136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:39]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit nú ekki hvaða reiðhallir eru í fjárlagafrumvarpi. Það hefur þá farið fram hjá mér. Ég veit aftur á móti til þess að á síðasta kjörtímabili var ákveðnum sjóðum sem margir töldu með raun og rétti að bændur ættu, varið og skipt milli reiðhallarverkefna í landinu. En reiðhallirnar sjálfar fóru ekki á fjárlög svo mér sé kunnugt um. Það hefur þá farið fram hjá mér.

Varðandi það sem ég spurði um urðu svör lítil. Ég ítreka því spurningu mína um hvort hv. formaður telur eðlilegt að ríkisstofnunum sé að fullu bættur gengisskaði og halli af verðbólgu sem þær verða fyrir eins og rætt er um í fjárlagafrumvarpinu á fyrrgreindum blaðsíðum sem ég vísaði til. Þar er meira að segja gert ráð fyrir að það sem ekki tekst að bæta upp í frumvarpinu fyrir yfirstandandi ár verði bætt í fjáraukalögum 2009. Það tel ég forkastanleg skilaboð þar sem stofnunum er ekki ætlað að taka á sig verðbólguna líkt og heimilunum.

Varðandi það að við framsóknarmenn þykjumst ekki kannast við þær framkvæmdir sem við höfum ráðist í þá veit ég ekki hvaða framkvæmdir eða verkefni það eru. Við höfum m.a. barist fyrir því að staðið sé að uppbyggingu hátæknisjúkrahúss. Ég hefði talið mjög eðlilegt og æskilegt að því væri ekki kastað út við fjárlagagerð nú heldur héldum við áfram með það verkefni því að það er verkefni sem mun spara okkur mikið til lengri tíma litið í sjúkrahúsrekstri á höfuðborgarsvæðinu. Það er líka mjög mikilvægt að mæta þeirri atvinnukreppu sem fyrirsjáanleg er í byggingariðnaði á höfuðborgarsvæðinu.

En hvaða verkefni það eru önnur sem Framsóknarflokkurinn hefur ýtt af stað og ekki hefur verið haldið áfram með (Forseti hringir.) — ég veit ekki til hvers hv. formaður vísar.