136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

staða mála á fjármálamarkaði.

[13:45]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Þegar hinni miklu örlagaumræðu og ákvörðun í gærkvöldi var að ljúka ræddi ég það í fullri alvöru við hæstv. forsætisráðherra hvort ekki yrði að taka upp opinbera gengisskráningu við þessar aðstæður þar sem gengisvísitalan var komin í 230–240. Ég fagna því, hæstv. forsætisráðherra, að nóttin hefur verið notuð vel. Gengið hefur verið staðsett í 175 og þar þarf auðvitað að taka betur á út frá hag heimilanna, skuldastöðu þeirra sem skulda í erlendri mynt o.s.frv. en ég fagna þessari niðurstöðu, að skynsemin og handaflið hefur verið nýtt.

Ég ræddi líka um vextina, stýrivextina háu 15,5%, þá verður að keyra niður og þeir verða að vera orðnir mjög lágir um jól til að bjarga enn frekar hag heimilanna á Íslandi. Það er hagur heimilanna sem við verðum nú að vaka yfir og þessi tvö atriði hafa mikið að segja.

Ég vil enn fremur fagna því að víðsýni er að vaxa og menn eru ekki bara bundnir við Bandaríkin. Bush hefur ekki reynst okkur neinn vinur. Nú horfa menn til Pútíns og ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hefur komið fram í morgun og vona að því láni, upp á 620 milljarða, verði landað á hagstæðum kjörum til þess að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Ég vil enn fremur segja að þessi yfirlýsing hefur þegar haft mikil áhrif að mér sýnist. Norðmenn og Svíar, frændur og vinir, auðugar þjóðir eins og við, sjá að ástæðulaust er að láta Ísland þjást í þessum heljarböndum óreiðunnar og seinagangsins. Þeir lýsa því nú yfir að þeir geti hugsanlega viljað styrkja Ísland líka og koma til samstarfs með skjótum hætti um að ná árangri hér. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki séu allar dyr í þessum efnum opnar og hvort ekki sé full ástæða til að senda blessuðum Pútín þakkarskeyti frá Alþingi og ríkisstjórn.