136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:41]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf hugsanlega að koma aftur í ræðustól síðar í dag til þess að klára viðræður okkar hv. þingmanns Bjarna Harðarsonar.

Varðandi hátæknisjúkrahúsið er gert ráð fyrir því í svokölluðum sérlögum um ráðstöfun símafjár. Það verkefni er ekki eins langt komið eins og menn reiknuðu með og þar af leiðandi fara fjármunir því tengdir ekki á fjárlög. Verkefnið fer ekki af stað árið 2009 eins og gert var ráð fyrir á sínum tíma.

Það sem ég vísaði í áðan eru mjög mörg verkefni sem sett voru af stað árin 2005, 2006 og 2007 og eru í pípunum. Þau voru sett á samgönguáætlun eða einfaldlega sem rekstrarverkefni, þjónustusamningar eða eitt og annað sem gengur áfram inn í fjárlög hverju sinni. Hvað varðar launaliði og verðlagsbætur þá færum við úr lið 09-989 í fjárlögum yfir á stofnanirnar. Við höfum fengið kvartanir frá stofnunum sem ekki hafa verið verðbættar. Við þekkjum það af viðræðum okkar við sýslumenn, sjúkrastofnanir og fleiri að launaramminn breytist, hugsanlega út af aukinni yfirvinnu. Það verða forföll og veikindi og kalla þarf inn aukafólk. Við þekkjum það vel í fjárlaganefndinni hvernig umræðan er.

Ég hef sagt eins og ég gerði í fyrri ræðu minni í dag að fjárlaganefndin fær málin til umsagnar eins og aðrar fastanefndir, sérstaklega efnahags- og skattanefnd, varðandi tekjurammann. Auðvitað förum við yfir allan reksturinn. Við höfum nýlega fengið sex mánaða uppgjörið og okkar hlutverk er að fara yfir tölurnar og leggja fram tillögu í 2. umr. Ég á ekki von á öðru en að allir séu tilbúnir til þeirra starfa.