136. löggjafarþing — 9. fundur,  8. okt. 2008.

stimpilgjald.

26. mál
[13:32]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hef ásamt meðflutningsmönnum mínum, Guðjóni Arnar Kristjánssyni og Grétari Mar Jónssyni, lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum. Þegar unnið var að þessu frumvarpi voru aðstæður töluvert öðruvísi í þjóðfélaginu en þær eru í dag. Frumvarpið var lagt fram til að greiða fyrir almennum viðskiptum í landinu með fasteignir eins og minnst var á þegar til umræðu var lagafrumvarp sem nú hefur orðið að lögum, nr. 59/2008, þar sem stimpilgjald við kaup á fyrstu íbúð var fellt niður. Við þær umræður gerði ég grein fyrir því að ég teldi að það ætti að ganga lengra vegna þess að það væri ljóst að yfir væri að síga mjög alvarleg kreppa í þjóðfélaginu. Á þeim tíma, þ.e. í vor, var því harðlega mótmælt og talið að það væri heldur betur eitthvað annað sem væri á döfinni.

Nú liggur fyrir að það hafa dunið á okkur áföll og kreppa langt umfram það sem nokkurn óraði fyrir. Nú er ástandið þannig að spurningin er hvort eðlileg viðskipti haldi áfram í þjóðfélaginu og hvort gjaldmiðillinn þjóni lengur nokkrum tilgangi og það er alvarlegt mál. Það er viðfangsefni Alþingis, og hlýtur að vera fljótlega, að kalla eftir aðgerðum sem dugi til að hægt verði að stunda viðskipti með eðlilegum hætti í landinu. En eins og nú háttar til er því miður þannig komið að gjaldmiðilskerfið er hrunið og það verður að vinda bráðan bug að því að koma hlutum til þess vegar að eðlileg samskipti, eðlileg viðskipti og eðlileg atvinnustarfsemi geti haldið áfram og þrifist í landinu.

Það frumvarp sem ég mæli hér fyrir var viðleitni í þá átt að greiða fyrir almennum viðskiptum með fasteignir þannig að fólkið í landinu þyrfti ekki að greiða sérstakan skatt sem vikið er að í stjórnarsáttmálanum að sé óréttmætur skattur, að sé skattur sem eigi að fella niður og þá segi ég og sagði þegar við vorum með frumvarpið í smíðum: Það er nauðsynlegt að gera þessar ráðstafanir strax vegna þess að ástandið á þessum markaði er þannig að það er orðið ískalt, viðskipti eru að leggjast af. Þetta var ákveðinn lítill liður í því að örva þessi viðskipti. Ég tel samt sem áður að þrátt fyrir gerbreytt ástand og mun alvarlegra en mann óraði fyrir þegar þetta frumvarp var smíðað og lagt fram, þá sé þetta liður í því að gera viðskipti með fasteignir auðveldari og einfaldari og einn liður í þeim ráðstöfunum sem Alþingi verður að gera og grípa til til þess að þjóðfélagið haldi áfram, tannhjól atvinnulífsins virki með eðlilegum hætti.

Virðulegi forseti. Það var ekki hjá því komist að víkja að þessu atriði við upphaf umræðunnar vegna þess að ástandið breytist svo hratt í samfélaginu að manni satt að segja óar við því hvernig komið er og óar við því að það skuli ekki vera komin nein heildstæð áætlun eða stefnumótun um það með hvaða hætti og hvernig brugðist verði við. Það er alvarlegasti hluturinn sem við er að eiga í samfélaginu, að ákvarðanir hafa ekki legið fyrir, stefnumörkun hefur ekki farið fram og engin hugmyndafræðileg nálgun um það með hvaða hætti og hvernig þjóðin á að vinna sig út úr þeim vanda sem við er að etja, þeim vanda sem ógnar nú sjálfstæðu lýðræðisþjóðfélagi í landinu. Það er viðfangsefni okkar að koma hlutum þannig fyrir að það verði ekki sú vá sem leiði til þess að atvinnulífið stöðvist og viðskipti með gjaldmiðil og samskipti á eðlilegum grundvelli leggist af. Það hlýtur að verða viðfangsefni okkar næstu daga og keppikefli að þjóðin rísi upp og frá því öngþveiti sem hefur skapast, því miður, vegna langvarandi óstjórnar gjaldeyris- og peningamála í landinu.

Ég bið afsökunar á þessum útúrdúr en þetta var aðeins til skýringar á því, virðulegi forseti, að þrátt fyrir að þetta frumvarp skipti miklu máli og mjög mikilvægt sé að það fái afgreiðslu til þess að greiða fyrir almennum viðskiptum — því að þau munu að sjálfsögðu komast á fyrr eða síðar og vonandi fyrr, af því að við skulum öll standa að því að hlutirnir þokast áfram — þá skiptir máli að liðka fyrir þeim samskiptum sem hér er um að ræða.

Breytingin sem frumvarpið felur í sér er fyrst og fremst sú að við 35. gr. laganna um stimpilgjald bætast við þrír nýir töluliðir sem fela það í sér að skuldabréf og tryggingabréf sem tryggð eru með veði í fasteign og gefin eru út vegna kaupa á íbúðarhúsnæði verði stimpilfrjáls. Í öðru lagi að kaupsamningar sem gefnir eru út vegna kaupa á íbúðarhúsnæði verði stimpilfrjálsir. Í þriðja lagi að afsöl sem eru gefin út vegna kaupa á íbúðarhúsnæði verði stimpilfrjáls.

Þetta þýðir að öll stimpilgjöld vegna viðskipta með íbúðarhúsnæði, öllum þeim skjölum sem þarfnast þinglýsingar eða má þinglýsa vegna kaupa á íbúðarhúsnæði verði stimpilfrjáls. Þarna erum við í raun ekki að bæta miklu tekjutapi við það sem verður vegna kaupa á fyrstu íbúð sem kveðið var á um í lögum nr. 59/2008. Hér er um útvíkkun að ræða sem hefur það í för með sér að þessi samskipti verði með eðlilegri hætti en verið hefur og að eitt sé látið yfir alla ganga. Lögin verða auk þess einfaldari, markvissari og gagnsærri. Þannig kemur fram í 2. gr. að 35. gr. a falli brott. 35. gr. a er í raun þau lög sem samþykkt voru í vor, nr. 59/2008, þar sem fella á niður stimpilgjald vegna kaupa á fyrstu íbúð. Það eru þau lög sem þá falla brott nái frumvarpið fram að ganga. Þá er miklu eðlilegri samfella í lögunum og ég verð að segja að við þá lagasmíð í lögum nr. 59/2008 var í raun farin mjög röng lagatæknileg aðferð við það að hengja við sérstaka aukagrein í staðinn fyrir að skýra það út í þeim töluliðum sem kveða á um stimpilfrelsi í 35. gr. laganna.

Ákvæði þessa frumvarps, nái það fram að ganga, þýðir þá að öll þau verðbréf, skuldabréf, kaupsamningar eða afsöl sem þinglýsa má eða skal vegna kaupa á íbúðarhúsnæði verða stimpilfrjáls. Stimpilgjald fellur niður gagnvart venjulegu fólki, gagnvart venjulegum einstaklingum.

Það ber að minna á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að stimpilgjald í fasteignaviðskiptum verði afnumið á kjörtímabilinu. Síðan segir: þegar aðstæður á fasteignamarkaði leyfa. Hvað skyldi þetta orðalag nú þýða, virðulegi forseti, „þegar aðstæður á fasteignamarkaði leyfa“? Ég bendi á að þegar þetta var tekið upp í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þá var um að ræða gríðarleg umsvif á fasteignamarkaði. Kaupsamningar höfðu aldrei verið fleiri en á því tímabili og það voru mjög lífleg og fjörug viðskipti. Ég skildi því þetta ákvæði stjórnarsáttmálans með þeim hætti að það þyrfti að róast á fasteignamarkaði og þá væru þær aðstæður komnar sem gerðu það að verkum að þessi óréttláta skattheimta yrði afnumin. Ég átti von á því og gerði ráð fyrir því að um leið og fasteignamarkaðurinn breyttist og kólnun yrði á fasteignamarkaðinn þá yrði brugðist við og stimpilgjald fellt niður en sú hefur ekki orðið raunin, því miður. Í framhaldi af því má minna á að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008 í tengslum við gerð kjarasamninga, kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Þá mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að stimpilgjöld falli niður vegna lána til kaupa á fyrstu fasteign.“

Þarna var verið að þrengja, miðað við þá yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf í stjórnarsáttmálanum þar sem talað var um að stimpilgjald yrði afnumið á kjörtímabilinu. Þarna var eingöngu verið að tala um fyrstu fasteign og ríkisstjórnin var því að selja hluta af kosningaloforðum sínum til verkalýðshreyfingarinnar til að liðka fyrir samningum. Það er í sjálfu sér ágætt að selja þjóðinni fyrst og verkalýðshreyfingunni síðan og allir verða ánægðir, nema ég. Ég er ekki ánægður með að þannig sé farið að að það sé ekki eitt látið yfir alla ganga hvað varðar skattheimtu. Ef við erum að fella niður stimpilgjald af hlut vegna þess að ákveðinn aðili er að kaupa íbúðarhúsnæði þá eigum við að láta það ganga yfir línuna þannig að hver sá sem er að kaupa íbúðarhúsnæði njóti þess en ekki að einn þurfi ekki að greiða en annar losni við það, þannig að við höfum einföld almenn heildarlög hvað þetta varðar.

Stjórnarfrumvarpið sem fylgdi í kjölfarið af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar lögfesti það sem nú er orðin 35. gr. a í lögum nr. 36/1978, þ.e. um stimpilfrelsi vegna kaupa íbúðarhúsnæðis í fyrsta sinn. Ég ætla ekki að ítreka þau sjónarmið og lagarök sem mæltu gegn því að það næði fram að ganga með þeim hætti sem þar var um að ræða en bendi á, virðulegi forseti, að með því bjuggum við til alls konar vandamál í sambandi við þinglýsingar á þeim skjölum sem þarna var um að ræða. Við bjuggum til vandamál vegna þess að það kallar á sérstakt eftirlitskerfi og könnun af hálfu þinglýsingadómara til að athuga hvort viðkomandi á að greiða stimpilgjald eða ekki hverju sinni. Í því tilviki sem hér um ræðir, verði þessi lög samþykkt og nái fram að ganga, þá er ekki nauðsyn að hafa slíkt eftirlitskerfi því það eru allir jafnir fyrir lögunum hvað þetta varðar, þ.e. að stimpilgjald er ekki greitt vegna viðskipta með íbúðarhúsnæði.

Ég ætla ekki að að ítreka þau sjónarmið og lagarök sem mæltu gegn því að það næði fram að ganga en ég bendi á að með því bjuggum við til alls konar vandamál varðandi þinglýsingar á þeim skjölum sem um er að ræða. Við bjuggum til vandamál vegna þess að það kallar á sérstakt eftirlitskerfi og könnun af hálfu þinglýsingardómara til að athuga hvort viðkomandi á að greiða stimpilgjald eða ekki hverju sinni. Í því tilviki sem hér um ræðir þegar lögin hafa verið samþykkt, nái þau fram að ganga, verður ekki nauðsyn að hafa slíkt eftirlitskerfi því að allir eru þá jafnir fyrir lögunum ef stimpilgjald er ekki greitt vegna viðskipta með íbúðarhúsnæði.

Ég bendi á að á því ári sem nú er að líða hafa fasteignaviðskipti verið mjög lítil og mun minni en undanfarin ár. Einkum hefur dregið úr viðskiptum með íbúðarhúsnæði. Ég hygg að viðskipti með iðnaðar- og atvinnuhúsnæði séu nú nánast engin en það er annað mál.

Það kemur margt til varðandi þá kólnun sem orðið hefur og er að verða á markaðnum. Einkum er nú um að ræða skort á lánsfé á viðunandi kjörum. Ég ítreka það sem ég hef nú reyndar margsagt áður að mér finnst mikilvægt að stuðla að því að eðlileg viðskipti með fasteignir geti átt sér stað á nýjan leik og niðurfelling stimpilgjalds á löggerningum sem varða viðskipti með íbúðarhúsnæði er liður í því að glæða viðskipti með slíkar fasteignir.

Þá bendi ég á að frumvarpið er í raun algjörlega í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þannig að með því að leggja það fram spörum við þingmenn Frjálslynda flokksins sem stöndum að frumvarpinu ríkisstjórninni frumvarpsgerð í þessu efni og ættu menn að taka fagnandi undir það frumkvæði sem við sýnum til þess að bæta kjör fólksins í landinu.

Ég tel nauðsynlegt að fram komi að verði frumvarpið að lögum leiðir af sjálfu að ákvæði laga nr. 59/2008 falla brott þar sem ákvæði þess eru óþörf. Samt sem áður töldum við eðlilegt að hafa sérstakt ákvæði um að 35. gr. a laganna félli brott. Gengið er frá því með eðlilegum hætti vegna þess að ef fallist yrði á að bæta við þeim þremur töluliðum sem lagt er til að komi við 35. gr. laganna leiddi af sjálfu sér að ákvæði sem kveðið er á um í 35. gr. a eru algjörlega óþörf. Þeim er í rauninni eytt út með því að taka ákvæði þessara þriggja töluliða inn í lögin. Með samþykki frumvarpsins yrði starf þinglýsingar því einfaldað og auðveldað og ekki væri nauðsyn að viðhalda flóknu eftirlitskerfi með borgurunum. Þá vil ég ítreka að frumvarpið felur í sér heildstæðar reglur um afnám stimpilgjalds á löggerningum sem varða íbúðarkaup. Viðskipti með íbúðarkaup yrðu þar af leiðandi til muna einfaldari.

Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þau og sent ríkisstjórn til þóknanlegrar fyrirgreiðslu eins og kveðið er á um. En eins og ég gat um í upphafi máls míns, virðulegi forseti, er þetta einföld aðgerð sem á að vera nokkuð ljóst hvað felur í sér. Hún felur í sér í raun eðlilegri lagasamræmingu varðandi ákvæði um stimpilgjöld, setur alla borgara í sömu stöðu við kaup á íbúðarhúsnæði en mismunar ekki borgurum eftir því hvort þeir hafa keypt íbúðarhúsnæði áður. Í þriðja lagi er um að ræða einföldun og miklu eðlilegri lagasmíð en nú er um að ræða með þeim lögum sem eru lög nr. 59/2008 þar sem 35. gr. a var tekin inn í lögin.

Sé það vilji ríkisstjórnarinnar og þingmanna ríkisstjórnarflokkanna að standa við þau fyrirheit sem gefin hafa verið um að fella niður stimpilgjald á kjörtímabilinu miðað við að þær aðstæður séu fyrir hendi sem talað er um er útilokað annað en að þeir gjaldi jáyrði við því að það sé gert með þeim einfalda hætti þar sem þó ekki er farið lengra varðandi efndir á loforði ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmála en varðandi íbúðarhúsnæði. Ég vek athygli á að um það hefur verið fjallað, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa báðir talað um stimpilgjaldið sem gjald sem ekki væri eðlilegt að viðhalda. Hæstv. forsætisráðherra talaði um það á sínum tíma að hér væri um óréttláta skattheimtu að ræða. Hvað á að gera þegar um óréttláta skattheimtu er að ræða? Þá er tvennt til: Að viðhalda óréttlætinu eða að afnema það. Hvað skyldi nú vera nærtækast og best að gera í lýðræðissamfélagi? Hvað er það sem við verðum að gera kröfur til að stjórnvöld geri í lýðræðissamfélagi? Jú, að þau láti af óréttlætinu. Það er það sem um er að ræða fyrst hér sé um óréttmæta skattheimtu að ræða sem bitnar á fólkinu í landinu þá af sjálfu leiðir að taka ber fyrir þessa óréttlátu skattheimtu, afnema hana. Það er það sem verið er að gera tillögu um í frumvarpinu, virðulegi forseti, að þessi óréttmæta skattheimta verði afnumin.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns er hér um að ræða tiltölulega einfalda lagfæringu sem kostaði ríkissjóð mjög óverulega fjármuni. Þá væri um mikla réttarbót að ræða fyrir fjölda fólks sem væri að reyna að koma sér upp þaki yfir höfuðið og sem stæði í því að fjárfesta. Ríkisvaldið ætti að reyna að gera því fólki sem auðveldast fyrir. Ég er þeirrar skoðunar að það skipti gríðarlegu máli í samfélagi okkar að við eigum sjálfstæða einstaklinga sem hafi möguleika á því að verða eignafólk, að rífa sig úr viðjum skuldaklafa og verða eignafólk. Það finnst mér skipta gríðarlegu máli.

Hér hefur ekki verið fallist á að lánakjör væru með sama hætti og gerist í nágrannalöndum okkar. Íslenskir lántakendur, ungt fólk, íbúðarkaupendur, hafa þurft að sæta hreinum afarkostum miðað við lánakjör í næstu nágrannalöndum okkar. Þetta fólk hefur samt sem áður haldið áfram. Það hefur staðið sig og viljað verða eignafólk. Það er nokkuð sem ríkisvaldið verður að hvetja til og örva.

Nú þegar peningakerfið er farið þá leið sem raun ber vitni er eðlilegt að margir velti fyrir sér hvernig verði með þær fjárfestingar sem fólk hefur komið sér upp. Þá fyrst er þjóðríkinu og lýðræðissamfélaginu alvarleg hætta búin þegar venjulegt fólk sér ekki möguleika á því að geta staðið við skuldbindingar sínar. Það er það þjóðfélagsástand sem við berum ábyrgð á að reyna af öllum mætti að koma í veg fyrir að skapist eða haldist til langframa í þessu landi. Ég hygg að hér hafi því miður skapast það ástand og það er viðfangsefni okkar að vinna að því að þessu ástandi linni, að hér verði eðlilegt þjóðfélagsástand.

Við í Frjálslynda flokknum höfum bent á að hér þyrftu að vera eðlileg lánakjör. Það þyrftu að vera lánakjör sem væru sambærileg þeim sem gilda í okkar heimshluta. Við höfum líka gert kröfu til þess að við hefðum gjaldmiðil sem væri tengdur stærra myntkerfi þar sem hægt væri að binda ákveðinn stöðugleika og traust við.

Því miður liggur málið nú þannig fyrir að þar sem ekki var farið að þeim hugmyndum og tillögum sem við höfum gert kröfu til heldur farið óvarlega að í peningamálastefnunni og lánastefnunni gagnvart almenningi. Þess vegna stöndum við í þessum sporum í dag, því miður.

Miðað við þær aðstæður sem nú eru hefði ég kosið að ég væri hér að mæla fyrir frumvarpi um miklu víðtækari ákvæði um með hvaða hætti almenningi í landinu væri rétt sú nauðsynlega hjálparhönd sem ríkisvaldið þarf að rétta í svona tilvikum. Að við værum með heildarstefnu um hvernig við siglum út úr þeim brimgarði sem hver stjórnmálaforinginn á öðrum hefur talað um úr þessum ræðustól á síðustu dögum að við munum komast út úr. En að sjálfsögðu komast menn ekki út úr neinum brimgarði nema þeir viti og kunni og átti sig á því hvað gera eigi. Það er þar sem við þurfum að taka á. Sú meginskylda sem liggur á löggjafarvaldinu í landinu, fjárveitingavaldinu, er spurningin um að hér séu þjóðfélagsaðstæður sem tryggi eðlilega og góða lífsafkomu fyrir venjulegt fólk. Þar af leiðandi verðum við að gera þær lagfæringar sem nauðsynlegar eru. Þótt ég hefði kosið að ég væri að mæla fyrir mun víðtækari löggjöf en hér er um að ræða voru aðstæður aðrar þegar þetta frumvarp var smíðað og lagt fram en nú. Það hefur samt sem áður fullt gildi. Það er hins vegar okkar sem hér vinnum að því hörðum höndum að gera frekari lagfæringar og breytingar til þess hreinlega að sigla út úr þeim brimskafli sem við horfum nú á og til þess að eðlilegt mannlíf og góð lífskjör megi haldast í landinu.