136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

aukinn þorskkvóti.

[13:43]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir það með þingmanninum að aukin verðmætasköpun er forsenda þess að við getum haldið áfram að bæta kjörin í landinu. Það er okkar markmið allra hér í salnum. En varðandi þetta tiltekna úrræði þá er það þess eðlis að ekki er hægt að hrapa að endurskoðun eða breytingu á þeirri ákvörðun sem tekin hefur verið. Hún er byggð á vísindalegum grundvelli og ráðgjöf færustu vísindamanna. En sjávarútvegsráðherra er að sjálfsögðu með þessi mál öll til skoðunar stöðugt og er í góðu sambandi við greinina og við vísindamennina. Ég tel hins vegar ... (Gripið fram í.) Það er hluti af greininni, hv. þingmaður. Ég tel hins vegar ekki hyggilegt að blanda þessu máli sérstaklega inn í umræðu um það ástand sem nú hefur skapast. Ef það er grundvöllur fyrir því að auka kvótann þá mun það koma út úr athugunum sjávarútvegsráðherra og hans manna. En það væri mjög óskynsamlegt af mér að lýsa því nú yfir úr ræðustól Alþingis að slík ákvörðun stæði fyrir dyrum.