136. löggjafarþing — 6. fundur,  6. okt. 2008.

heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

80. mál
[22:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Eðli þess máls sem við ræðum hér er slíkt að vinna þarf hratt að úrlausn þess. Hægt væri að hafa mjög mörg orð um það umfangsmikla mál sem við þingmenn í viðskiptanefnd fengum í hendur í dag en ég ætla að stytta mál mitt vegna þess að það er mikilvægt að við klárum það sem allra fyrst.

Í umræðum hér á Alþingi fyrir nokkrum dögum töluðum við framsóknarmenn fyrir þjóðarsátt, að nú þyrftum við að standa saman á erfiðum dögum. Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur tekið þá afstöðu að styðja það mál sem hér er til umræðu, reyndar með fyrirvara, til þess að leggja fram sína sáttarhönd því að nú þarfnast þjóðin þess að við stöndum saman í svo erfiðu máli sem hér um ræðir. Ég ætla þess vegna ekki að ræða fortíðina hér, hvort hægt hefði verið að standa öðruvísi að málum. Það er einfaldlega ekki staður né stund til að fara í einhverjar söguskýringar hér. Við þurfum að horfa til framtíðar og við þurfum að standa saman um að koma okkur út úr þeirri erfiðu stöðu sem blasir nú við.

Hvað mig varðar og trúlega félaga mína í Framsóknarflokknum einnig snýst málið um að taka afstöðu til þess hvort við eigum að koma efnahagslífinu til bjargar á ögurstundu eða ekki með þeim tillögum sem hér er gerð grein fyrir. Það snýst fyrst og fremst um stöðumat, hvað þjóðinni sé fyrir bestu, hvað starfsfólki fjármálastofnana sé fyrir bestu, heimilunum, fyrirtækjunum og íslensku efnahagslífi. Ef við komumst að þeirri niðurstöðu að við þurfum að koma efnahagslífinu til bjargar er ekki hægt annað en að styðja efnislega það sem hér er lagt til. Þó að það sé gert með stuttum fyrirvara, þó að það séu örugglega einhverjir vankantar á því sem við samþykkjum hér stöndum við einfaldlega frammi fyrir stórri spurningu um hvort við ætlum að rísa undir íslensku efnahagslífi og standa vörð um heimilin og fyrirtækin í landinu. Þess vegna styðjum við framsóknarmenn frumvarpið, reyndar með fyrirvara, rétt eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson mun gera lauslega grein fyrir hér á eftir.

Ég vil nefna eina breytingu sem kveðið er á um í nefndarálitinu þar sem nefndin telur tryggt að heimilt verði að skuldbreyta keyptum eða yfirteknum lánum einstaklinga sem lenda í erfiðleikum og vísum við þar til Íbúðalánasjóðs. Við framsóknarmenn og stjórnarandstæðingar höfum haldið margar ræður um ágæti Íbúðalánasjóðs á undanförnum mánuðum og ég held að það sanni sig fyrst nú hversu gríðarlega dýrmæt sú stofnun er fyrir samfélag okkar á þessum erfiðu tímum. Því er það mikilvægt að við stöndum áfram vörð um Íbúðalánasjóð í þeim efnahagsþrengingum sem yfir okkur vofa núna og ég vona að ríkisstjórnin standi heils hugar að baki þessari mikilvægu stofnun allra landsmanna.

Eins og ég sagði í upphafi er hvorki staður né stund til að lengja málið verulega. Við þurfum að ljúka því fyrr en síðar, mikið liggur við. Framsóknarflokkurinn réttir fram sáttahönd til þess að við getum verið samhent við að leiða þjóðina úr miklum þrengingum. Ég vona að hæstv. ríkisstjórn virði það við okkur og taki í útrétta sáttarhönd því að þjóðin hefur einfaldlega ekki efni á því, herra forseti, að við stöndum ekki saman á einum erfiðustu tímum í efnahagslífi þjóðarinnar allt frá því að við urðum lýðveldi.