136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[15:39]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins um það sem hv. þingmaður fjallaði um í sínu seinna andsvari sem snýr að sameiningu sveitarfélaga og þeim viðræðum. Auðvitað er það svo að hvert og eitt sveitarfélag getur sameinast núna eins og sum eru að gera og nýlegt dæmi er um, þ.e. Þingeyjarsveit og Aðaldælahreppur sem gerðu það af frjálsum og fúsum vilja og þannig verður það áfram. En ég hef líka sagt á þessum landshlutafundum að ég sé fyrir mér að hafa sólarlagsákvæði við það ef við ætlum að hækka íbúatöluna þannig að sveitarfélögin gera þetta að sjálfsögðu af frjálsum og fúsum vilja í tvö, þrjú ár eða eitthvað svoleiðis. Ég hef stundum nefnt árið 2014 þegar þar næst verður kosið til sveitarstjórna, að þá verði menn með töluvert öðruvísi landakort fyrir framan sig, af því við notum það nú um sveitarfélögin.

Það er ákaflega gaman að skoða Íslandskortið og hvernig því er skipt niður í alls konar svæði varðandi vinnueftirlit, varðandi heilbrigðiseftirlit og svo framvegis. Það liggur við að við höfum forskriftina fyrir okkur ef út í það færi.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, virðulegi forseti, að auðvitað er það þannig. Ég tek eftir því að þessi mikla og góða umræða um sameiningu sveitarfélaga virkar vel og hún er kannski að ýta við einhverjum sveitarfélögum sem hafa spáð í hvort þau ættu ekki bara að taka upp viðræður sem kannski höfðu verið lagðar á hilluna og fara að ræða saman, og það kemur bara frjáls sameining út úr því sem er auðvitað hið besta mál. En eins og einhver hér sagði áðan þá hefur náðst mikill árangur við þau samningaáform sem hafa verið undanfarið. Sveitarfélögum hefur mikið fækkað og svo gætum við á einhverjum tímapunkti þurft að skoða þetta á hinu háa Alþingi til þess að klára dæmið og setja það virkilega upp til að styrkja sveitarfélögin í landinu og þá íbúa sem eiga að fá þjónustu í viðkomandi sveitarfélögum.