136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[14:04]
Horfa

Flm. (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu á þskj. 10, um aukna hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum. Meðflutningsmenn mínir eru félagar mínir úr þingflokki framsóknarmanna Birkir Jón Jónsson, Guðni Ágústsson og Bjarni Harðarson.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka hið fyrsta upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga um aukna hlutdeild sveitarfélaganna í innheimtum skatttekjum.

Tillagan var flutt á síðasta þingi, 135. löggjafarþingi. Málið fór til nefndar en eins og um flestöll mál sem hv. þingmenn flytja á Alþingi þá var málið ekki afgreitt úr nefnd og er það nú endurflutt.

Virðulegur forseti. Mjög mörg sveitarfélög í landinu búa við erfiða fjárhagsstöðu af ýmsum ástæðum og mörgum sveitarfélögum hefur reynst erfiðara og erfiðara að standa undir lögbundnum verkefnum sínum vegna þess að fjárhagsstaða þeirra hefur verið mjög erfið og ekki hefur hún farið batnandi. Að vísu ber að geta þess að fjárhagsstaða sveitarfélaga er auðvitað mjög misjöfn af ýmsum ástæðum.

Þegar við ræddum þetta mál á síðasta löggjafarþingi þá var nýbúið að taka ákvörðun um verulegan samdrátt í fiskveiðum. Það var allt útlit fyrir, sem reyndar hefur komið á daginn, að það hefði mjög alvarleg áhrif á tekjur margra sveitarfélaga, sérstaklega þeirra þar sem sjávarútvegur er undirstöðuatvinnuvegur. Sú hefur orðið reyndin og ég hygg að á því fiskveiðiári sem nú er nýhafið muni mörgum sveitarfélögum reynast jafnvel enn erfiðara að standa undir lögbundnum verkefnum sínum en á síðasta ári þar sem þessar breytingar hafa mikil áhrif á tekjur þeirra.

Margt hefur verið að gerast á síðustu dögum í fjármálaheiminum og ég hygg að afleiðingarnar af því öllu saman muni hafa áhrif á mjög mörg sveitarfélög. Að vísu er óljóst hvernig það muni koma niður á sveitarfélögunum, bæði er varðar bankaviðskipti þeirra og jafnvel inneignir í fjármálafyrirtækjum og einnig á tekjur þeirra. Þetta á allt eftir að koma í ljós og við getum í sjálfu sér ekkert sagt fyrir um það hér og nú hvernig það muni þróast.

Virðulegi forseti. Hér er staddur hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála, samgönguráðherra, og ég vil nota tækifærið og beina til hans nokkrum atriðum sem varða þetta mál. Í fyrsta lagi þá er um að ræða að á fjárlögum síðustu ára hefur verið sérstakt tímabundið framlag í jöfnunarsjóð, ég hygg að það hafi verið 1,4 milljarðar á þessu ári. Ég get ekki séð að gert sé ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi næsta árs enda var um tímabundið framlag að ræða sem var umsamið og það samkomulag er útrunnið eftir þetta ár.

Ég vil því beina því til hæstv. ráðherra hvort til standi að taka þetta framlag upp annaðhvort í sama formi eða einhverju breyttu formi. Þetta framlag skiptir gríðarlega miklu máli sérstaklega fyrir minni sveitarfélög á landsbyggðinni og ég veit að það kom sér mjög vel og skipti sköpum fyrir afkomu margra þeirra og varðandi það að þau gætu staðið við lögbundin verkefni sín. Það væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hvað hann hefur um þetta mál að segja.

Þar að auki fær Jöfnunarsjóður sveitarfélaga ákveðið hlutfall af skatttekjum ríkissjóðs og nú er gert ráð fyrir að þær dragist saman sem þýðir auðvitað að framlag í jöfnunarsjóð mun þar með dragast saman. Þetta er mjög stórt mál og mikilvægt og það þarf að finna einhverja lausn á því þannig að sveitarfélögin verði ekki fyrir miklum búsifjum hvað varðar þennan þátt. Ég beini því einnig til hæstv. ráðherra hvort hann hafi eitthvað um þetta mál að segja.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa framsögu öllu lengri. Hér er um mjög stórt og mikilvægt mál að ræða en við þær aðstæður sem nú eru hef ég miklar áhyggjur af fjárhag og afkomu starfsemi margra sveitarfélaga í landinu. Aðstæður hafa ekki batnað, þvert á móti. Ég tel mjög mikilvægt að hæstv. ríkisstjórn og forustumenn sveitarfélaganna í landinu setjist yfir þessi mál sem allra fyrst og reyni að finna leiðir til þess að sjá til þess að sveitarfélögin geti starfað eðlilega og veitt þá þjónustu sem þau eiga að gera. Sú tillaga til þingsályktunar sem hér er rædd gerir einmitt ráð fyrir því og ég vænti þess að þingnefnd sem mun fá þetta mál til umfjöllunar sjái til þess að málið verði afgreitt þannig að til þessara viðræðna geti komið. Hér er um gríðarlega stórt og mikilvægt mál að ræða sem aðilum ber að sjálfsögðu að taka á og finna lausnir á.

Virðulegur forseti. Ég læt máli mínu lokið en legg til að málinu verði vísað til viðeigandi nefndar sem fjallar um sveitarstjórnarmál.