við megum ekki bregðast í þeim efnum.