136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[13:51]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að það mál sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni sé mjög ofarlega í umræðunni og hann óski þeirra svara sem hann kallaði eftir áðan hyggst ég ekki svara þeim beint og skal alveg viðurkenna það úr þessum ræðustóli heldur ítreka ég bara það svar sem ég gaf almennt um meðferð slíkra mála á milli þings og framkvæmdarvalds.

Ég tel alveg tvímælalaust að við þurfum að bæta verklagið. Við sjáum það ágætlega á þeim dæmum m.a. sem hv. þingmaður nefndi í síðara andsvari sínu, þar er ágætisdæmi um verkefni þar sem menn hafa tekist á í allnokkurn tíma varðandi það með hvaða hætti þau mál hafa komið til afgreiðslu hjá hinu háa Alþingi. Ég tel engum til gagns að elta ólar við þessi einstöku dæmi heldur draga dóm af þeirri reynslu sem við höfum fengið í þessum efnum og skýra þetta tvímælalaust. Það er það sem ég var að kalla eftir í ræðu minni áðan, framsöguræðu minni með fjárlagafrumvarpinu og tel að við eigum að leggjast á eitt með það og hef kallað eftir því m.a. frá framkvæmdarvaldinu að það komi með sínar tillögur um það hvernig við getum breytt og bætt starfshætti.

Ég undirstrika það líka að þingið er ekkert undanskilið í því og við þurfum að vera tilbúin til að leggja eitthvað á okkur í þá veru að geta hraðað afgreiðslum. Ég er þar með ekkert endilega að taka undir það sjónarmið að við eigum að gera þetta einu sinni eða tvisvar á ári, það kann vel að vera að þingið geti sett upp þær starfsreglur að hægt sé að gera þetta örar en svo. Til þess þurfa menn að setjast yfir þetta og finna sameiginlega lausn.