136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:08]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í dag hefur frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2009 verið til umræðu, við erfiðar aðstæður í þjóðfélaginu. Og eins og fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna hafa þeir eðlilega áhyggjur af því efnahagsástandi sem nú blasir við. Sveiflur og miklar hræringar á fjármálamörkuðum erlendis hafa áhrif hér á landi. Þá hefur fall íslensku krónunnar haft mikil áhrif á kjör fólksins í landinu. Ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum og hefur alist upp við stöðugleika í efnahagsmálum stendur nú frammi fyrir einum mestu efnahagserfiðleikum síðari ára.

Undanfarin ár hefur í síauknum mæli verið auðveldara að fá lán hjá bönkum og sparisjóðum í erlendri mynt. Aðgengi fólks að lánsfjármagni var gjörbreytt og í mörgum tilfellum var fólk hvatt til að taka lán í erlendri mynt. Nú þegar gengi krónunnar fellur eins og raun ber vitni hefur hagur almennings í landinu versnað. Húsnæðislán hækka og matarinnkaup heimilanna taka nú mun stærri hluta af tekjum heimila en fyrir aðeins nokkrum mánuðum. Unga fólkið sem er að koma undir sig fótunum og stofna fjölskyldu stendur nú frammi fyrir miklum erfiðleikum og veltir fyrir sér framtíð sinni. Fólk er eðlilega uggandi um sinn hag. Nú um stundir er útlitið ekki bjart en við munum aftur sjá til sólar.

Brýnasta verkefni næstu mánaða er að ná tökum á verðbólgunni, það er algjörlega nauðsynlegt. Við höfum áður gengið í gegnum mikla erfiðleika í efnahagsmálum og komist út úr þeim. Það gerum við einnig nú. Og við megum ekki gleyma því að fram undan eru bjartir tímar. Um það eru allir sérfræðingar sammála. Við verðum að standa saman, taka sameiginlega á vandamálinu. Það efnahagslega stórviðri sem gengur yfir heiminn og þau áhrif sem það hefur á okkur sýnir í hversu alþjóðlegu umhverfi við erum og hvað sveiflur erlendis hafa mikil áhrif á fjármálalífið á Íslandi.

Eftir góða afkomu ríkissjóðs undanfarinna ára er nú gert ráð fyrir að afkoma hans versni og tæplega 60 milljarða halli verði á honum árið 2009. Miðað við óbreyttar áherslur í rekstri ríkissjóðs er því spáð að hann verði rekinn með halla á næstu þremur árum en að viðsnúningur verði á árinu 2012. Þá er gert ráð fyrir að afgangur verði í ríkissjóði. Í slíku andstreymi á að skoða hvaða kostir eru í stöðunni til að tryggja hér atvinnu. Það er auðvitað mjög brýnt. Og eins og margoft hefur verið bent á er landið okkar gjöfult að auðlindum sem sífellt verða verðmætari. Nú er nauðsynlegt að nýta þær auðlindir sem við höfum yfir að ráða. Í sátt við náttúru og menn gætum við haldið áfram að virkja þær auðlindir sem felast í vatnsorku og ekki síst í jarðvarmaorku. Áhugi manna á nýtingu orku þessara auðlinda hefur verið að aukast til margvíslegra nota og til margvíslegra verkefna. Landsins mesta orka er í Suðurkjördæmi. Áform manna á því svæði beinast að því að nýta þær auðlindir sem þar eru til atvinnuuppbyggingar á Suðurlandi.

Á Keflavíkurflugvelli, gamla varnarsvæðinu, mun netþjónabú taka til starfa á síðari hluta næsta árs og skapast við það ný störf. Netþjónabú er fyrirtæki sem þarf aukna orku. Ísland var því valkostur sem ákjósanleg staðsetning fyrir netþjónabú og þá er vitað um áhuga fleiri í þeirri grein til að hefja starfsemi af slíkum toga hér á landi. Þá hefur áhugi erlendis frá á ferskvatni stóraukist. Nú þegar hefur fyrirtæki staðsett í Þorlákshöfn hafið útflutning á vatni og náð góðum árangri. Áætlanir eru um að allt að 30–50 störf skapist við verksmiðjuna þegar hún er komin í full afköst.

Þá vil ég benda á tækifæri í ferðaþjónustu sem er vaxandi atvinnugrein. Nú í sumar var Vatnajökulsþjóðgarður stofnaður sem mun án efa verða aðdráttarafl fyrir ferðamenn bæði innlenda og erlenda. Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að fjárveitingar til stofnkostnaðar Vatnajökulsþjóðgarðs verði 245 millj. kr. og er það í samræmi við endurskoðaða framkvæmdaáætlun þar sem gert er ráð fyrir að uppbyggingu í þjóðgarðinum verði lokið árið 2013, gangi öll áform eftir. Stofnun þjóðgarðsins er eitt stærsta atvinnusköpunar- og byggðaþróunarverkefni sem stjórnvöld hafa tekist á hendur í þessum hluta landsins. Hægt er að gera ráð fyrir að þjóðgarðurinn skjóti styrkari stoðum undir ferðaþjónustu á þeim svæðum sem að honum liggja. Gera má ráð fyrir að þeim ferðamönnum sem sækja þjóðgarðinn heim fjölgi eftir því sem umsvif þjóðgarðsins verða meiri, innviðir styrkjast og gestastofum fjölgar. Vatnajökulsþjóðgarður mun gefa ferðaþjónustuaðilum í sveitarfélögum nærri þjóðgarðinum aukna möguleika í þjónustu við ferðamenn. Sóknarfærin sem verða til á næstu árum vegna þjóðgarðsins verða af ýmsum toga. Með víðsýni og frjórri hugsun heimamanna verður til í tengslum við þjóðgarðinn fjöldi nýrra atvinnutækifæra sem þarf að nýta sem mest og best.

Vestmannaeyingar hafa lengi beðið eftir lausn á samgöngumálum sínum sem nú sér fyrir endann á með nýrri ferju og ferjuhöfn í Bakkafjöru. Samkvæmt áætlun á ný ferja að vera farin að sigla um mitt árið 2010. Með henni munu opnast nýir möguleikar fyrir Eyjamenn til að efla ferðaþjónustuna þar sem ferðatími á sjó styttist með hinni nýju ferju og ferðum fjölgar. Í kjölfar þessa munu gefast tækifæri til þess að efla tengslin við Suðurland en það mun án efa gefa Eyjamönnum aukin sóknarfæri á flestum sviðum. Ferðamenn sem ferðast um Suðurland fá tækifæri til að sigla til Vestmannaeyja með minni fyrirhöfn en áður var. Með nýrri ferju til Vestmannaeyja munu því skapast mörg tækifæri í ferðaþjónustu.

Virðulegi forseti. Það er mjög margt jákvætt fram undan í atvinnumálum landsmanna þrátt fyrir tímabundna efnahagserfiðleika sem að steðja nú um stundir. Frumvarpið gerir ráð fyrir auknum opinberum framkvæmdum til þess að koma í veg fyrir að efnahagslífið hægi um of á sér. Það er mikilvægt að gera en á sama tíma er einnig mikilvægt að draga úr rekstri ríkisins og í því sambandi þarf að beita auknum aðhaldsaðgerðum til að ná fram sparnaði og hagræðingu. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að styrkja innviði samfélagsins á sviði samgangna og fjarskipta. Góðar og greiðar samgöngur eru m.a. forsenda atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni auk þess sem góðar samgöngur eru mikið hagsmuna- og öryggismál íbúa landsbyggðarinnar sem þurfa jafnvel að sækja atvinnu eða sækja sér menntun um langan veg oft við erfiðar veðurfarslegar aðstæður. Þá er ekki síður mikilvægt að efla fjarskipti og greiða þannig fyrir möguleikum þeim tengdum til atvinnusköpunar á landsbyggðinni. Á þessa þætti þarf að leggja mikla áherslu eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

Virðulegi forseti. Þegar á móti blæs eins og nú gerir um stundir þá verðum við að horfa fram á við og sjá hvort ekki felist tækifæri í mótlætinu. Vissulega eru fjölmörg tækifæri eins og ég hef bent á í ræðu minni og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. Við megum alls ekki gleyma því að þrátt fyrir tímabundnar þrengingar í samtímanum er margt áhugavert að gerast á ýmsum sviðum samfélagsins sem hægt er að vera ánægður með.

Eftir þessa umræðu í dag fer fjárlagafrumvarpið til fjárlaganefndar sem mun skoða frumvarpið vel og vandlega og á það eflaust eftir að taka töluverðum breytingum í meðferð nefndarinnar á þeim óvissutímum sem nú eru. Verkefnið verður vandasamt, virðulegi forseti.