136. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2008.

heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

80. mál
[16:54]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

Eins og kunnugt er dynja nú yfir fjármálamarkaði heimsins hremmingar sem einkum lýsa sér í skorti á lausafé vegna takmarkaðs lánsfjárframboðs. Íslensk fjármálafyrirtæki hafa ekki farið varhluta af þessu ástandi frekar en fjármálafyrirtæki í öðrum löndum. Við þessar erfiðu aðstæður hafa stjórnvöld víða um heim neyðst til að grípa til ráðstafana er miða að því að tryggja virkni fjármálakerfisins og efla traust almennings á því.

Í ljósi þessara aðstæðna er nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina að grípa til aðgerða og var niðurstaðan sú að nauðsynlegt væri að gera breytingar þær á lögum sem hér eru lagðar til en þær gera stjórnvöldum kleift að bregðast við því ástandi sem nú er á fjármálamörkuðum með þeim hætti sem nauðsynlegt er.

Frumvarpið er í nokkrum köflum og gerir ráð fyrir breytingum á fleiri en einum lagabálki. Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði sem heimila fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs við sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði að reiða fram fjármagn til að stofna ný fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki í heild sinni eða að hluta. Þá er lagt til að lögfest verði heimild fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans. Að auki eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, lögum um innstæðutryggingar fyrir fjárfesta og lögum um húsnæðismál.

Helstu breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki felast í því að lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja með víðtækum hætti vegna sérstakra aðstæðna eða atvika í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Þannig er í fyrsta lagi lagt til að Fjármálaeftirlitið geti boðað til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda án tillits til samþykkta félags og ákvæða hlutafélagalaga.

Í öðru lagi er lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að taka yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, m.a. takmarkað ákvarðanavald stjórnar, vikið stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, tekið yfir rekstur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafað slíku fyrirtæki í heild eða að hluta, m.a. með samruna þess við annað fyrirtæki.

Í þriðja lagi er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti takmarkað eða bannað ráðstöfun fjármálafyrirtækis á fjármunum sínum og eignum. Þá er Fjármálaeftirlitinu heimilað að taka í sínar vörslu eignir sem mæta eiga skuldbindingum fjármálafyrirtækis og láta meta verðmæti eigna og ráðstafa þeim til greiðslu áfallinna krafna eftir því sem forsvaranlegt þykir.

Í fjórða lagi er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti krafist þess að fyrirtæki sæki um greiðslustöðvun eða leiti heimildar til nauðasamninga.

Hér eru Fjármálaeftirlitinu samkvæmt þessum tillögum veittar mjög víðtækar heimildir, miklar valdheimildir sem ekki hafa áður verið í lögum á Íslandi en þekkjast þó í lögum margra nálægra landa. Lýsir það ástandi því sem nú ríkir á Íslandi að við skulum telja nauðsynlegt að afla okkur slíkra valdheimilda fyrir Fjármálaeftirlitið, heimilda sem áður hafa ekki verið taldar neinar líkur á að þyrfti að nýta hér á landi. Jafnframt er lagt til að í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi verði kveðið á um að framangreindar heimildir Fjármálaeftirlitsins til inngripa í fjármálafyrirtæki nái einnig til annarra eftirlitsskyldra aðila en fjármálafyrirtækja. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi. Þær felast m.a. í því að lagt er til að innstæður séu forgangskröfur við gjaldþrotaskipti. Það er mikilvægt atriði sem ekki hefur verið lögfest áður en er til að ítreka yfirlýsingar mínar og ríkisstjórnarinnar um að innstæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum eru tryggðar og ef tryggingasjóður er ekki nægjanlega öflugur til að sinna þeim skyldum mun ríkissjóður gera það. Þetta vil ég ítreka hér.

Þá er í þessum tillögum lagt til að heimilt verði að endurgreiða innstæður af bundnum reikningum í samræmi við skilmála þeirra reikninga þannig að greiðsluskylda skapist ekki á tryggingasjóðinn fyrr en innstæðueigandi hefði getað tekið innstæðu sína út úr banka samkvæmt skilmálum. Þá er lagt til að reglur um skuldajöfnuð gildi við uppgjör milli innstæðna og skulda í sama fjármálafyrirtæki. Þá er í frumvarpi þessu, í lokagreinum þess, lagt til að lögfest verði heimild fyrir Íbúðalánasjóð til að yfirtaka húsnæðislán sem önnur fjármálafyrirtæki hafa veitt. Talið er skynsamlegt við núverandi aðstæður að opna þann möguleika að Íbúðalánasjóður komi að þeim vanda sem skapast hefur með því að yfirtaka slík lán og mundi það geta greitt bæði fyrir fyrrverandi skuldareigendum, þ.e. fjármálastofnunum, en einnig almenningi sem á þarna hlut að máli og á það húsnæði sem notað er sem trygging í þessum viðskiptum. Við höfum talið nauðsynlegt að afla lagaheimilda í þessu skyni til þess fyrst og fremst að gæta að hag almennings.

Þetta mál ber nokkuð brátt að eins og þingmenn allir vita. Þannig háttar til eins og stundum er hér þegar mikilvæg mál eru á ferðinni að brýnt er að hraða afgreiðslu málsins í gegnum þingið eins og ég hygg að allir þingmenn skilji. Aðstæður eru þannig, því miður, að nauðsynlegt er að þessar heimildir fáist sem fyrst hvenær svo sem kann að þurfa að beita þeim. Ég treysti því að umfjöllun í þinginu verði málefnaleg eins og jafnan og að þingmenn treysti sér almennt til að standa að baki þessum lagabreytingum.

Ég hef kynnt þetta mál fyrir forustumönnum stjórnarandstöðunnar og þakka þeim fyrir gott samstarf. Ég vænti þess að mál þetta geti orðið að lögum síðar á þessum degi.

Ég legg til, herra forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til viðskiptanefndar þingsins en fer jafnframt fram á það að viðskiptanefnd fái umsagnir um hluta frumvarpsins, annars vegar frá efnahags- og skattanefnd og hins vegar frá félags- og trygginganefnd eftir efni þess.