136. löggjafarþing — 6. fundur,  6. okt. 2008.

heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

80. mál
[21:53]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta viðskiptanefndar en að honum stend ég ásamt því að hv. þm. Jón Magnússon, sem er áheyrnarfulltrúi í viðskiptanefnd, er samþykkur áliti minni hlutans.

Minni hlutinn hefur að sjálfsögðu reynt að kynna sér og rannsaka efni frumvarpsins eins og kostur er á skömmum tíma og við afar sérstakar aðstæður. Málið er borið fram af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar komið er í mikið óefni í fjármálalífi landsmanna og engir góðir kostir eru í boði. Við þær aðstæður er að sjálfsögðu verkefni Alþingis og ríkisstjórnar að lágmarka skaðann fyrir almenning og fyrir þjóðarbúið eins og framast er unnt. Ekki skiptir síður miklu máli að reyna að tryggja að framtíðarhagsmunir landsmanna séu varðir þannig að byrðarnar verði ekki þyngri en óumflýjanlegt er á herðum komandi kynslóða. Auðvitað eru það heimilin í landinu sem hugur okkar flestra dvelur hjá um þessar mundir. Það eru undirstöðustofnanir samfélagsins, heimilin, sveitarfélögin og ríkisvaldið sjálft sem umfram allt þarf að verja.

Hæstv. ríkisstjórn hefði á undanförnum dögum og vikum mátt standa sig betur í að hafa samráð og bera sig saman við og hlusta á sjónarmið ýmissa aðila sem hún ræddi ekki við. Það er t.d. umhugsunarefni að ríkisstjórnin skyldi á þessum dögum sem á undan eru gengnir aldrei ræða við sveitarfélögin í landinu sem fara með rekstur mikilvægs hluta velferðarþjónustunnar, sem eru einn stærsti vinnuveitandi landsins og sem mörg hver eru í afar þröngri og erfiðri stöðu með fjárhag sinn um þessar mundir. Ég skýt þessu inn í hér einfaldlega til þess að það hafi verið sagt að þarna hafa menn ekki staðið að verki eins og skyldi. Úr því að rúm var fyrir alla fundina sem ríkisstjórnin hélt — og má nú deila um hverju þeir skiluðu margir hverjir — úr því að það var svona mikið til af kaffi, herra forseti, hefði væntanlega verið hægt að bjóða sveitarfélögunum inn á eins og einn fund.

Ég vil leggja á það sérstaka áherslu fyrir hönd minni hlutans að þeir aðilar máls sem hér hafa vélað um sæti í framhaldinu siðferðislegri, viðskiptalegri, lagalegri og pólitískri ábyrgð. Það er algerlega óumflýjanlegt að hlutur helstu málsaðila komi til ítarlegrar og tæmandi rannsóknar og skoðunar. Benda má á í því sambandi þær aðgerðir sem bandarísk stjórnvöld hafa þegar ráðist í til þess að tryggja að framferði og hrun fjármálastofnana vestan hafs verði rannsakað. Ég skora á ríkisstjórnina sjálfa — henni stendur málið næst — að hafa frumkvæði að slíku en geri hún það ekki verður að sjálfsögðu séð til þess að Alþingi eigi kost á því í framhaldinu að taka afstöðu til slíks.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð og stjórnarandstaðan öll hafa undanfarna daga og vikur boðið ríkisstjórninni samstarf og aðstoð við að leysa úr aðsteðjandi stórvandræðum sem öllum mátti ljóst vera að væru í vændum. Sú útrétta samstarfs- og sáttarhönd hefur enn ekki verið þegin og telur ríkisstjórnin sig því væntanlega einfæra og fullfæra um að ráða fram úr vandanum. Afrakstur þeirrar ráðsmennsku og verkstjórnar ríkisstjórnarinnar sér nú stað í þessum neyðarlögum, sem framsögumaður meiri hlutans kallaði svo réttilega.

Með því að ríkisstjórnin hefur kosið að vinna ein að undirbúningi málsins, þó að væntanlegt efni frumvarpsins og staðan væri kynnt okkur forustumönnum stjórnarandstöðunnar á síðustu stundu, þ.e. á fundum í morgun og aftur eftir hádegið á þessum sama degi og málið er flutt á Alþingi og væntanlega afgreitt, hlýtur hún, þ.e. ríkisstjórnin og meiri hluti hennar hér, að bera ábyrgð á því. Það er einnig ljóst að mjög miklu skiptir hvernig haldið verður á þeim víðtæku heimildum sem í frumvarpinu felast, verði það að lögum, og hvernig þær verða nýttar. Með öðrum orðum skiptir framkvæmdin höfuðmáli og þar sem hún verður að óbreyttu á ábyrgð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar getur minni hlutinn eðli málsins samkvæmt enn síður borið ábyrgð á slíku fyrir fram. Því munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sitja hjá við endanlega afgreiðslu málsins.

Framsal valds til fjármálaráðherra, og þó einkum til Fjármálaeftirlitsins, er gríðarlega víðtækt og slíkar valdheimildir hafa mér vitanlega sennilega ekki verið framseldar í einu litlu frumvarpi í annan tíma til stjórnvalds sem ekki er lýðræðislega kjörið. Ákvæði frumvarpsins ganga að margra mati fram á ystu brún þess sem stjórnarskráin þolir gagnvart ýmsum vörðum mannréttindum. Ég er þeirrar skoðunar að eðlilegast hefði verið við þessar aðstæður að þingið hefði kosið stjórnarnefnd eða eftirlitsnefnd undir hverja hefðu verið bornar allar ákvarðanir framkvæmdarvaldsins á grundvelli þessara lögheimilda. Það hefði verið hinn þingræðislegi, lýðræðislegi og eðlilegi farvegur að mínu mati en undir slík sjónarmið var ekki tekið þegar ég t.d. hreyfði þeim í hv. þingnefnd.

Ég vil taka fram að minni hlutinn styður heils hugar ákvæði frumvarpsins um að Íbúðalánasjóði verði heimilt að taka yfir íbúðarlán viðskiptabanka og sparisjóða. Reyndar er það svo að fyrir þessu þingi liggur nú þegar frumvarp þessa efnis flutt af öllum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það er á þskj. 9 og varðar að sjálfsögðu breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál. Þar er það útfært þannig að endurfjármögnun þeirra lána sem bankarnir á umliðnum þremur árum, fyrst og fremst, veittu almenningi gegn veði í íbúðarhúsnæði verði stofnuð sem almenn húsnæðislán í þeim köflum húsnæðislaganna sem um það fjalla. Það er að okkar dómi að sjálfsögðu miklu betri frágangur málsins en sá sem var í frumvarpi ríkisstjórnarinnar í byrjun en þar er eingöngu gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður geti yfirtekið eða keypt skuldabréf fjármálafyrirtækjanna eins og þau standa og með þeim skilmálum sem þar eru. Í breytingartillögum meiri hlutans er lagt til að þetta verði lagfært þannig að orðin „eða endurfjármagna“ — þ.e. nákvæmlega sama orðalag og er í frumvarpi okkar — komi inn í lagatextann. Það er að sjálfsögðu til bóta og opnar þá leið að Íbúðalánasjóður geti hvort tveggja keypt lánin sem slík eða skuldabréfin eins og þau standa eða veitt mönnum ný lán til að endurfjármagna þau sem fyrir voru í bankakerfinu, greiða þau upp og komast þar með fram hjá vaxtaendurskoðunarákvæðum sem í skilmálunum eru.

Það er því miður svo, herra forseti, að margt bendir til þess að aðgerðir af því tagi sem frumvarpið væntanlega er fyrirboði að — ég endurtek: Er fyrirboði að — því að þetta eru heimildarlög, verði frumvarpið að lögum, sé illskásti kosturinn, neyðarkosturinn í stöðunni eins og hún er. Hann er best til þess fallinn af þeim úrræðum sem tiltæk eru til að lágmarka skaðann sem stórkostlegt andvaraleysi og mistök fjölmargra innlendra aðila, að viðbættri hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, leiða nú yfir þjóðina. Meðal annars af þessum sökum og með vísan til þess að óumflýjanlegt er nú orðið að bregðast mjög hratt við studdum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og ég hygg stjórnarandstaðan öll, að málið yrði hér tekið fyrir með afbrigðum og fengi skjóta afgreiðslu. En eins og áður hefur komið fram og rökstutt hefur verið munum við sitja hjá við endanlega afgreiðslu málsins.

Jón Magnússon, áheyrnarfulltrúi í viðskiptanefnd, er samþykkur þessu áliti eins og áður kom fram.

Þá vil ég gera sérstakar athugasemdir við eitt ákvæði frumvarpsins, þ.e. í 3. mgr. 1. gr. þar sem er ákvæði þess efnis að ákvæði laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum gildi ekki um yfirtöku fjármálafyrirtækisins í heild eða að hluta samkvæmt lögum þessum. Við treystum því og það væri mjög notalegt að fá staðfestingu hæstv. fjármálaráðherra, eða einhvers annars ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar ef það er í boði, á því að ákvæðið verði ekki notað til þess að almennir starfsmenn fyrirtækjanna sem kunna að færast á milli vinnuveitenda jafnvel í nótt missi í neinu af sínum venjubundnu réttindum við aðstæður sem þessar. Sé ákvæðið hins vegar þannig hugsað og túlkað að hægt sé að koma í veg fyrir að ofurlaunakjör og hneykslanlegir starfslokasamningar og aðrir slíkir hlutir skuli færast yfir erum við að sjálfsögðu sammála því. Við drögum hins vegar mörkin þar að það verði alveg skýrt að almennir starfsmenn fyrirtækjanna verði varðir. Ég treysti því að hæstv. ráðherrar og hæstv. ríkisstjórn geti fullvissað okkur um að svo sé og ég sé hér að ráðherra aðila vinnumarkaðarins kinkar ákaft kolli, það er heldur góðs viti.

Á hinum endanum má svo sannarlega taka til hendinni og að sjálfsögðu dettur vonandi engum einasta lifandi manni í hug að þau ósköp sem viðgengust í sumum þessum fyrirtækjum á umliðnum missirum eigi eftir að sjást í þeim opinberu fyrirtækjum og bönkum sem e.t.v. líta dagsins ljós strax og birtir.

Um breytingartillögurnar er það að segja að þær eru flestar, í raun má segja allar, til bóta enda margar hverjar komnar frá stjórnarandstöðunni. Þannig er í sjálfu sér ágætt að hnykkja á því í 1. tölulið breytingartillagnanna að hér skuli ekki aðeins talað um „sérstakar“ heldur einnig „mjög óvenjulegar aðstæður“ því að það eru þær svo sannarlega.

Í 2. tölulið er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að setja sérstakar reglur um viðskipti með stofnbréf í sparisjóðum þegar eða ef ríkið kemur inn með fé og gerist stóreigandi í þeim. Þetta er að mínum dómi algerlega óumflýjanlegt ákvæði einfaldlega vegna þess að ef ríkið kemur inn með stofnfé sem nemur allt að 20% eigin fjár í viðkomandi sparisjóði, sem oft er með mjög lágt stofnfé að nafnvirði, getur það gerst eigandi hans að stærstum hluta eða að mestöllu leyti. Þá er algerlega óeðlilegt að einstakir stofnfjáreigendur og í raun hvort heldur er ríkið eða hinir stofnfjáreigendurnir geti farið út í viðskipti með bréfin á grundvelli sömu reglna og þar hafa gilt um og því miður. Auðvitað ættu menn nú, þótt sorglega seint sé, að manna sig upp í að afnema allar heimildir til þess að eiga viðskipti með stofnbréf nema á nafnverði. Það var aldrei ætlunin að með þau væri verslað öðruvísi, það brýtur gegn grundvallarhugsun og tilgangi sparisjóða og því hefði betur aldrei verið hleypt af stað. Í öllu falli hljóta allir að sjá að það geta komið upp svo afbrigðilegar aðstæður, ef það gerist, að ótækt er að ekki sé þá hægt að setja sérstakar og takmarkandi reglur um viðskipti með stofnbréf í slíkum tilvikum.

Þriðja breytingartillagan er í raun framlenging af því efni frumvarpsins og lýtur að því sem við munum ekki greiða atkvæði um þannig að væntanlega sitjum við hjá við hana.

Síðan koma aftur tillögur sem eru tvímælalaust til bóta, einkum og sér í lagi 5., 6. og 7. töluliðir sem bæta þau ákvæði frumvarpsins sem lúta að Íbúðalánasjóði og möguleikum hans á að kaupa eða endurfjármagna íbúðarlán banka og sparisjóða. Að lokum er að sjálfsögðu eðlilegt að í frumvarpið komi endurskoðunar- eða sólarlagsákvæði og er hér lagt til að fyrir 1. janúar 2010, að 15 mánuðum liðnum eða svo, verði búið að endurskoða lögin. Mér segir reyndar svo hugur um að búið verði að margbreyta þeim áður en þar að kemur og setja mörg önnur í viðbót. Einhvern veginn læðist að manni sá grunur að margt muni þurfa að endurskoða og prjóna upp í þessari framkvæmd.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta, herra forseti, en segi bara að lokum að ég ætla að vona að þess verði langt að bíða og helst um aldur og ævi að aðstæður af því tagi sem við höfum staðið og stöndum nú frammi fyrir komi upp. Hér er ábyrgð mjög margra mikil og miklu skiptir að menn vandi sig og vinni vel úr hlutunum. Málið mun auðvitað draga langan slóða, bæði gagnvart þeim sem verða fyrir áhrifum af því beint og strax og síðan ýmsum öðrum sem framtíðin ein getur leitt í ljós hvernig reiðir af, fyrirtækjum í eignatengslum við fjármálafyrirtæki og þar fram eftir götunum.

Ég vona að landsmönnum farnist sem best og að þeir komist sem best í gegnum þetta. Ég vona að starfsmönnum sem hér eiga undir gangi vel að vinna úr málum sínum og tel auðvitað rétt og skylt að allt sé gert sem mögulegt er til að standa við bakið á því fólki sem nú mun eiga um sárt að binda á ýmsan hátt vegna aðgerða sem liggur í loftinu að ráðist verði í í beinu framhaldi af því að þessi lög taka gildi.

Það er mjög margt, herra forseti, sem ekki er við hæfi eða aðstaða til að segja í dag en það þarf margt að segja á morgun og hinn daginn. Það eru margir óuppgerðir hlutir og stórir sem óumflýjanlegt er að þessi samkoma hér, Alþingi Íslendinga, horfist í augu við og ræði þegar við erum búin að ljúka því verki sem við höfum nú á höndum.