136. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2008.

heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

80. mál
[17:19]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja ræðu mína á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ávarp til þjóðarinnar rétt áðan, hógvært og látlaust, ávarp sem auðvitað gat ekki sagt fyrir um allt sem fram undan er en boðaði þó erfiðleika. Við þær aðstæður er auðvitað mjög mikilvægt að allir menn haldi ró sinni og stillingu.

Ég vil í upphafi segja að við framsóknarmenn erum þeirrar skoðunar að nú sé mjög mikilvægt að allt það fólk sem líður kvalir og býr við óvissu við þær aðstæður sem nú eru eigi aðgang að upplýsingum og fái upplýsingar. Þá á ég ekki einungis við fólk hér innan lands heldur líka Íslendinga sem t.d. eru í námi erlendis, eins og margt ungt fólk er, og Íslendinga sem búa erlendis og hafa áhyggjur af þjóð sinni, Íslendinga sem eru á ferðalögum. Það er mjög mikilvægt að skapa ró og vissu og greiða úr þeim vandamálum sem kunna að koma upp á næstu dögum í þeim erfiðleikum sem nú er við að glíma.

Mér er það alveg ljóst og okkur framsóknarmönnum að í dag er lagt af stað til þess að öll nauðsynleg tæki og tól verði í þeim björgunarbát sem nú er mikilvægt að setja á flot, björgunarbát til þess að bjarga þjóðarskútu Íslands út úr þeim brimgarði sem hún er komin í. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að þetta eru annars konar hamfarir en yfir okkur hafa gengið fyrr eða síðar. Gamla fólkið man eftir peningakreppu og áfalli í kringum peninga, unga fólkið man það ekki og hefur ekki þekkt það fyrr í lífi sínu. Á hinn bóginn er líka ljóst að það hefur enginn maður farist í þessum hamförum, það er ekkert slíkt á ferðinni eins og stundum hefur verið þegar hefur orðið að ávarpa þjóðina við mjög erfiðar náttúruhamfarir.

Við búum við þá gæfu að vera rík þjóð með mikilvægar auðlindir. Við þurfum að eignast einn þjóðarvilja, eina þjóðarsál við þær aðstæður sem nú eru til þess að við getum á sem skemmstum tíma, á sem allra skemmstum tíma náð á ný byr í þau segl sem við höfum öll tækifæri til. Við Íslendingar eigum dýrmætar auðlindir sem hafa gefið okkur mikið í gegnum áratugina, við eigum lífbeltin tvö, hafið og landið, og við höfum sótt mikinn auð í þær auðlindir og við framsóknarmenn höfum vakið athygli á því á síðustu vikum og mánuðum að þar bíða okkar mikil og ný tækifæri. Við eigum hafið, við getum aukið þorskveiðikvótann, við getum hraðað þeim stóru verkefnum sem nú eru í undirbúningi og hafa verið í mörg ár, á Bakka við Húsavík og í Helguvík, við eigum að geta aflað mikils.

Skammtímavandinn er hins vegar stór. Ég geri kröfu til þess sem formaður Framsóknarflokksins og við framsóknarmenn höfum rætt það í dag, að nú verði allir að axla ábyrgð, líka þeir sem fóru offari á vegferð heimsins á síðustu mánuðum og missirum. Þeir verða að koma til samstarfs við ríkisstjórnina til þess að vinna sig út úr vandanum, það verða allir að leggjast á eitt. Það eru margir að tapa miklu en það stendur til að sá björgunarbátur sem hér er verið að búa til verji þá hagsmuni sem dýrmætastir eru, sparifé fólksins, að menn geti farið í þær mikilvægu aðgerðir að fólk haldi eignum sínum og íbúðum o.s.frv. Við leggjum megináherslu á það. Það er stóra verkefnið í þeirri aðgerð sem nú er fram undan, að bjarga því sem bjargað verður.

Við þessar aðstæður get ég samt ekki annað en rifjað það upp að við framsóknarmenn höfum varað við þessum vanda. Við höfum í rauninni gagnrýnt ríkisstjórnina frá því að hún hóf störf fyrir aðgerðaleysi, fyrir það andvaraleysi sem hún sýndi kreppu sem fæddist fyrir 15 eða 16 mánuðum. Vofan var þá komin af stað. Það lá fyrir úti í Bandaríkjunum, þær upplýsingar höfðu hingað borist. Hið ódýra fjármagn sem setti glýju í augun á mörgum var runnið til þurrðar. Þær lindir voru þornaðar og fram undan var fjármagn, mjög dýrt og fjárþurrð. Þess vegna rifja ég upp að á sumarþingi gagnrýndum við að ekki væri gripið til ráðstafana og þegar heimskreppan var hafin gerðum við það hiklaust hér í þingsalnum í fyrrahaust, við lögðum fram efnahagstillögur í mars, við lögðum fram efnahagstillögur um aðgerðir í júlí, þannig að við vöruðum við og gerðum okkur grein fyrir því. Heimurinn var í hættu, Ísland gat smátt og smátt lent inni í þessum hremmingum. Fjármálakreppan hlaut að skella á Íslandsströndum og nú hefur hún gert það og þess vegna er verkefnið hér aðeins eitt, þ.e. að lágmarka skaðann, að kalla út slökkviliðið og björgunarsveitina eins og ég hvatti til í umræðunni í síðustu viku. Nú er þetta verkefni morgundagsins og að vinna úr þeim mörgu erfiðleikum sem blasa við. Nú er um að gera að slíðra sverð og sakast ekki hver við annan. Fortíðin geymir sinn vanda, hún geymir sín tækifæri sem voru þá góð. Hún geymir líka sín mistök og yfir þau þarf að fara á síðari stigum og verður örugglega gert og er mikilvægur lærdómur.

Aðalatriðið er að ganga til þeirra verka sem nú blasa við Alþingi, ríkisstjórn, atvinnulífi — ég tala nú ekki um fjölskyldunum á Íslandi. Við framsóknarmenn höfum talað um þjóðarsátt í heilt ár, þjóðarsáttarborð þar sem menn kæmu saman til þess að velta morgundeginum fyrir sér, til að velta því fyrir sér hvernig þeir gætu mætt þeim erfiðleikum sem voru svo augljósir, en hér er hvorki staður né stund til þess að tíunda það. Við framsóknarmenn höfum fallist á það hér í dag að greiða fyrir þessari flýtimeðferð, að þingið geti á sem skemmstum tíma útbúið þau tæki og tól sem þarf í björgunarbátinn til þess að siglingin geti hafist, til þess að ausa þjóðarskútuna. Ég trúi því að við höfum manndóm og styrk til þess að koma í veg fyrir að börnin okkar og komandi kynslóðir sitji hér áratugum saman í miklum vandamálum. Skylda dagsins, skylda morgundagsins er nákvæmlega sú að koma í veg fyrir að við sitjum hér undir ábyrgðum og vandamálum sem við ráðum ekki við nema í fátækt því þá ráðum við ekki við það. Þess vegna skulum við horfa fram á veginn. Við Íslendingar erum oft meistarar í að vinna okkur út úr kreppu og erfiðleikum, þá höfum við styrk, við gleymum okkur oft í sólskini og góðæri. Það hefur því miður gerst hér.

Ég segi eins og hæstv. forsætisráðherra sagði: Við Íslendingar eigum mikinn dugnað og mannauð, við eigum bjartsýni og þess vegna er mikilvægt að virkja alla þá orku til þess að vinna með okkur. Ég segi að lokum, hæstv. forsætisráðherra, af því að þú minntist hér á sjómennskuna og brimið og skipin: Gömlu sjómennirnir sögðu þegar úfinn var sjór og þeir stóðu í vörinni: Ýtum úr vör í Drottins nafni.

Nú skulum við standa saman og vinna saman, Íslendingar.