136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:34]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Í upphafi ræðu minnar vil ég þakka hæstv. fjármálaráðherra Árna Mathiesen fyrir skelegga framsögu á frumvarpi því sem nú er komið til meðferðar á Alþingi og um leið tek ég undir þær hamingjuóskir sem hæstv. ráðherra hefur fengið úr ræðustól vegna stórafmælisins í gær — það er ekki á hverjum degi sem menn verða fimmtugir. Ég þakka líka hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar fyrir þeirra framlag inn í umræðuna. Ég ætla að reyna að fylla inn í það tóm sem eftir er þrátt fyrir að þessi umræða fari oft út um víðan völl og í sjálfu sér er kannski ekki verið að einblína á sjálft frumvarpið sem slíkt, efnisinntak þess, heldur meira á stöðu dagsins og það er eins og við séum stundum stödd, virðulegi forseti, í umræðum um störf þingsins. En auðvitað er þetta þannig þegar verið er að ræða um fjárlög, líkt og í sveitarfélögunum og við hv. þingmenn sem höfum reynslu þaðan vitum að þegar verið er að ræða fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna eða ársreikninga þá fer umræðan oft út um víðan völl og margt er tínt til til þess að fylla upp í það sem verið er að leggja fram.

Hins vegar byggir frumvarp til fjárlaga á ákveðnum forsendum og hér hefur verið nokkuð rætt um forsendurnar, að þær hafi breyst frá því að punktstaða var tekin í forsendugerðinni eða áætlanagerðinni á sínum tíma. Það er auðvitað þannig að forsendur miðast við ýmislegt, þær geta miðast við gengisvísitölu, þær geta miðast við verðbólguþróun, þær geta miðast við vaxtaálag, þær geta miðast við þær tekjur sem við áætlum að komi inn eða þau gjöld sem við áætlum að fari út. Í áætlunargerðinni notum við síðan mismunandi reiknilíkön og hæstv. fjármálaráðherra gerði grein fyrir því að fjármálaráðuneytið byggir á þjóðhagsspá efnahagsskrifstofunnar sem kom út um leið og fjárlagafrumvarpið og það er haustskýrslan um þjóðarbúskapinn fyrir árin 2008–2013 sem hv. þingmenn hafa undir höndum.

Í þeirri skýrslu er fjallað um forsendurnar sem miðað er við til ársins 2013 og vel má vera að við getum sagt í dag að fyrir ári síðan, þ.e. þegar við vorum að ræða frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008, þá hafi forsendurnar verið rangar. Við getum sjálfsagt rakið okkur þannig ár aftur á bak og sagt að þær forsendur sem voru til viðmiðunar hverju sinni hafi ekki gengið upp. En svona er þetta einfaldlega að við getum ekki verið að ræða frumvarp í rauntíma og verið að uppfæra gögn og miðað við rauntíma. Það er kannski vandamálið hverju sinni, virðulegur forseti, að það innlegg sem við setjum inn í umræðuna miðast við stöðu dagsins og þess vegna er frumvarpið komið til meðferðar á þinginu þannig að þingið og um leið fjárlaganefndin og aðrar fastanefndir þingsins geti fengið frumvarpið til meðferðar og velt fyrir sér þeim forsendum sem ráðuneytin leggja upp með, framkvæmdarvaldið leggur upp með í þessu innleggi, hvort sem það er fjármálaráðuneytið eða önnur fagráðuneyti. Ég horfi til þess að þeir hv. þingmenn sem sitja í fjárlaganefndinni eða í öðrum fastanefndum, ég get nefnt t.d. í efnahags- og skattanefnd, að þeirra bíði mun meira verk og jafnvel meira en einstakra embættismanna í ráðuneytunum á umliðnum vikum og mánuðum.

Hér hefur verið farið yfir stöðu þjóðfélagsins í dag og stöðu Íslands í alþjóðaumhverfi og menn hafa kannski ekki talað mjög lausnamiðað í umræðunni heldur verið meira að lýsa ástandinu eins og það er, farið í eins konar söguskoðun og velt fyrir sér hver eigi sök á vanda. Ég vil einfaldlega segja að hin lausnamiðaða umræða á auðvitað að fara fram hér í þinginu og hafi menn lausnir er einfaldlega hægt að koma með þær inn í umræðuna um fjárlagafrumvarpið, hvort sem það er í fjárlaganefndinni eða öðrum nefndum þingsins. Þá er auðvitað kostur að hafa þá víðsýni sem er til staðar hjá hv. þingmönnum hverju sinni því að reynsla þeirra og þekking er mjög góð á hinum mismunandi sviðum og menn eiga að leggja til ákveðnar lausnir.

Fyrir ári síðan þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram stóð ég í sömu sporum og nú og boðaði aukið samráð og samvinnu í vinnu við umsagnargerð fjárlaganefndar og annarra nefnda varðandi frumvarpið sjálft. Ég held að ef litið er til baka hafi okkur tekist um margt eða að nokkru að breyta vinnubrögðum. Ég vil lýsa því yfir sem formaður fjárlaganefndar að ég vil taka nokkur skref fram á við í þeirri vinnu enn frekar sem tengist því að víðtækara traust ríki á milli hv. þingmanna í þessari vinnu. Um leið er kannski horft til þess að við hin sömu getum leitað sameiginlega að ákveðnum lausnum á þeim vanda sem farið hefur verið yfir, hvort sem er í ræðum í dag eða í ræðum á hv. Alþingi í gær. Ég finn ekki fyrir öðru, virðulegur forseti, en að hv. þingmenn séu tilbúnir til starfans enda er það svo að við hinir kjörnu fulltrúar erum ekkert að víkjast undan ábyrgð, sama hvort við erum í stjórnarmeirihluta eða stjórnarandstöðu, og nú er ég ekki að álasa einum né neinum í því. Það er hlutverk okkar þegar við tökum við frumvarpi, líkt og frumvarpi til fjárlaga, að við eigum að hafa á því skoðanir. Þá skiptir ekki máli hvort við erum í stjórnarmeirihluta eða stjórnarandstöðu.

Ég hjó eftir því að á eftir ræðu hæstv. fjármálaráðherra fór varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, upp í andsvör og óskaði eftir ákveðnum skýringum á því sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra. Nú kann einhver að spyrja: Er það eðlilegt að það gerist? Já, það er eðlilegt að það gerist því að við erum að leita eftir ákveðnum svörum hverju sinni og þar af leiðandi vil ég einfaldlega ítreka að það er gríðarlegur styrkur í því að hafa mjög virka þingmenn — sama hvort þeir tilheyra stjórnarmeirihluta eða stjórnarandstöðu — í því að fara yfir þessi gögn og skýrslur og sitja á fundum í ráðuneytum og ekki síður að fá upplýsingar frá stofnunum hringinn í kringum landið um þau verk sem unnið er að víða á landsbyggðinni.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara ítarlega í þær ræður sem hafa verið fluttar hér í dag. Ég vil hins vegar segja eins og ég vék að í fyrri parti ræðu minnar í dag, að kannski mætti segja að við værum að taka punktstöðu í umræðunni, lýsa ástandi og fara í söguskoðun. Við lendum líka í því að fara fram með ákveðnar þversagnir í umræðunni, ekki það að við ætlum okkur að gera það heldur segjum við bæði að við viljum draga úr útgjöldum og síðan á öðrum stað, jafnvel í sömu ræðu, að við viljum fara fram með aukin útgjöld án þess að það sé skilgreint neitt nánar. Það er talað fyrir því að það eigi að draga saman, það eigi jafnvel að skera niður, en á öðrum stöðum er talað fyrir því að það skipti verulegu máli að hjól atvinnulífsins snúist og að viðamiklar fjárfestingar séu í gangi og svo koll af kolli. Það er kannski þetta sem við þurfum að varast, að ef við förum fram með ákveðin verkefni, t.d. hagræðingarverkefni, getum við ekki talað þannig að við eigum að vera með niðurskurðarhníf á lofti en segja síðan í annan stað að við eigum að halda uppi verkefnastigi hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Hv. þingmenn reyna á stundum að víkja sér undan því og segjast þá vera að tala um fjárfestingarverkefni, en flestallar fjárfestingar leiða af sér rekstur. Það er mjög sjaldan sem ríki eða sveitarfélög, fyrirtæki eða jafnvel heimili fara í einhver fjárfestingarverkefni sem ekki leiða af sér rekstur og hafa afleiddar rekstrarafleiðingar í för með sér og þannig hefur það verið í gegnum tíðina.

Án þess að ég sé að ýja að því að Framsóknarflokkurinn sé að koma sér undan einhverju í þessum efnum virðast mér einhvern veginn ræður hv. þingmanna Framsóknarflokksins vera þannig að þær ákvarðanir sem voru teknar meðan Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn hafi ekki haft neitt í för með sér. Auðvitað höfðu þær það með sér í för að farið var í ýmis fjárfestingarverkefni og rekstur sem er í byggingum, það var fjölgað starfsfólki og víða var aukinn rekstur. Þess vegna fannst mér mjög ómaklegt, virðulegur forseti, þegar menn komu á lokastigum í 3. umr. við fjárlögin 2008 og sögðu að þeir vildu í raun og veru ekki vera með. Vildu ekki vera með í hverju? Menn vildu ekki vera með í því að fara af stað með verkefni sem var löngu búið að ákveða að ætti að fara í. Síðan var vissulega verið að bæta við nýjum verkefnum. Hverju var verið að bæta við? Það var verið að bæta við m.a. í tekjutilfærslunum, þeim þáttum sem lúta að velferðarkerfinu, þáttum sem lúta að vaxtabótum, almannatryggingakerfinu, lífeyriskerfinu, barnabótum og ýmsu öðru slíku. Það var enginn að tala um að þar ætti að skera niður, það var ekki vilji til þess enda voru þetta verkefni sem þingheimur, virðulegur forseti, vildi standa á bak við. Hver vill standa núna upp og segja að það eigi að skera niður í atvinnuleysisbótakerfinu, mun einhver leggja það til? Það mun enginn gera það enda munu menn standa á bak við þá þætti sem er raunaukning í í tilfærslukerfi ríkissjóðs sem eru nær þriðjungur af útgjöldum ríkissjóðs og ég hef ekki heyrt einar né neinar tillögur um það. Menn koma hins vegar stundum og segja, óábyrgt: Ég vil spýta í, ég vil halda uppi atvinnustigi á höfuðborgarsvæðinu og halda uppi atvinnustigi á landsbyggðinni en hins vegar vil ég ekki auka ríkisútgjöldin. Það sem ég er einfaldlega að kalla eftir, virðulegur forseti, er að umræðan sé raunsönn, menn verða að vera heiðarlegir gagnvart sjálfum sér í umræðunni.

Út af því, virðulegur forseti, að á hv. þingi eru mjög margir sveitarstjórnarmenn, menn sem hafa þekkingu á sveitarstjórnarmálum þá er þetta svipað og að segja: Við viljum byggja fyrir fólk og fyrirtæki en við viljum ekki byggja leikskóla og grunnskóla. Við viljum ekki byggja leikskóla og grunnskóla nema þegar illa árar og við þurfum að fara í einhvers konar verkefni og halda uppi atvinnustigi en þá ætlum við ekki að vera með neinn rekstur þar. Þetta gengur auðvitað ekkert upp. Við þurfum að horfa á að þau verkefni sem við tökum ákvörðun um hafa auðvitað í för með sér útgjöld, þau hafa ekki bara í för með sér að við reisum byggingu.

Við getum tekið sem dæmi stórt verkefni í Reykjavík, tónlistar- og ráðstefnumiðstöð á hafnarbakkanum. Halda menn að það verkefni sé einfaldlega þannig að það muni ekkert kosta að reka bygginguna og þá starfsemi sem þar verður? Það er ein af stóru stærðunum í ákvarðanatökunni, það er reksturinn og rekstrarútgjöldin varðandi þá byggingu. Ætla menn þá að segja sem svo: Ja, við tókum ekki þátt í þessari ákvörðun. Ákvörðunin var tekin, það var tekin ákvörðun um að fara af stað með bygginguna. Það þýðir síðan ekki að láta bygginguna standa auða. Það er ekki hægt að afskrifa þann fjárfestingarkostnað sem liggur í byggingunni, það verður að horfa á þetta allt til enda.

Hér er ég ekki að skamma einn né neinn, ég er einfaldlega að óska eftir því að sú umræða sem hér fer fram, hvort sem er í fjárlaganefndinni, efnahags- og skattanefndinni eða öðrum fastanefndum, sé ekki þannig að menn tali stundum um appelsínur og stundum um epli, það verður að horfa á heildarmyndina. Ég finn fyrir því hjá þingmönnum stjórnarmeirihlutans og stjórnarandstöðu að hv. þingmenn eru tilbúnir til verka varðandi það að fara yfir fjárlagafrumvarpið. Við erum nýlega komin með stöðu á rekstri ríkisstofnana og við höfum kallað eftir upplýsingum. Við munum fá inn alla þá sérfræðinga sem skipta máli bæði hvað varðar ríkisreksturinn en ekki síður varðandi það sem er að gerast á Íslandi almennt í efnahagsumhverfinu og síðan í alþjóðaumhverfinu og þeir hlutir eru auðvitað á fljúgandi ferð.

Hæstv. fjármálaráðherra vék að því að hrein skuldastaða þjóðarbúsins væri góð við upphaf ársins og sérstaklega við upphaf síðasta árs. Við gerðum ráð fyrir því að 40 milljarða kr. væri rekstrarafgangur af fjárlögum þessa árs og það kemur í ljós, kannski þann 16. október hvernig fjáraukalagafrumvarpið mun líta út en hins vegar segja spátölur okkur að það muni verða þó nokkur breyting á. Við höfum fjallað um breytingar á tekjustofnum og um leið að útgjöldin eru að aukast enda sjá hv. þingmenn það að það er 100 milljarða kr. sveifla í fjárlögunum á milli ára eins og þau voru lögð upp og samþykkt 2008 og síðan 2009. Það er gróflega séð 70 milljarða kr. aukning í ríkisútgjöldum en 30 milljarða kr. tekjusamdráttur í tekjuliðum þannig að um er að ræða 100 milljarða kr. sveiflu af 450 milljarða kr. veltu. Þetta eru grófar tölur hjá mér en þeir sem eru fljótir að reikna sjá að það er gríðarleg sveifla hér á milli ára.

Að lokum vil ég, virðulegur forseti, þakka þeim fjölmörgu sem hafa komið að gerð þessa frumvarps og ekki síst þjóðhagsspárinnar fyrir árin 2008–2013. Það er mikið verk að koma saman frumvarpi til fjárlaga hverju sinni, að því koma fjölmargir, einstaka ríkisstofnanir eins og framhaldsskólar, heilbrigðisstofnanir og ýmsir aðrir, starfsfólk á fjármálaskrifstofum þessara stofnana, ráðuneytin koma að því og síðast en ekki síst fjármálaráðuneytið undir forustu hæstv. fjármálaráðherra. Það er efnahagsskrifstofan, það er tekju- og lagaskrifstofan og eigna- og rekstrarskrifstofa ráðuneytisins. Það er verið að reyna að endurmeta þessa þætti dag frá degi, og þrátt fyrir að einhverjir mundu vilja hafa fjárlagafrumvarpið í rauntíma þannig að tölurnar uppfærðust miðað við breyttar forsendur þá er það okkar þingmanna, eins og ég lýsti yfir áðan, að fara yfir þessa hluti og klára þessa vinnu því að nú er frumvarpið komið til þingsins og ég óska eftir góðu samstarfi við hv. þingmenn í fjárlaganefndinni hér eftir sem hingað til.