136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[14:54]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir stuðningi við ályktunartexta tillögunnar sem er um það að ríkisstjórnin taki upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga um aukna hlutdeild sveitarfélaganna í innheimtum skatttekjum. Ekki verður hjá því komist að ræða það í alvöru hvar marka eigi sveitarfélögum tekjustofna í framtíðinni. Vitað er um áhuga margra í þjóðfélaginu á því að færa frekari starfsemi til sveitarfélaganna og um sumt af því er ekki mikill ágreiningur, held ég, milli stjórnmálaflokka. En þar spila tekjustofnar sveitarfélaganna inn í og hvernig þau geta aflað sér tekna til nýrra verkefna.

Sú umræða sem hér hefur farið fram var sett fram í ákveðnum fullyrðingum. Ég vil taka upp eina fullyrðingu sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir setti fram hér áðan. Hún sagði að afkoma réðist eingöngu af stærðinni og engu öðru. Ég held að við getum ekki leyft okkur að fullyrða þetta svona. En það er ljóst að stærri sveitarfélögin eru betur í stakk búin en minni sveitarfélögin. Ég held að það sé af mörgum öðrum orsökum sem minni sveitarfélög eru í miklum vanda. Ég bara nefni sjávarútvegsbyggðirnar þar sem grunnatvinnurétturinn hefur horfið með tilfærslu á kvótakerfinu.

Ég tel líka að það séu fullkomlega frambærileg rök að samgöngur hefta það sums staðar að menn sameinist í sveitarfélög. Ég nefni lítið sveitarfélag á Vestfjörðum, Árneshrepp á Ströndum, sem dæmi um það. Þó að menn hefðu kannski virkilega hug á því að sameinast sveitarfélögunum innar á Ströndunum eru samgöngur þannig að ekki er upp á það bjóðandi. Því miður eru samgöngur innan Árneshrepps líka þannig að vetrarlagi að það er heldur varla upp á það bjóðandi. Það er sennilega eingöngu vegna þess hve ferðir eru strjálar í hreppnum að vetrarlagi, t.d. milli Reykjarfjarðar, Djúpuvíkur, Árneshrepps og Norðurfjarðar, að þar skuli ekki hafa orðið alvarleg slys vegna snjóflóða. Ef börn þyrftu að fara reglulega á milli byggðarkjarnanna til að sækja skóla, og vegakerfið eins og það er, yrði lífi þeirra einfaldlega hætt að vetrarlagi. Ég segi fyrir mig að ég mundi ekki samþykkja það að samgöngum óbreyttum.

Ég leyfi mér að fullyrða að samgöngur eru sums staðar svo afgerandi þáttur í því að sveitarfélög geti ekki sameinast að ekki er hægt að bjóða upp á það. Vonandi leysum við það í framtíðinni þó að mönnum finnist það ganga hægt. En það er ljóst hvað varðar samgöngur norður í Árneshrepp á Ströndum að leggja þarf nýjan veg um svokölluð Naustvíkurskörð ef þar eiga að vera varanlegar samgöngur að vetrarlagi.

Ég vil taka þetta fram vegna þess að við getum ekki fullyrt svona í eina átt þó að ég taki undir þau efnislegu meginatriði að auðvitað ræður stærð sveitarfélagsins mestu um tekjurnar. En það kunna að vera ýmsar aðrar ástæður. Það verður líka að segjast eins og er að mörg sveitarfélög stóðu lengi vel mjög vel hér á landi. Þá nefni ég sjávarútvegsbyggðirnar meðan þær höfðu aðgang að nægilega miklum aflaheimildum og frelsi meðan fiskveiðistjórnarkerfið vann með byggðunum ef maður getur orðað það þannig. Ég sakna þess mjög að menn skuli ekki hafa tekið sér það fyrir hendur að reyna að verja strandveiðisóknina og sjávarbyggðirnar í þeim hremmingum sem fylgt hafa núverandi útfærslu, óbreyttri, á kvótakerfinu. Því til viðbótar bætist svo við þessi mikli niðurskurður í þorskafla sem ég tel reyndar að sé óþarfur við núverandi aðstæður.

Ég vil líka segja, hæstv. forseti, að þó að menn tali um fjármagnstekjuskattinn, að sveitarfélögin geti átt að fá hlutdeild í honum, er hann mjög óviss og sveiflukenndur tekjustofn. Við upplifum það sennilega á þessu ári og á því næsta þegar við munum sjá að þannig er það. En það á líka við um aðra skattstofna, tekjuskatt og skatt af fyrirtækjum o.s.frv., þegar við lendum í erfiðleikum og árferði sem þannig er þá snarlækka tekjuskattarnir.

Það er því mjög viðkvæmt hvernig á að fara að því að auka tekjur sveitarfélaga. Ég tel að í núverandi stöðu — þá er ég að hugsa til gærdagsins — sé ekki mjög auðvelt við það að fást að auka skatttekjur í þjóðfélaginu. Jafnvel þó að menn vildu hækka hlutfall sveitarfélaganna — t.d. að rúnna af heildarskattgreiðslur einstaklinga við 36%, en þau eru 35,72% í dag, væri þá verið að hækka hlutdeild sveitarfélaganna um kannski 0,28% til þess að rúnna það af á 36%. En það er aukin skattheimta á fólk þó að sú viðbót verði mörkuð til sveitarfélaganna sem hámark, sem mundi þá breytast úr 13,06% í 13,34%. Það er ekki mjög auðvelt að tala um þetta eins og ástandið er hjá okkur.

Það er síðan algjörlega rétt, sem hér var sagt í umræðunni, að við erum með fjárlögin undir og við sögðum það flest í þessum ræðustól þegar við vorum að ræða fjárlögin við 1. umr. að þau væru í besta falli spádómur við núverandi aðstæður. Það mundi mjög margt breytast í þeim stærðum sem við værum að fjalla um þar og mjög óvíst um það hvernig þau litu út.

Þar lögðum við þá kvöð á okkur öll að reyna með öllum mögulegum hætti að tryggja að þjóðfélagið okkar haldi áfram á sem bestan hátt og atvinnuleysið verði sem minnst. Það gerum við auðvitað líka með því að taka einhverja áhættu með fjárlögin eins og reyndar er boðað í fjárlögunum upp á 57 milljarða halla. Það er því að mörgu að hyggja þegar við tölum um þetta og ég held að eins og staðan er í dag sé afar nauðsynlegt að taka upp viðræður milli ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um hvernig tryggja eigi stöðu sveitarfélaganna á næsta ári og því þar næsta. Því ég held að það sé ekki alveg auðhlaupið hjá okkur út úr þeim erfiðleikum sem við erum í, íslenska þjóðin, þó að við höfum væntanlega kraft og dugnað, þ.e. ef við tökum til þess sem við höfum í okkur að eðlisfari að vinna, vinna og vinna mikið.

Því var aldrei lofað þegar við vorum borin í þetta þjóðfélag að hér gætum við lifað ár og síð og alla tíð með góðæri og gullskeið í munni. Við þurfum stundum að taka á okkur erfiðleika við að halda úti þjóðfélagi okkar. Ég segi fyrir mig: Þá ber okkur að gera það. Þá ber okkur einfaldlega að gera það. Ég held að í gærdag höfum við hér í hv. Alþingi sýnt að við munum taka á þeim erfiðleikum sem að höndum ber og reyna að vinna okkur út úr þeim. Við getum svo deilt um það hvernig þeir komu til, hver bjó þá til, hverjir hlupu úr landi, hverjir voru kosnir menn ársins 2006 og búa í Englandi með stórkostlegar tekjur — eru farnir héðan o.s.frv. Við getum deilt um þetta allt saman. En það breytir ekki því að ábyrgð okkar varðandi sveitarfélögin og fjármál ríkisins á næsta ári er mikil og snýr líka að afkomu fólksins þannig að verkið er vandasamt þó ég styðji efnislega efni tillögunnar.