136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[14:39]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel ekki ráðlegt að skipta sveitarfélögum í a, b og c. Ég tel það ekki ráðlegt gagnvart Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og hygg að það mundi verða til þess að allir vildu eiga heima í a-sveitarfélagi. Ef þú værir flokkaður í b væri það næstbesti kostur og ég tala ekki um ef þú værir kominn í c-sveitarfélag. Það væri hálfgerður tossabekkur og enginn vildi vera í því sveitarfélagi vegna þess að þar væri fjárhagsstaðan erfið. Fólk forðaðist því að flytja í sveitarfélög sem væru í þessari stöðu. Ef við ætlum að flokka sveitarfélög á Íslandi í dag mundum við væntanlega flokka t.d. nánast alla Vestfirðina, hluta Norðurlands, Norðausturland og Austfirði sem sér sveitarfélög. Það væri mjög óæskilegt, þau gætu litla þjónustu veitt og fólk ætti ekki von á að fá þar sömu þjónustu og sömu hluti og kannski í sveitarfélögum á suðvesturhorninu. Ég tel þetta vera mjög hættulega leið af því að það getur verið dálítið rokkandi hvar er best að vera á hverjum tíma. Við eigum því að varast að fara þessa leið.

Ég gleymdi að tala um fjármagnstekjuskatt áðan. Auðvitað á hann að skiptast í svipuðu hlutfalli á milli sveitarfélaga og ríkis eins og aðrar tekjur. 78 sveitarfélög. Fjárhagsstaða þeirra er mjög misjöfn og það er ekki góður kostur að neyða t.d. lítið sveitarfélag með tiltölulega góða fjárhagsstöðu til að taka þátt í rekstri á sveitarfélagi sem er illa rekið af því að það liggur landfræðilega næst því.