136. löggjafarþing — 9. fundur,  8. okt. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

35. mál
[14:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fékk í engu svar við fyrirspurn minni frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni. Ég hef ekki tekið afstöðu til frumvarpsins. Það hefur ekki komið fram af minni hálfu hvort ég er tilbúin eða ekki tilbúin að gengisbreyta lánum námsmanna erlendis. Málið snerist ekki um það. Ég spurði hv. þingmann að því hvort hann mundi leggja til að á sama hátt og námsmenn erlendis hefðu orðið fyrir gengisfalli krónunnar — hvort hann mundi koma með samsvarandi frumvarp eða leggja til að aðrir sem hefðu lent í sömu sporum fengju sömu meðferð. Ég vænti þess að hv. þingmaður, fyrrverandi sessunautur minn, Birkir Jón Jónsson, svari þeim fyrirspurnum sem til hans er beint en vaði ekki út um víðan völl um það hvort ég hafi lesið eða kynnt mér eitt eða annað. Það er ekki málið í þessu andsvari mínu að fá svör frá honum um það hvort ég hafi lesið eða kynnt mér hluti. Ég hef kynnt mér hlutina ágætlega. Ég sit í menntamálanefnd. Ég er kennari og skólastjóri. Ég veit nákvæmlega um hvað málið snýst. En fyrirspurnin sem ég bar fram til hv. þingmanns er einföld og ég bið um svar við henni — en ekki útúrsnúninga, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, það sæmir þér ekki.