136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt að hv. þm. Bjarni Harðarson og ég værum meira sammála en virðist vera. Hv. þingmaður virðist hafa þá tilfinningu að hér sé ofgnótt í ríkiskerfinu, full ástæða til þess að hagræða og skera niður og að við eigum að fara í kjölfarið á fyrirtækjum sem hafa lent í hremmingum og þurft að segja upp fólki og gera það sama. (Gripið fram í.) Við erum ekki að tala um það. Við erum að tala bókstaflega um það að verja hagsmuni. Hver er að verja hagsmuni almennings ef ekki velferðarkerfið sem eru einmitt þær stofnanir sem verið er að ræða um? Og ef við ætlum að fara að skera þær niður til að veita minni þjónustu fyrir fatlaða eða barnafjölskyldur eða lækka bætur eða annað slíkt þá er það bara algjörlega í andstöðu við stefnu ríkisstjórnarinnar og þess sem við höfum stefnt að.

Ég tel eðlilegt að við reynum að halda úti þjónustunni. Ég færði rök fyrir því að það er ástæða til þess að fara ekki í niðurskurð núna. Það er hægt að skoða það á öðrum tíma þegar atvinnulífið er í blóma og þarf á vinnuafli að halda. Þeir sem stóðu að því að flytja þurfti inn 20 þúsund manns til að halda atvinnulífinu gangandi verða að svara því hvers vegna þeir völdu þá leið. Það er ekki tími núna til þess að fara að bregðast við því með því að fækka ríkisstarfsmönnum eða senda þá út í atvinnuleysið til viðbótar við þá sem eru í atvinnulífinu.

Það hefur auðvitað verið gætt aðhalds og við höfum farið í gegnum það í fjárlögum og við ræddum það m.a. áðan að það vantar víða peninga inn í ríkiskerfið. Því verður aldrei öllu mætt hvorki til sveitarfélaga né til einstaklinga. Þess vegna held ég að við séum alveg á réttu róli, það er verið að verðbæta aftur í tímann. Það er ekki verið að verðbæta fram í tímann, það er ekki verið að spá (Gripið fram í.) um verðbólgu og það er hárrétt að við þurfum auðvitað að taka á því. Ég tók það fram sérstaklega að við þurfum að skoða það í sambandi við allar hækkanir hvaða áhrif þær hafa á verðlag og reyna að meta það. En við eigum ekki að fara í samdrátt og niðurskurð eins og hv. þingmaður virðist vera að gera tillögu um.