136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:53]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir hreinskilnina því að í þessu svari kom skýrt fram að hv. þingmaður telur að ríkisstofnanir eigi ekki að búa við sömu aðstæður og einkageirinn og heimilin að þurfa að mæta kreppunni á einhvern hátt heldur eigi þær að fá verðhækkanirnar, gengisþróunina bætta að fullu til þess að þar komi ekki til niðurskurðar. Ég er ekki sammála þessu mati. Ég tel þvert á móti, þó að auðvitað viðurkenni ég að að einhverju leyti verði að koma þar á móts við, að það eigi að skera þarna niður og hagræðingarkrafan sem í dag er upp á 2 milljarða í frumvarpinu líkt og var á síðasta ári sé allt of lítil og að í rauninni sé stór hluti af þeim 30 milljörðum sem á að verja til þess að bæta ríkinu upp verðbólguna peningar sem betur sé varið með öðrum hætti. Og það er einfaldlega þannig, frú forseti, að við notum ekki þessa 30 milljarða bæði til þess að bæta ríkisstofnunum verðbólguna og til að hjálpa heimilunum í landinu. Við þurfum að velja þarna á milli. Út á það gengur vinnan við gerð fjárlaganna.

Varðandi hitt atriðið sem hv. þingmaður vék að, og ég ætla þá aðeins að knýja á um betri svör ef hann er til í að koma hér aftur, það lýtur að gjaldskrárhækkunum. Það er líka alveg skýrt í fjárlagafrumvarpinu eins og það liggur fyrir að þar er gert ráð fyrir að gjaldskrárhækkanir, t.d. á olíugjaldi, bensíngjaldi, tóbaksgjaldi, bifreiðagjöldum og fleiru og fleiru fylgi algjörlega verðlagsþróuninni, elti verðbólguna algjörlega, og því miður verð ég að hryggja hv. þingmann með því að við erum reyndar löngu komin fram hjá því marki að geta komið í veg fyrir verðbólguna. Verðbólgan er farin af stað eins og við framsóknarmenn vöruðum við á síðasta ári að mundi gerast. En nú er spurningin: Er hv. þingmaður til í að beita sér fyrir (Forseti hringir.) því með mér að þessar sjálfvirku hækkanir ríkisins verði ekki fyrir hendi?